Færsluflokkur: Ljóð
10.11.2009
Vondur málstaður illa varinn
Oft er gaman að fylgjast með á Fésinu þegar hlutirnir gerast. Minnisstætt er þegar fólk var að segja upp Mogganum í september og lét ýmislegt flakka. Nú fljúga ummælin sem aldrei fyrr og mörg eru óborganleg. Fólk er að fjalla um kynlífsreynslu knattspyrnumannsins, fyrirmyndar barna og unglinga af báðum kynjum, sem sofnar yfir fatafellum á klámbúllum í erlendum höfnum. Borgar svo fyrir "lúrinn" með greiðslukorti vinnuveitandans sem styrktur er af almannafé og virðist hafa drjúga úttektarheimild miðað við gjaldfærðar upphæðir. Ferðafélagi hans og yfirmaður, nokkuð úthaldsminni að eigin sögn, kom í Kastljósið í gærkvöldi og gerði illt margfalt verra. Snilldin draup af hverju orði eins og t.d.þegar hann sagði að umræðan væri að skaða KSÍ. Og ég sem hélt að það væri framferði starfsmannsins! Hér eru sýnishorn af Fésbókarummælum - kyngreind:
"Aldrei hefur vondur málstaður verið varinn jafn illa." (Karl) Sá sem hér skrifar segist hafa sótt sér vasaklút þegar leið á Kastljóssviðtalið.
"Fréttamaður RÚV sagði að knattspyrna teldist tæplega vera 'undirliggjandi sjúkdómur...' Ja, það er orðið álitamál hvort svo sé ekki - miðað við KSÍ kallana..." (Karl) Þarna var verið að vísa í frétt í Tíufréttum RÚV þar sem sagt var frá að belgískir knattspyrnumenn hefðu fengið svínaflensusprautu á undan forgangshópum þar í landi.
"Maður getur nú orðið þreyttur á svona strippbúllum, þurft smálúr og breitt kreditkortin sín ofan á sig svo það slái ekki að manni." (Kona)
"Ég myndi líka leggja mig ef ég vissi að einhver straujaði fyrir mig á meðan." (Kona)
"Skipulögð glæpastarfsemi: Kunningjamafían sem slær skjaldborg um kunningjana, fela sannleikann og jafnvel ljúga fyrir kunningjana, verði þeir uppvísir að misferli og öðrum lögbrotum..." (Karl)
"K S Í = KUNNINGJARNIR sem slá SKJALDBORG um ÍÞRÓTTAMENN sem fara á hóruhús á kostnað barnanna sem safna dósum..." (Karl)
"Þetta hafa verið kurteisir þjófar þrátt fyrir að hafa verið bendlaðir við hryðjuverk í viðtalinu áðan." (Kona) Þeir skiluðu nefnilega kortinu eftir að hafa fyrst "stolið" því.
Margt fleira hefur verið látið fjúka og sumt þess eðlis að ég hef það ekki eftir. En hér er þetta magnaða Kastljóssviðtal við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ. Það hlýtur að koma sterklega til greina sem viðtal ársins hjá Baggalútum.
Kastljós 9. nóvember 2009
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.10.2009
Hundgá úr annarri sveit
"Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur." Þessa umsögn skrifaði ég í nóvember 2007, þá nýbyrjuð að blogga sjálf.
Hann hefur verið latur við bloggið upp á síðkastið og tregur til að "yfirgefa fjörið og hlýjan faðm Feisbúkk og fara í einsemdina á blogginu", eins og hann gantaðist með um daginn. Því miður - ég sakna pistlanna hans og það gera örugglega fleiri. En nú vitum við hvað hann hefur verið að sýsla undanfarið.
Við höfum ferðast með honum vítt og breitt um landið, farið með honum í göngur, niðurrekstur, réttir, eftirleitir og veiði. Við höfum borðað ljúffenga kjötsúpu hjá foreldrum hans í Skagafirðinum og hafragraut í eldhúsinu hjá honum sjálfum. Allt í huganum á vængjum myndrænna lýsinganna á blogginu hans. Svona skrifaði hann um réttirnar í september 2007:
Réttir, bara þetta orð, hljómurinn og lyktin og áður en þú veist af ert þú staddur í réttinni miðri umvafinn sauðfé og einblínir á mörkin. Pabbi stendur við dilkinn og segir manni til: "Þarna er ein kollótt, þessi gamla hornbrotna, þarna upp við vegginn, móflekkóttur hrútur"... og svo framvegis. Þetta er gaman. Einu sinni fór í taugarnar á mér þegar verið var að kalla á mann og segja manni að taka nú þessa kind, því mér fannst ég vera fullfær um að finna þær sjálfur. Það fer ekki í taugarnar á mér lengur. Enda búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér að karl faðir minn hefur sérstakan radar í hausnum þegar sauðfé er annars vegar. En ég var seigur núna, nokkuð fljótur að sjá mörkin og svo eru allir bæir með númer nú til dags. Svo var ég ansi lipur við að ná fénu og þar hef ég sko engu gleymt! Ég geng rólega um réttina, miða út ærina eða lambið og geri svo leifturárás. Mér finnst ég vera snillingur í þessu! En þegar maður var lítill gátu svona árásir endað á því að liggja á bakinu í drullunni og allir hlógu, en maður stóð upp aftur. Og fer aftur í réttir. Réttir. Það er eitthvað við þetta orð. Það er dregið sundur, spjallað við sveitungana og það sést ekki vín á nokkrum manni, bara skroppið í kaffi í skúrinn hjá kvenfélaginu og féð síðan rekið heim þar sem bíður heit kjötsúpa. Réttir. Þar sá maður fyrst á ævinni fullan mann, almennilegan hundaslag, menn að skamma fjallskilastjórann og fólk sem maður vissi ekki að væri til í sveitinni. En það var ekki mikið sungið. Það var á gangnasunnudaginn sem var sungið, þá var sungið meðan einhver rödd var til. En það er önnur saga og efni í annan pistil. En ég held að Akrahreppsbúar ættu að halda sinni gömlu Silfrastaðarétt aðeins lengur. Fara fram í kofa á fimmtudagskvöldi. Smala föstudag og laugardag og reka niður. Rétta síðan á sunnudegi. Ég hef trú á því að þeir sem vilja fara í göngur fái frí á föstudegi. Það er einhvern veginn léttara að fá frí á föstudegi en mánudegi. Og ég ætla að mæta í réttir að ári, þó að ég sé ekki lengur skrifaður fyrir markinu mínu í markaskránni, en það er í góðum höndum hjá Drífu og Fúsa. Réttarstígvélin eru enn í bílnum... ég þvæ þau bráðum...
Við komumst ekki á gangnafundinn á góunni frekar en hann - en fórum samt því hann skrifaði bréf og skyndilega vorum við komin norður. Og hann bauð okkur með sér á ættarmót í júlí og fyrr en varði vorum við orðin vel málkunnug ættingjum hans og forfeðrum - okkur var kippt inn í fjölskylduna og við fundum að við vorum velkomin. Hlýjan og húmorinn skín út úr öllum hans skrifum, hvað sem hann fjallar um hverju sinni og í ofanálag er hann feykilega góður hagyrðingur og skellir stundum á bloggið svona líka sallafínum kveðskap .
Og eins og ég stakk upp á í nóvember 2007 þá skrifaði Eyþór Árnason ljóðabók og í gær voru honum veitt verðlaun fyrir hana - eða óprentað handrit að henni. Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Fyrir fyrstu ljóðabókina sína! Þegar fréttin kom í sjónvarpinu rétti ég úr mér í sófanum, brosti út að eyrum og svei mér ef það glitraði ekki lítið tár á hvarmi. Ég klökknaði og var feykilega stolt af "mínum manni". Hvernig líður þá fólkinu hans - fjölskyldunni hér syðra og ættboganum í Skagafirði sem maður kannast svo vel við frá skrifum hans? Ég er ekki búin að sjá bókina, enda er hún ekki komin út. En ef ég fæ mér einhverja bók á næstunni þá verður það ljóðabókin hans Eyþórs - Hundgá úr annarri sveit. Eftir að hafa lesið hvern dýrindis prósann á fætur öðrum á blogginu hans veit ég fyrir víst að þetta eru eðalbókmenntir. Til hamingju með viðurkenninguna, Eyþór minn. Megirðu skrifa margar, margar bækur sjálfum þér og okkur hinum til gleði og ánægju.
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 13. október 2009
Ljóð | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2009
Gullkorn mannanna
Ef þú vilt vera þjófur skaltu hlusta vel á mig,
steldu nógu miklu og þá semja þeir við þig.
Sá sem stelur litlu skilur ekki baun
í hvernig kerfið virkar
og að lokum lendir inni á Litla Hrauni.
Hljómar sannleikanum samkvæmt, ekki satt? Þetta er brot úr texta á plötu sem kemur út um miðja næstu viku. Lagið sem textinn er úr heitir Þjóðarskútan. Ég hef verið í forréttindahópi undanfarna daga, sem er fátítt en í þessu tilfelli mjög gefandi og skemmtilegt. Ég fékk að hlusta á alla nýju Mannakornsplötuna - Von. Hún er algjört gullkorn.
Eini tónlistarmaðurinn sem hefur komist næst því að vera tónlistarlegt átrúnaðargoð í lífi mínu er Ómar Ragnarsson. Þá var ég um 10 ára og Ómar að hefja feril sinn. Cliff Richard komst ekki með tærnar þar sem Ómar hafði hælana á þeim tíma nema hvað mér hefur líklega fundist Cliff sætari en Ómar. Þó er það alls ekki víst.
Fyrir utan þetta hefur aðallega tvennt staðið að ráði upp úr í tónlistarsmekk mínum. Mér fannst, og finnst enn, Dark side of the moon með Pink Floyd besta plata allra tíma. Og mér finnst Pálmi Gunnarsson besti söngvari á Íslandi - og eru þeir þó ansi margir mjög góðir. Það er eitthvað töfrandi og seiðmagnað við raddbeitingu Pálma. Hvernig hann tjáir hvað sem hann syngur. Hvernig hann kemur textanum frá sér, svo skýrt en þó eðlilega. Minnir mig á hvernig Hilmir Snær gat látið texta Shakespeares hljóma eins og nútímatalmál á fjölum Þjóðleikhússins um árið. Pálmi er og hefur verið minn uppáhaldssöngvari í fleiri áratugi en ég kæri mig um að muna.
Hitt Mannakornið er auðvitað Magnús Eiríksson. Í augnablikinu man ég ekki eftir öðru eins eintaki af tónlistarmanni. Manni sem getur allt í senn - samið ódauðleg lög og texta, spilað, sungið og líka tekið ljóð skáldanna og samið ógleymanleg lög við þau. Ég er sannfærð um að margir átta sig ekki á hve löng og glæsileg afrekaskrá Magnúsar er. Við heyrum lögin, þau sitja í okkur en við pælum ekkert sérstaklega í hver samdi þau. Man einhver eftir lögum eins og Ég er á leiðinni, Ræfilskvæði, Jesús Kristur og ég, Göngum yfir brúna, Braggablús... Svona mætti halda áfram lengi. Allt lög eftir Magnús og textar eftir hann, Stein Steinarr, Vilhjálm frá Skáholti. Man einhver eftir þessu textabroti:
Ofmetnastu ekki
af lífsins móðurmjólk.
Kirkjugarðar heimsins
geyma ómissandi fólk.
(Ómissandi fólk - lag og texti Magnús Eiríksson)
Einn aðalstyrkur Magnúsar Eiríkssonar sem textahöfundar er að hann hittir mann í hjartastað og sem lagahöfundar að lagið hverfur ekki úr huga manns, gleymist ekki. Sumir eru annaðhvort góðir lagahöfundar eða textahöfundar - en Magnús er snillingur í hvoru tveggja.
Þegar þessir tveir leggja saman, Pálmi og Magnús, getur ekki annað en komið út úr því frábær tónlist. Því höfum við fengið að kynnast í hvað... 30 ár? Ég man ekki hvað þeir hafa unnið lengi saman. Ég hef notið þess í tætlur að hlusta á nýju plötuna, Von, aftur og aftur og aftur. Þetta eru fjölbreytt lög - tregi, húmor, rómantík, sorg, ástríða, gagnrýni, háð... Þeir spila á allan skalann. Eitt lagið, Kraftaverk, hefur hljómað á Rás 2 (veit ekki um aðrar útvarpsstöðvar) og ég kannaðist strax við það. Platan verður reyndar plata vikunnar á Rás 2 alla næstu viku. Leggið við hlustir.
Ég beitti öllum mínum sannfæringarkrafti - sem getur verið allnokkur þegar mikið liggur við - við útgefandann til að fá að skrifa um plötuna og birta einn texta og lag. Það tókst og ég þakka fyrir góðfúslegt leyfið, sem er ekki sjálfgefið að fá. Ætli Jens Guð kalli þetta ekki að skúbba. Ég hef aldrei skrifað um tónlist, aldrei langað til þess fyrr. Er enda enginn sérfræðingur eða tónlistarspekúlant og nýt tónlistar með tilfinningunum og hjartanu, ekki höfðinu. En mig langaði að segja frá þessari plötu því tónlistin snerti mig svo innilega. Og ég má til með að nefna umslagið. Það er listaverk, enda eftir Ólöfu Erlu sem ég man eftir að fjallað var um í sjónvarpinu í vetur. Þvílík listakona! Sjáumst í Salnum í Kópavogi á fimmtudaginn - það verður gaman!
Farðu í friði
Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.
Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.
Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.
Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.
Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.
Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.
Lag og texti: Magnús Eiríksson
Ljóð | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)