Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
29.8.2009
Þjóðaratkvæðagreiðsla eða ekki
Ég hef aldrei tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um neitt mál frekar en aðrir Íslendingar, enda hafa þær aldrei farið fram. Eftir heiftúðugar umræður undanfarinna mánaða - ef umræður skal kalla - um tvö stórmál, ESB og Icesave, finnst mér stór spurning hvort þjóðin sé nógu þroskuð og skynsöm fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk hefur verið gífuryrt og sleggjudómar og svívirðingar tröllriðið umræðunni. Líkast til hafa þeir stóryrtustu fælt fleiri frá sínum málstað en þeir hafa laðað að. Öfgar á báða bóga hafa yfirgnæft skynsemisraddir og heilbrigða, hófstillta umræðu.
Eins og fram kom í Krossgátuþætti 25. apríl sl. þar sem Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir veltu vöngum yfir ýmsu, skortir Íslendinga sárlega rökræðuhefð. Sá skortur hefur svo sannarlega endurspeglast í pontu á Alþingi þjóðarinnar þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur stigið fram til að gaspra og gjamma, sletta skít á báða bóga og tapað sér í tittlingaskít. Á þessu hafa þó verið heiðarlegar undantekningar, sem betur fer.
Ég fékk bréf í gær frá Hirti Hjartarsyni, baráttumanni miklum og talsmanni þess að forseti Íslands samþykki ekki Icesave-lögin. Mér er ljúft og skylt að birta bréfið hans. Ég er sammála mörgu sem í því stendur þótt ég sé ekki sannfærð um að þjóðaratkvæðagreiðsla sé tímabær eins og ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Vonandi mun ástandið lagast áður en ESB-samningur verður kynntur og lagður í dóm þjóðarinnar. Talan sem Hjörtur nefnir er frá í gær, margir hafa bæst við síðan.
Meirihluti þingmanna hefur samþykkt frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-hneykslisins. Málið er þar með úr höndum Alþingis. Á vefsíðunni www.kjosa.is er safnað undirskriftum við áskorun til forseta Íslands um að synja frumvarpinu staðfestingar þannig að almenningur geti gert út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meginrökin eru þríþætt: Fjárskuldbindingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðin gangist undir er fordæmalaus, bæði stærð skuldbindingarinnar og hvernig til hennar var stofnað. Þótt líta megi svo á að almenningur á Íslandi beri ábyrgð á bankastarfseminni" að baki Icesave, þá verður tæplega sagt að almenningur eigi sök á henni. Sama er að segja um stórfellda vanrækslu íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna, en allt er þetta efniviður í langvinnt ósætti. Í öðru lagi á almenningur kvölina af Icesave-hneykslinu, hvort sem ríkisábyrgðinni verður hafnað eða hún samþykkt. Í þriðja lagi virðist fullreynt að ná sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um málið eftir hefðbundnum leiðum. Hver þessara röksemda, útaf fyrir sig, nægir til þess að réttlæta þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvær fyrst nefndu snúast um sanngirni og réttlæti. Síðast talda röksemdin lýtur að sátt. Í einu orði mætti nefna þetta lýðræði. Röksemdirnar sem tilteknar eru í áskoruninni eru ekki fleiri, en hin sögufræga gjá milli þings og þjóðar er látin liggja milli hluta. Hún er vel kunn.
Sé litið til ástandsins í samfélaginu, þyngjast enn rökin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríkir ógnvænlegt vantraust á stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, embættismönnum og stjórnsýslustofnunum. Vantraust sem líklega er fordæmalaust í vestrænu lýðræðisríki". Stjórnmálastéttin hefur að formi til umboð þjóðarinnar í málinu, en ekkert umfram það. Reiðin kraumar. Icesave-krísan er orðin að táknmynd hrunsins og almenningur verður að fá að gera út um hana sjálfur beint og milliliðalaust. Að öðrum kosti verður Icesave-gremjan viðvarandi næstu árin til stórkostlegs skaða fyrir íslenskt samfélag og lífsnauðsynlega endurlausn þess. Farsæl niðurstaða í Icesave-deilunni er sú sem þjóðin nær sátt um. Niðurstaða sem magnað ósætti ríkir um er röng. Við þurfum að jafna ágreininginn um Icesave í samfélaginu, og það gerum við með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þeir eru sannarlega til sem vonast eftir gruggugu vatni að fiska í.
Forsætisráðherra sagði Icesave eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar fyrir og síðar." Hvað þarf til á Íslandi þannig að almenningur fái að gera sjálfur út um mál, milliliðalaust? Af hverju er almenningur á Íslandi aldrei spurður um neitt? Okkur stafar ekki hætta af lýðræði. Ekki af því að almenningur fái meiru ráðið um örlög sín. Það var ekki lýðræði sem keyrði samfélagið í þrot. Íslenskt samfélag er statt þar sem það er statt vegna ofríkis íslenskra stjórnmálaflokka og tortryggni stjórnmálamanna í garð lýðræðishugmynda og vantrú þeirra lýðræðislegum vinnubrögðum. Kerfið sem þeir byggja völd sín á er komið að fótum fram.
Forsetaembættið getur ekki tekið afstöðu til málsins. Embættið getur aðeins gert þjóðinni kleift að eiga síðasta orðið, samanber 26. gr. stjórnarskrárinnar. Aumt væri að gefa frá sér baráttulaust stjórnarskrárvarinn rétt sem almenningur á til þess að taka mál í sínar hendur. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Vel á fimmta þúsund manns hefur þegar skorað á forseta Íslands að vísa málinu í okkar hendur". Það eru um 1,5% kjósenda, en á Ítalíu og í Sviss, til dæmis, myndi það duga ríflega til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Áskorunin er sett fram í trausti þess að forseti Íslands fallist á röksemdirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Við vonum samt og treystum á framtakssemi almennings - þeirra sem munu borga Icesave-reikninginn. Tíminn er naumur.
Hjörtur Hjartarson,
talsmaður Í okkar hendur" á vefsíðunni www.kjosa.is
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. og 29. ágúst 2009
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
13.8.2009
Forsætisráðherra í Financial Times
Undir kvöld birtist grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur í netútgáfu Financial Times. Ég stelst til að birta hana hér í von um að þeir hjá FT sýni því skilning.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.6.2009
Heimsk þjóð með gullfiskaminni?
Gífurleg reiði er í þjóðfélaginu vegna Icesave-samninganna. Mér heyrist sú reiði vera þverpólitísk með öllu þótt alltaf glitti í óþolandi og að því er virðist óhjákvæmilega flokkadrætti og skotgrafahernað. En svo eru þeir sem - ýmist af flokkspólitískum hvötum eða ekki - minna landsmenn á hvað þeir séu nú vitlausir og með mikið gullfiskaminni. Þetta Icesave-dæmi sé búið að vofa yfir mánuðum saman og sé ekkert nýtt. Þeir spyrja hvort við sem erum reið séum búin að gleyma því? Samningurinn eigi ekkert að koma á óvart - og því ekki að valda vonbrigðum eða reiði. Einmitt það.
Myndi einhver segja viðlíka við mann sem var að missa konu sína úr krabbameini sem þau höfðu barist við saman í tja... segjum þrjú ár? "Það þýðir ekkert að reiðast eða gráta, Palli minn. Þú ert nú búinn að vita í hvað stefndi svo lengi." Auðvitað dytti engum í hug að segja þetta. Mannssálin er skrýtin skepna og eitt af því sem einkennir hana er vonin. Þótt maður búist við hinu versta og viti að það komi þá vonar maður í lengstu lög að málin leysist farsællega. Hangir í voninni fram í rauðan dauðann. Alveg sama hvað um er að ræða. Barnalegt? Kannski. En mannlegt er það.
Þannig var það með íslensku þjóðina og Icesave. Við vonuðumst eftir réttlæti. Þótt ekki væri nema lágmarksréttlæti. Icesave-samningurinn á nákvæmlega ekkert skylt við réttlæti. Þar er verið að binda íslenskan almenning á skuldaklafa án þess að þessi sami almenningur hafi nokkuð til saka unnið, geti á neinn hátt varið sig eða haft áhrif á niðurstöðuna. Það er kjarni málsins. Samningurinn hefur verið yfirvofandi lengi. Við vonuðum það besta en fengum loks skellinn. Vondan, sáran, óréttlátan skell. Auðvitað erum við reið.
Ómar Valdimarsson kallar okkur gullfiska og segir reiðina skrípalæti. Egill Helgason hefur birt þrjár bloggfærslur til að sýna okkur fram á hvað þetta sé eðlileg niðurstaða. Við eigum að borga skuldir okkar. Í þeim síðasta minnir hann á hve Finnar voru stoltir af að hafa borgað skuldir sínar, einir þjóða, eftir fyrri heimsstyrjöldina. Mörður Árna segir of seint að vera svartsýn. Hann minnist reyndar ekki á hvort það er of snemmt eða seint að vera reiður. Einhverjir tala um lagatæknileg atriði og þar ber einna hæst gildi jafnræðisreglunnar. Allir innistæðueigendur eiga að vera jafnir, jafnt innlendir sem erlendir. Ég get tekið undir það, en ekki varist þeirri hugsun um leið hvort allir þjófar eigi ekki líka að vera jafnir. Allir glæpamenn. Verður Björgólfur Thor látinn borga eins og við hin? Ríkir eitthvert jafnræði milli okkar og hans? Verður Sigurjón Árnason, faðir Icesave og sem kallaði þessa reikninga "vöru" í sjónvarpsviðtali (sjá neðsta myndbandið hér), tekinn og fangelsaður eins og Lalli Johns eða Árni Johnsen? Hvítbókin auglýsir eftir Icesave-mönnum hér og Eyjan segir frá grein um útrásarglæpamennina hér, mbl.is hér.
Ég hef engu gleymt. Á alla sögu hrunsins í máli og myndum í tölvunni minni. Ég veit mætavel og hef margoft skrifað um hverjir eru ábyrgir. Ég kenni ekki Vg um Icesave og aðeins sumum í Samfylkingunni. Núverandi stjórn sem slíkri er ekki um að kenna. Hún er að þrífa skítinn eftir 20 ára óstjórn, geðveiki og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Og það er holur hljómur í gagnrýni Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna. Ég get ekki með nokkru móti tekið mark á orðum þeirra, upphrópunum og ásökunum. Flokkarnir þeirra eru ábyrgir fyrir Icesave, svo mikið er víst. Icesave varð til á þeirra vakt og þeir gripu ekki til nauðsynlegra og vel mögulegra ráðstafana til að firra íslenskan almenning ábyrgð á þeim. Þeir, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, steinsváfu á vaktinni. Við gjöldum þess nú.
Og ég er reið. Öskureið. Reiði mín er mjög eðlileg og ég tel mig eiga fullan rétt á að tjá hana án þess að vera uppnefnd gullfiskur eða eitthvað álíka niðurlægjandi. Að segja reiði mína óréttmæta eða kjánalega er í mínum huga svipað og að segja ekklinum Palla að hann sé aumingi ef hann reiðist vegna dauða konu sinnar og að sorg hans sé skrípalæti. Jafnvel þótt hann hafi vitað í hvað stefndi.
Mér er ekkert sagt um þessa samninga, enginn gerir neitt til að gera mér þá léttbærari, enginn útskýrir nokkurn hlut fyrir mér. Það er bara sagt að þetta sé nauðsynlegt. Þó segja lagaspekingar og ýmsir aðrir að svo sé ekki. Hverjum á maður að trúa? Hvar er réttlætið í þessu öllu saman? Hvar er réttlætið í því að þeir sem eru augljóslega ábyrgir ganga lausir, hafa það bara helvíti fínt, takk og baða sig í peningum eins og Jóakim Aðalönd? Þeir brutust inn hjá okkur og stálu öllu steini léttara. En okkur, fórnarlömbunum, er stungið inn fyrir glæpinn á meðan þeir, glæpamennirnir, ganga lausir og njóta þýfisins. Þó er vitað hverjir þeir eru og hvar er hægt að ná í þá.
Mig þyrstir eftir réttlæti. Ég vil fá upplýsingar. Ólafur Ísleifsson, hagfræðiprófessor, komst ágætlega að orði í fréttum RÚV í gærkvöldi. Ég tek undir orð hans: "Það getur vel verið að þetta séu ekki mistök. En það verður þá að minnsta kosti að sýna fólki fram á það".
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (119)
1.5.2009
Fleipur, firrur og fjarstæður um ESB
Í þessum pistli auglýsti ég eftir vitrænum, upplýstum umræðum um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Allt of margt sem sagt er um aðild Íslands að ESB hefur einkennst af fleipri og fjarstæðum. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann svarar ellefu atriðum sem hann kallar firrur. Á bloggi Egils Helga er líka birt grein eftir Jón Baldvin undir yfirskriftinni Eiga kvótaeigendur að hafa sjálfdæmi um framtíð Íslands?
Ég klippti grein Jóns Baldvins til í læsilegri útgáfu (finnst mér) og bendi að auki á bloggsíðu Baldurs McQueen, sem hefur fjallað talsvert og af mikilli skynsemi um ESB-aðild Íslands. Nokkuð var komið inn á ESB og Evru í umræðunum hér. Svo set ég aftur inn þátt Lóu Pind um ESB eða ekki ESB sem ég birti í áðurnefndum pistli.
Ísland í dag 8. apríl 2009 - Lóa Pind Aldísardóttir - ESB eða ekki ESB
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
27.4.2009
ESB eða ekki ESB?
Auðvitað var ekkert bara verið að kjósa um Evrópusambandið. Halda stjórnmálamenn það virkilega? Sér er nú hver þröngsýnin, segi ég nú bara. Við upplifðum efnahagshrun í haust, flest hefur gengið á afturfótunum, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, fyrirtæki og heimili að hrúgast á hausinn, spilling grasserar hjá flokkum og frambjóðendum og fólk lætur aðildarviðræður við ESB flækjast fyrir stjórnarmyndun. Þvílíkt rugl.
Ég sæi launþega og atvinnurekendur í anda gera slíkt hið sama. Setjast bara alls ekki að samningaborði af því þeir væru búnir að gefa sér fyrirfram að samningar næðust ekki eða yrðu óhagstæðir öðrum hvorum aðilanum. Eða bara hvaða aðilar sem er þar sem sættir eru samningsatriði.
Auðvitað eigum við að fara í viðræður með ákveðin samningsmarkmið og bera síðan útkomuna undir þjóðina. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Verið getur að kostirnir vegi margfalt þyngra en gallarnar og mig grunar að svo sé fyrir allan almenning til lengri tíma litið. Hugsum um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna. Hér er samantekt um mögulega kosti, galla og óvissuþætti sem stemmir ekki við það sem kemur fram í þættinum hér að neðan. Kosning um hvort við eigum að fara í viðræður er fullkomlega tilgangslaus þar sem ekki væri vitað um hvað væri í raun verið að kjósa. Ekki möguleiki að réttlæta kostnað við slíka atkvæðagreiðslu.
Verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur ekki virkað sem skyldi og ekki er hægt að afskrifa fyrirfram að ný stefna muni henta okkur. Aðrar auðlindir, þ.e. orkuauðlindir okkar, yrðu áfram í okkar eigu. Það er þegar ljóst. Eins og fram kemur í myndbandinu hér að neðan eiga t.d. Bretar sína olíu sjálfir og Finnar eiga skógana sína. Og ekki hef ég orðið vör við að Portúgalar séu eitthvað minni Portúgalar eða Ítalir minni Ítalir þótt löndin séu í ESB. Af hverju ættum við að verða minni Íslendingar? Svona umræða er bara bull. Reyndar væri okkur líkt að verða bara ennþá meiri Íslendingar og kaupa enn meira af íslenskri framleiðslu. Kæmi mér ekki á óvart. Og ef verðtryggingin myndi hverfa með aðild - væri þá ekki öllum sama hvort myntin heitir króna eða evra? Vill fólk halda áfram að láta lánin og verðlagið sveiflast upp og niður með gengi krónunnar? Ekki ég.
Kjarni málsins er að við vitum ekki hvað fælist í aðild. Umræða um ESB var bönnuð á Íslandi í stjórnartíð Hins Mikla og Ástsæla Leiðtoga. Síðan fór hún í skotgrafir og virðist föst þar. Umræðan ber keim af trúarofstæki og er afskaplega ómarkviss. Hlustum á Pál, Vigdísi og Hjálmar í þessum Krossgötuþætti og íhugum vandlega hvort ekki sé kominn tími á vitrænar, upplýstar rökræður í stað slagorðakenndra fullyrðinga og sleggjudóma. Takk fyrir.
Þennan fína þátt um ESB eða ekki ESB gerði sólargeisli Stöðvar 2, Lóa Pind Aldísardóttir. Hann var sýndur í Íslandi í dag 8. apríl sl. Horfið, hlustið og hugsið málið.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)