Færsluflokkur: Trúmál

Er þetta mögulegt... eða ekki?

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég lýsi eftir samfélagsvitund og samstöðu þjóðar. Þeirri hugsun, að við búum hér saman og eigum að skipta lífsins gæðum og arði af auðlindum á milli okkar á sanngjarnan og sem jafnastan hátt. Eftir hrunið heyrðust bjartsýnisraddir sem sögðu að hörmungarnar myndu þjappa þjóðinni saman líkt og eftir náttúruhamfarir, allir myndu hjálpast að, fagmennska verða tekin fram yfir flokksskírteini, siðleysið hverfa og siðferðisstaðlarnir verða eðlilegir eða viðunandi.

En nei - ó, nei. Þvílíkur endemis barnaskapur! Ekkert slíkt hefur gerst, að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem enn vaða uppi í bönkum, skilanefndum, stjórnsýslu og stjórnmálum. Þar eru ennþá sérvaldir menn í hverju rúmi sem hygla vinum, vandamönnum, klíku- og flokksbræðrum á kostnað skattborgaranna og maka krókinn. Þeir afskrifa skuldir forríkra, skattlausra glæpamanna um leið og þeir setja þumalskrúfu á skattpíndan almenning og fangelsa smákrimma. Þeir selja eignarhluti þjóðarinnar í auðlindum hennar og komandi kynslóða til valdra braskara í heilu lagi eða hlutum. Svo ekki sé minnst á útrásardólgana sem allir ganga lausir. Þeir senda þjóðinni fingurinn, segja ábyrgðarleysi að borga skuldir sínar við hana, fá sér dæetkók með glott á vör og siðblinduglampa í augum og hækka verð á matvöru meira en góðu hófi gegnir til að fá nú örugglega nóg í sína vasa.

Eva Joly sagði að mjög mikilvægt væri að komast að sannleikanum, taka á vandanum og leita réttlætis. Öðru vísi yrði mjög erfitt að byggja upp og búa við samfélagssáttmála í framtíðinni. En Eva Joly sagði líka að réttarkerfi Vesturlanda væri sniðið til að halda hlífiskildi yfir þeim ríku og valdamiklu en dæma aðeins almenning í lægri lögum samfélagsins. Hún sagði að efnahagsglæpamenn væru mjög sjaldan teknir og látnir svara til saka. Þetta hljómar eins og óyfirstíganlegur vítahringur og súrrealískur veruleiki í eyrum fólks með óbrenglaða réttlætiskennd.

En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að efla samstöðu þjóðarinnar, samfélags- og siðferðisvitund hennar og fá hin svokölluðu efri lög samfélagsins - þá sem stjórna og ráðskast með eigur og auðlindir þjóðarinnar - til að hafa hagsmuni okkar allra í huga í stað örfárra, gírugra einstaklinga?

Fjölmiðlarnir eiga að leika stórt hlutverk í þessu ferli því vald þeirra er mikið og áhrifin gríðarleg. En vegna fjárskorts og niðurskurðar hafa mörg vopn verið slegin úr höndum þeirra. Og nú er ljóst að eitt elsta og áður virtasta dagblað landsins, Morgunblaðið, er úr leik í opinni, heiðarlegri umræðu þar sem fjölmörgum reyndum og góðum fagmönnum úr blaðamannastétt hefur verið fórnað á altari gjörspilltra flokkshagsmuna, yfirgangs og sérhagsmuna þeirra sem græða stórfé á auðlind sjávar - á kostnað þjóðarinnar.

Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar.

************************************************

 Hljóðskrá viðfest hér fyrir neðan.

************************************************

Hlustum á Pál Skúlason í Silfrinu 13. september sl.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband