Heimska, skortur á yfirsýn eða græðgi?

Orkuveita Reykjavíkur, sem í orði er sameign Reykvíkinga og ætti að lúta stjórn og vilja þeirra, virðist vera búin að skuldbinda sig fyrirfram til að selja álverum rafmagn frá virkjunum sem ekki er búið að fá leyfi til að reisa. Löngu áður en matsferli, athugasemdaferli og niðurstaða fæst er gengið frá samningum við erlenda álrisa um að leggja íslenska náttúru í rúst, vaða yfir almenning og skoðanir hans og gauka dúsum að fámennu sveitarfélagi sem samkvæmt ónýtum lögum hefur úrslitavald í ákvarðanatöku um málið. Var einhver að segja að Ísland væri bananalýðveldi?

Ef litið er á aðeins örfá atriði og nokkrar tölur er gjörningurinn fullkomlega óskiljanlegur og ekki nokkur leið að sjá að tekið sé tillit til allra þátta málsins og það skoðað í samhengi við annað sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Sveitarfélagið Ölfus hefur ákvörðunarrétt um hvort Bitruvirkjun verður reist og ein fegursta náttúrperlan á suðvesturhorninu lögð í rúst. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 1.911 íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Meirihluti sveitarstjórnar, alls 4 einstaklingar, hefur 495 atkvæði á bak við sig. Mótmæli sem bárust Skipulagsstofnun gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun eru hátt í 700 og aldrei í Íslandssögunni hafa borist fleiri athugasemdir við neina framkvæmd. Þessir 4 einstaklingar sem mynda meirihluta sveitarstjórnar Ölfuss með 495 atkvæði undir hafa vald til að svipta tæplega 200.000 Íslendinga sem byggja suðvesturhornið óspilltri náttúru og útivistarparadís og dæla brennisteinsvetni út í andrúmsloftið í áður óþekktu magni.

Og ef marka má orð Ólafs Áka Ragnarssonar, foringja fjórmenninganna, er hann ákveðinn í að fara sínu fram hvað sem hver segir, hversu margar athugasemdir sem berast, hversu öflug sem mótmælin verða. Þessu lýsti hann yfir opinberlega eins og sjá má hér og hótar  blygðunarlaust að hunsa álit almennings og þeirra stofnana sem um málið eiga að fjalla áður en ákvörðun er tekin. Í löndum þar sem þokkalegt siðferði ríkir í stjórnsýslu yrðu þessir fjórmenningar látnir segja af sér öllum embættum umsvifalaust. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur, (sem er í eigu Reykvíkinga, munið þið?) eru nefnilega búnir að lofa fjórmenningunum að gegn því að heimila Bitruvirkjun dæli þeir 500 milljónum í Sveitarfélagið Ölfus með ýmsum hætti. Peningum sem Reykvíkingar eiga. Þetta kallar Ólafur Áki að "búið sé að gefa vilyrði fyrir þessu rafmagni til uppbyggingar og álvers í Helguvík." Álvers sem er fyrirhugað að reisa - ekki ákveðið að reisa. Hvað segja Reykvíkingar við slíkri sóun á fjármunum þeirra? Má kalla þetta mútur?

Er ekki eitthvað bogið við lagasetningu sem heimilar að 4 einstaklingar með 495 atkvæði á bak við sig taki svo afdrifaríka ákvörðun sem snertir lífsgæði og jafnvel heilsu allra íbúa á suðvesturhorni landsins? Er þetta lýðræðið í verki eða eigum við að flytja inn fleiri banana?

Ein af röksemdarfærslum Ólafs Áka fyrir Bitruvirkjun og nokkurra suðurnesjamanna fyrir álveri í Helguvík er að það þurfi að skapa störf. Fyrir hverja? Á suðvesturhorni landsins er ekkert atvinnuleysi og við höfum ekki við að flytja inn vinnuafl frá útlöndum. Við erum farin að telja erlent vinnuafl í tugþúsundum, talan 17.000 var nefnd í fréttum fyrir nokkrum dögum. Margbúið er að reyna að benda yfirvöldum á að við erum ekki í stakk búin til að taka við svona mörgum útlendingum á svo skömmum tíma og margir þeirra búa við ómanneskjulegar aðstæður eins og lesa má um hér. Þetta er til háborinnar skammar og ber vott um ótrúlega og ófyrirgefanlega skammsýni yfirvalda.
 

Og þótt virkjað sé fyrir netþjónabú sem skapar 200 störf efast menn um að fólk fáist í öll þau störf eins og sjá má hér. Hvað skapar álver í Helguvík mörg störf í viðbót? Hvernig í ósköpunum ætlum við að manna bæði netþjónabúið og álverið? Hve miklu á að fórna og hver græðir? Ekki almenningur sem þarf að sjá á bak ósnortinni útivistarperlu og anda að sér áður óþekktu magni af brennisteinsvetni sem órannsakað er hvaða áhrif hefur til langframa.

Hvernig væri að íslensk stjórnvöld myndu venda sínu kvæði í kross og sýna nú einu sinni skynsemi og fyrirhyggju í áformum sínum um virkjanir og stóriðju? Það þarf nauðsynlega að breyta lögum sem heimila örfáum einstaklingum að taka gríðarlega stórar ákvarðanir sem hafa áhrif á tvo þriðju landsmanna. Slíkar ákvarðanir þarf að taka með hagsmuni heildarinnar í huga og í samhengi við aðrar framkvæmdir í landinu og afleiðingar þeirra.

Ef þessum lögum  verður ekki breytt halda "mútugreiðslur" fjársterkra orkufyrirtækja til lítilla, fjárvana sveitarfélaga áfram að valda óbætanlegu tjóni í íslensku samfélagi og óafturkræfum spjöllum á ómetanlegri náttúru Íslands.




mbl.is Fyrirhugaðar framkvæmdir og orkusala haldast í hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband