Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Himinhrópandi hroki Morgunblaðsins

Í fyrradag fór frétt eins og eldur í sinu um netmiðla, blogg og samfélagið. Hún fjallaði um áhyggjur norrænna blaðamanna af tjáningarfrelsinu á Íslandi. Blaðamannasamtök Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands gaf út fréttatilkynningu þar sem ráðning eins helsta hrunvaldsins á Íslandi í ritstjórastól Morgunblaðsins var gagnrýnd og henni lýst sem aðför að tjáningarfrelsinu á Íslandi. Einnig var minnst á brottrekstur fjölmargra þaulreyndra blaða- og fréttamanna af fjölmiðlunum.

Framhald hér...


"Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi!"

Fyrir um það bil tveimur árum ætlaði ég að skrá öll málblómin og ambögurnar sem ég las og heyrði í fjölmiðlunum. Ég gafst fljótlega upp, þetta hefði verið full vinna. Þó var þetta löngu fyrir hrun og ekki hætt að prófarkalesa texta í jafnmiklum mæli og nú. Þegar peningar eru annars vegar og gróðinn minnkar er byrjað á að spara "ósýnilegu" störfin. Gallinn er bara sá að þá verða ambögurnar sýnilegri og skera augu og hlustir svo hvín í.

Ég hef marga hildi háð við íslenskuna á 22ja ára ferli við þýðingar, einkum skjátextagerð. Þó finnst mér ég ekki hafa náð nema þokkalegum árangri og öðlast sæmilegan orðaforða. Íslenskunám er ekki eitthvað sem maður afgreiðir þegar grunnskóla eða framhaldsnámi lýkur - það er lífstíðarglíma ef vel á að vera og bóklestur er þar besta námið. Ef bókin er vel skrifuð eða vel þýdd.

Flestir muna eftir umræðunni þegar bankamenn vildu gera ensku að ráðandi máli í bönkunum og jafnvel fleiri fyrirtækjum á Íslandi og alþingismaður nokkur stakk upp á að enska yrði jafnrétthá íslensku í stjórnsýslunni á Íslandi. Skiptar skoðanir voru um þetta en mig minnir að langflestum hafi þótt þetta fáránlegar hugmyndir - sem betur fer.

Þegar ég fór að lesa blogg kom mér skemmtilega á óvart hve margir voru vel ritfærir. Maður las ljómandi góðan texta eftir bláókunnugt fólk sem hafði loksins öðlast vettvang til að tjá sig opinberlega í rituðu máli. Það var verulega ánægjulegt að sjá hve margir lögðu metnað í að koma skoðunum sínum frá sér á góðri íslensku. Að sama skapi er sorglegt að lesa eða hlusta á fólk sem kemur varla frá sér óbrenglaðri setningu og grípur jafnframt hvað eftir annað til enskunnar þegar því er orða vant á móðurmálinu. Þetta er hættuleg gryfja sem smitar út frá sér og sorglegast er að verða vitni að þessu daglega í fjölmiðlunum. Enginn fjölmiðill er þar undanskilinn, en enginn er heldur fullkominn og ekki ætlast til þess. Slangur og slettur geta átt fullan rétt á sér í skemmtilega skrifuðum eða fluttum texta en þegar maður heyrir hluti eins og um "fráskildan" mann og að fólk hittist "í persónu" í fréttatímum er eiginlega of langt gengið. Öll gerum við mistök í meðferð móðurmálsins, það er óhjákvæmilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. En er þetta ekki orðið of mikið... eða er ég bara svona gamaldags?

Ég flutti svolítinn pistil um íslenskuna á Morgunvaktinni á föstudaginn, hljóðskrá fylgir neðst. Ég gerði meira að segja mistök í þessum málfarspistli sem einn ágætur hlustandi benti mér á í tölvupósti og ég var honum mjög þakklát.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur,

Á tyllidögum er talað fjálglega um mikilvægi íslenskrar tungu og þátt hennar í menningu okkar, sjálfstæði og þjóðlegri reisn. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að viðhalda tungunni og margar nefndir eru starfandi til að finna eða búa til ný íslensk orð yfir hvaðeina sem skýtur upp kollinum í tæknivæddu samfélagi nútímans. Sum nýyrðin verða töm á tungu og festa sig í sessi, en önnur hverfa og gleymast.

Semsagt - íslenskan er talin vera einn mikilvægasti þjóðarauður Íslendinga og eitt af því sem gerir okkur að þjóð. Gott og vel.

Ég efast ekki um að þjóðhöfðingjum og öðrum sem leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar tungu í fortíð, nútíð og framtíð og lofa hana í hástert, sé alvara með orðum sínum. En gallinn er sá, að boðskapurinn nær sjaldnast lengra en í hástemmdar ræðurnar og honum er aðeins  hampað á eina degi ársins sem tileinkaður er íslenskunni, 16. nóvember, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds. Meira að segja þeir sem hafa vald til að gera eitthvað sitja með hendur í skauti og hafast ekki að til varnar móðurmálinu. Sagt var frá því, daginn fyrir Dag íslenskrar tungu fyrr í vikunni, að íslenska sé ekki lengur hluti af skyldunámi kennaranema. Það er dæmigert fyrir það kæruleysi og dugleysi sem einkennir allt sem snýr að verndun og viðhaldi tungunnar.

Í hinum áhrifamiklu fjölmiðlum er okkur boðið upp á málvillur, ambögur, stafsetningarvillur og ýmiss konar fáránlegan framburð og framsögn með ankannalegum og óþægilegum áherslum. Enda er prófarkalestri og málfarsráðgjöf ekki gert hátt undir höfði í fjölmiðlunum og víða virðist slíkum meintum óþarfa hreinlega hafa verið úthýst með öllu. Metnaður fjölmiðla til að vanda mál og framsetningu virðist vera að hverfa - þrátt fyrir áðurnefnd tyllidagaerindi og þennan eina dag á ári sem helgaður er móðurmáli Íslendinga.

Áhyggjur af framtíð íslenskunnar eru ekki nýtilkomnar. Fyrir rúmum 160 árum, í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp auglýsingu í bænum þar sem á var ritað: "Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Til áhersluauka gengu menn um bæinn, börðu bumbur og hrópuðu þessi hvatningarorð. Um kvöldið voru gefnar út nýjar reglur þar sem sagði meðal annars: "Næturvörður skal hrópa á íslenskri tungu við hvert hús". Á þessum tíma var íbúafjöldi í Reykjavík um ellefu hundruð manns og ýmsir höfðu áhyggjur af áhrifum dönsku herratungunnar á íslenskuna.

Svona uppákomur til málhreinsunar þættu hjákátlegar nú á dögum, en engu að síður er bráðnauðsynlegt að gera miklu meiri kröfur til móðurmálskunnáttu þeirra, sem tjá sig á opinberum vettvangi og þá einkum í útbreiddum fjölmiðlum. Stjórnendur miðlanna verða að gera sér grein fyrir áhrifamætti þeirra og gera íslenskri tungu mun hærra undir höfði en nú er gert. Málfarslegur sóðaskapur dregur úr trúverðugleika alls boðskapar - ekki síst frétta.

Enginn biður um fullkomnun, hún er ógerleg. Og lifandi tungumál breytist í áranna rás, þróast og þroskast. Það er ofureðlilegt. En öllu má ofgera og þegar kynslóðir eru hættar að skilja hver aðra og orðaforði, málskilningur og máltilfinning unga fólksins að hverfa, þá er mál að staldra við og hugsa sinn íslenskugang.

Við eigum að hafa 365 daga á ári Daga íslenskrar tungu og vernda móðurmálið okkar.

***********************************************

Spaugstofan gantaðist með þetta á laugardaginn eins og sjá má og heyra.

Spaugstofan 21. nóvember 2009

 

Þetta var útfærsla Spaugstofunnar á þekktu lagi eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárn. Það var notað í auglýsingu Mjólkursamsölunnar sem hefur verið dugleg við að hampa íslenskunni. Hér er frumgerðin, söngkonan unga heitir Alexandra Gunnlaugsdóttir.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lágkúrufjölmiðlun

Um daginn var mikið talað um lágkúrufjölmiðlunina sem hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár. Slík tegund fjölmiðlunar birtist einkum í raunveruleikaþáttum og fíflagangi í sjónvarpi, gaspri og flissi í útvarpi og skrifum í ýmsa miðla um ófarðaðar stjörnur að kaupa í matinn, fitukeppi, appelsínuhúð eða lafandi brjóst svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar sem fylgja þessum ósköpum.

Ímyndasmiðir nútímans koma úr ýmsum áttum og keppast við að stýra neyslu fólks og útliti og búa til gerviþarfir til að selja óþarfa. Oft er höfðað til lægstu hvata mannskepnunnar og allt er leyfilegt. Gjarnan er þeim mest hampað sem eru kjaftforastir, hneyksla mest og ganga lengst og þau gerð að ímyndum "fallega fólksins", "sannra karlmanna", "kynþokka" og þar fram eftir götunum. Þegar þetta fólk opnar munninn kemur ekki óbrenglað orð út úr því og ekki vottar fyrir heilbrigðu lífsviðhorfi, skynsemi eða sæmilega virkri heilastarfsemi. Um eitt þessara fyrirbæra kvenkyns var sagt nýverið: "Verðugur fulltrúi klámkynslóðarinnar, sem hlutgerir kvenlíkamann og lætur ungum stúlkum líða eins og þær þurfi að afklæðast til að hljóta viðurkenningu." Séðogheyrtþáttur Stöðvar 2 hefur verið iðinn við að kynna þessa tilteknu konu ásamt fleira svona fólki og hampa því sem fyrirmyndum... ja, hverra? Unglinganna? Maður spyr sig...

Þeir sem standa fyrir svona fjölmiðlun afsaka sig með því að þetta vilji fólk horfa og hlusta á eða lesa um. Þó var ritstjóri Vísis ansi vandræðalegur í viðtali um málið við Kastljós um daginn og í mikilli vörn. Ef það er satt sem þau segja - hvað er það í mannlegri náttúru sem gerir það að verkum að fólk nýtur þess að sjá náungann niðurlægðan? Getur einhver sagt mér það?

Kastljós 26. október 2009

 

Ég fjallaði um þessa lágkúrufjölmiðlun í Morgunvaktarpistlinum fyrir viku, föstudaginn þrettánda. Hljóðskrá viðfest neðst í færslunni.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Hvað er það í eðli mannskepnunnar sem veldur því að hún gleðst yfir óförum annarra? Það hlakkar í fólki þegar einhver er niðurlægður og margir borga jafnvel háar upphæðir fyrir að horfa á sjónvarpsefni þar sem fólk er ýmist rifið niður eða troðið í svaðið.

Fjölmiðlar hafa verið einn mesti áhrifavaldur undanfarinna áratuga og eru enn. Áhrifum fylgir ábyrgð og hún er afar vandmeðfarin. Þess vegna vakti mikla furðu í þjóðfélaginu þegar Stöð 2 tók upp á því, aðeins þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, að gera fréttamagasínþáttinn Ísland í dag að ábyrgðalausu þunnildi. Einmitt þegar þjóðin þurfti sem mest á beittri og gagnrýninni fjölmiðlun að halda.

Raunveruleikaþættir, sem margir ganga út á að niðurlægja fólk á einhvern hátt, hafa tröllriðið sjónvarpsdagskrám. Á fjölmiðlunum situr fólk á fullum launum við að gera grín að appelsínuhúð, lafandi brjóstum eða fitukeppum á þekktum einstaklingum. Svo ekki sé minnst á of litla eða of stóra rassa eða óeðlilegan hárvöxt á viðkvæmum stöðum. Sérstaklega er svo tekið fram ef myndir af ósköpunum fylgja.

Sumir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að reka sitt reyndasta og oft besta fólk í nafni niðurskurðar, en ráða í staðinn óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem væntanlega er auðveldara að stjórna. Í september sagði einn fjölmiðillinn meira að segja upp blaðamönnum á sjötugsaldri sem áttu eftir örfá ár í eftirlaun og höfðu alið mestallan sinn starfsaldur hjá blaðinu. Siðleysið var algjört.

Ég hef spurt marga hvað óábyrgum stjórnendum þessara fjölmiðla gangi til. Hvers vegna hið vitræna sé skorið niður á meðan hlaðið er undir lágkúru og fíflagang. Margir botna ekkert í þessu frekar en ég og enn aðrir segja: "Þetta er það sem fólk vill." En það er ég alls ekki sannfærð um. Hefur fólk eitthvað val?

Ég held stundum að með því að halda þessari tegund fjölmiðlunar að almenningi séu óprúttnir aðilar meðvitað að búa til einhvers konar heilalaust lágkúrusamfélag með það fyrir augum að ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk hugsi sé auðveldara að stjórna því. Segja því hvað það vill og hvað ekki, hvað má og hvað ekki - og hverjir mega hvað og hverjir ekki. Láta fólk svífa gagnrýnis- og hugsunarlaust í gegnum lífið, til þess eins að vera örsmátt tannhjól í æðra ætlunarverki valdhafanna.

Unga fólkið er sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri fjölmiðlun. Við hverju er að búast af fullorðnum einstaklingi sem alinn er upp við endalaust gláp á raunveruleikaþætti í sjónvarpi og útlitsfjölmiðlun, sem rífur látlaust niður sjálfstraust fólks og veikir sjálfsmynd þess? Valdhafa sem hegna fólki fyrir að hugsa og gagnrýna í stað þess að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti og rökhugsun.

En mannskepnan hlær að niðurlægingu náungans og í höfði hennar bærist engin hugsun.

*********************************************

Jóhann Hauksson skrifaði frábæra bloggfærslu á svipuðum nótum um daginn sem hann svo breytti og bætti og birti í DV. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Höfum það krassandi og afgerandi - Jóhann Hauksson - DV 28. október 2009


Vondur málstaður illa varinn

KSÍ - Knattspyrnusamband ÍslandsOft er gaman að fylgjast með á Fésinu þegar hlutirnir gerast. Minnisstætt er þegar fólk var að segja upp Mogganum í september og lét ýmislegt flakka. Nú fljúga ummælin sem aldrei fyrr og mörg eru óborganleg. Fólk er að fjalla um kynlífsreynslu knattspyrnumannsins, fyrirmyndar barna og unglinga af báðum kynjum, sem sofnar yfir fatafellum á  klámbúllum í erlendum höfnum. Borgar svo fyrir "lúrinn" með greiðslukorti vinnuveitandans sem styrktur er af almannafé og virðist hafa drjúga úttektarheimild miðað við gjaldfærðar upphæðir. Ferðafélagi hans og yfirmaður, nokkuð úthaldsminni að eigin sögn, kom í Kastljósið í gærkvöldi og gerði illt margfalt verra. Snilldin draup af hverju orði eins og t.d.þegar hann sagði að umræðan væri að skaða KSÍ. Og ég sem hélt að það væri framferði starfsmannsins! Hér eru sýnishorn af Fésbókarummælum - kyngreind:

"Aldrei hefur vondur málstaður verið varinn jafn illa." (Karl) Sá sem hér skrifar segist hafa sótt sér vasaklút þegar leið á Kastljóssviðtalið.

"Fréttamaður RÚV sagði að knattspyrna teldist tæplega vera 'undirliggjandi sjúkdómur...' Ja, það er orðið álitamál hvort svo sé ekki - miðað við KSÍ kallana..." (Karl) Þarna var verið að vísa í frétt í Tíufréttum RÚV þar sem sagt var frá að belgískir knattspyrnumenn hefðu fengið svínaflensusprautu á undan forgangshópum þar í landi.

"Maður getur nú orðið þreyttur á svona strippbúllum, þurft smálúr og breitt kreditkortin sín ofan á sig svo það slái ekki að manni." (Kona)

"Ég myndi líka leggja mig ef ég vissi að einhver straujaði fyrir mig á meðan." (Kona)

"Skipulögð glæpastarfsemi: Kunningjamafían sem slær skjaldborg um kunningjana, fela sannleikann og jafnvel ljúga fyrir kunningjana, verði þeir uppvísir að misferli og öðrum lögbrotum..." (Karl)

"K S Í = KUNNINGJARNIR sem slá SKJALDBORG um ÍÞRÓTTAMENN sem fara á hóruhús á kostnað barnanna sem safna dósum..." (Karl)

"Þetta hafa verið kurteisir þjófar þrátt fyrir að hafa verið bendlaðir við hryðjuverk í viðtalinu áðan." (Kona) Þeir skiluðu nefnilega kortinu eftir að hafa fyrst "stolið" því.

Margt fleira hefur verið látið fjúka og sumt þess eðlis að ég hef það ekki eftir. En hér er þetta magnaða Kastljóssviðtal við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ. Það hlýtur að koma sterklega til greina sem viðtal ársins hjá Baggalútum.

Kastljós 9. nóvember 2009

 


Aurasálin og Spákaupmaðurinn

Eins og sjá mátti hér og hér hef ég verið að grúska í gömlum blöðum. Upphaflega í leit að ákveðnu máli en eins og gengur leiddi leitin mig út og suður og að lokum mundi ég varla að hverju ég var að leita í byrjun. Svona grúsk er tímafrekt en alveg ótrúlega fróðlegt. Ég rakst t.d. á þessa mögnuðu pistla sem birtust í Markaði Fréttablaðsins 1. mars 2006.

Ég las aldrei það blað og fylgdist ekkert með "markaðnum" þótt sumum fréttum af honum hafi verið troðið ofan í kokið á manni, nauðugum viljugum. En í ljósi þess hvernig farið var með þjóðina er merkilegt að kynna sér móralinn og siðferðið sem óð uppi á þessum tíma - og hrokann. Ef til vill kemur einhver með þá athugasemd að þessir pistlar séu skrifaðir í gríni. Ég held reyndar ekki og hef a.m.k. ekki húmor fyrir þeim þó svo væri.

Aurasálin og Spákaupmaðurinn - Markaðurinn 1. mars 2006

Í sama blaði heyrðist rödd skynseminnar sem furðaði sig á því sem var að gerast í viðskiptaheiminum.

Ótroðnar slóðir - Gylfi Magnússon - Markaðurinn 1. mars 2006


Nýr vettvangur fyrir Egil Helga

Mikið hefur verið rætt og ritað í dag um orð Björns Bjarnasonar um Egil Helgason og meinta hlutdrægni hans. Á undan Birni tjáðu sig einnig tveir flokksbræður hans, þeir Hannes Hólmsteinn og Sturla Böðvarsson um Egil, Silfrið hans og bloggið. Þessum mönnum hugnast ekki að sannleikurinn komi upp á yfirborðið og almenningur fái tækifæri til að gagnrýna það sem honum þykir gagnrýnivert.

En Egill þarf engu að kvíða. Í fyrsta lagi verður ekki hlustað á þessi skelfingarviðbrögð fyrrverandi valdamanna sem þrá það eitt að halda áfram að stýra umræðunni, eins og þeir hafa gert um árabil, og beita þöggun að eigin geðþótta. Í öðru lagi sýndi Egill í gærkvöldi að hans bíður nýr og glæstur ferill kjósi hann að skipta um vettvang. Það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt.

Afmælisskaup - Skjár 1 - 20. október 2009

 

Hér er sama lag flutt af Willy Nelson og Ray Charles

 


Dúllurassinn Davíð

Síðast þegar ég reyndi að grínast og vera kaldhæðin misheppnaðist það gjörsamlega. Kjarni pistilsins fór alveg fram hjá lesendum og ég tók á það ráð að endurbirta hann næstum strax. Ég var tekin alvarlega og hét sjálfri mér að reyna þetta aldrei aftur. Þetta er því ekki kaldhæðinn pistill. Seiseinei. Algjör misskilningur.

Davíð Oddsson dúllurassEn Davíð Oddsson er dúllurass. Ég komst að því á sunnudaginn var þegar ég las leiðarann hans í Mogganum sem bar yfirskriftina "Um bloggara og gleðigjafa". Þessi elska var að dásama bloggara, þar á meðal mig. Ég tók þetta allt til mín... eðlilega. Ég fékk auðvitað bakþanka vegna þess sem ég hef skrifað um Davíð og spurði sjálfa mig hvort ég ætti að fá samviskubit. Hvernig getur mér mislíkað Davíð fyrst hann er svona hrifinn af mér?

Í leiðaranum kallar Davíð mig skynsama og velmeinandi og segir að bloggið mitt sé læsilegt og að ég sé góður penni. Hann segir mig grandvara og fróða og að ég komi að upplýsingum í skrifum mínum sem ekki hafi ratað inn í venjulega fjölmiðla. Að umræður sem spinnast af skrifum mínum hafi í einstökum tilfellum haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í þjóðfélaginu eða opni augu manna fyrir nýjum sannindum.

Og Davíð heldur áfram að mæra mig af sinni alkunnu snilld. Hann segir að ég haldi úti vefsíðu af miklum myndarskap og hafi með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á umræðuna.

Ég roðnaði þegar ég las þetta. Var upp með mér og fann svolítið til mín. Svona eins og þegar barni er hrósað fyrir að taka fyrstu skrefin. Þessi elska erfir ekki alla skammarpistlana mína og finnst ég bara helvíti góð. Aldrei hefði ég trúað þessu upp á þennan krúttmola. En svo bregðast krosstré...

Leiðari Morgunblaðsins 4. október 2009 Morgunblaðið 4. október 2009 - Leiðari Davíðs Oddssonar


Andað léttar

Mikið var ég fegin þegar ég heyrði í fréttunum í kvöld að ummælin um ónýtu spólurnar hafi verið villandi. Þar af leiðandi er færslan hér á undan líka villandi - eða texti hennar - þó að myndbrotin standi vitaskuld fyrir sínu. En rétt skal vera rétt og hér með leiðréttist þetta. Um leið vil ég benda á fína athugasemd (nr. 25) frá Gunnlaugi Lárussyni sem hafði spurst fyrir um málið og sent Páli Magnússyni tölvupóst. Gunnlaugur birtir ekki sinn póst til Páls en fékk þetta svar: "Þakka þér kærlega fyrir hressilega áminningu - þetta verður athugað!"

Svo fékk Gunnlaugur svohljóðandi póst frá Óðni Jónssyni, fréttastjóra:

"Því miður var frásögn fréttamanns villandi. Það er rétt að sérstakar upptökur stúdíói misfórust þessa daga sem um ræðir. Flestar fréttir voru síðan keyrðar af klippistæðum og inn á harðan disk og band þegar mistökin uppgötvuðust. Nánast allar frumtökur úti á vettvangi á þessu tímabili eru til á millisafni fréttastofu. Aðalatriðið er þó að allt efnið er til á DVD, ekkert er glatað eða týnt! Öll útsending RÚV er til á DVD, beinar útsendingar o.s.frv. Hitt er svo annað mál að varðveislumál okkar mættu vera betri, vegna fjárskorts erum við ekki enn að fullu komin inn í stafrænu öldina. Þá er ég sammála þér um það að fréttaupptökur þyrftu að vera aðgengilegar miklu lengur á netinu. Vonandi fáum við úrbætur á því fljótlega."

Við þetta vil ég bæta að það væri skömm að því ef nefskatturinn skilar sér ekki allur til að reka RÚV eins og ýjað hefur verið að.

Hin villandi ummæli og leiðréttingin - RÚV 27. og 28. september 2009


Litið um öxl - ár liðið frá hruninu

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV rifjað upp ársgamlar fréttir af aðdraganda hrunsins. Þórdís Arnljótsdóttir sagði í fréttunum í kvöld að engin upptaka væri til af fréttum þessarar örlagaríku helgar í fyrra því spóla hafi eyðilagst. Þótt mínar netupptökur séu ekki tækar á sjónvarpsskjáinn geta þær kannski fyllt aðeins í einhverjar eyður. Það er geysilega fróðlegt að rifja upp þessar fréttir af efnahagsmálunum - sem reyndust vera hrunfréttir þótt við höfum ekki vitað það þá - í kringum þessa helgi í lok september fyrir ári. Set Kastljósið þann 29. inn líka.

Fréttir RÚV föstudaginn 26. september 2008

 

Fréttir RÚV laugardaginn 27. september 2008

 

Fréttir RÚV sunnudaginn 28. september 2008

 

Fréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Tíufréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Kastljós 29. september 2008 - Geir H. Haarde

 

Kastljós 29. september 2008 - Stoðir, Hreiðar Már, Gylfi Magnússon

 

Kastljós 29. september 2008 - Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason

 


Að vera eða ekki vera...

...á Moggablogginu. Af þessu að dæma er búið að taka ákvörðun um það fyrir mína hönd.  LoL

Nýjar sögubækur - Henrý Þór Baldursson - Gula pressan - 25.9.09


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband