Bloggað um blogg og bloggara

Nú ætla ég að víkja frá upprunalegum tilgangi þessarar síðu og tala um allt annað.

Hvaða orð er þetta eiginlega? Blogg. Við tókum það gagnrýnislítið úr ensku og bættum einu g-i á endann til að laga orðið betur að íslensku - aðallega framburðinum, held ég. Eitthvað hefur verið reynt að finna íslenskt orð yfir fyrirbærið en ekkert náð að festa sig í sessi, tilraunirnar verið of máttlausar og komið of seint. Orðið er líklega komið til að vera.

Enska orðið "blog" er stytting á orðinu "weblog" eða "vefdagbók" sem gefur til kynna upphaflegt eðli bloggsins, þ.e. dagbók á vefnum, gjarnan um persónulega hluti eins og er náttúra dagbóka. Ef einhver hefur áhuga er nánari útskýring á orðinu hér og það eru ekki ýkja mörg ár síðan orðið, eða öllu heldur framkvæmdin sjálf, bloggið, varð nógu þekkt til að fara í orðabækur.

Ég er sein til með sumt og uppgötvaði ekki bloggið fyrr en fyrir um ári síðan. Áður hafði ég lesið pistla Egils Helgasonar reglulega og þar kynntist ég fyrst bloggi þegar hann harðneitaði að skrif hans teldust blogg. Nú bloggar hann grimmt og mér finnst Kári hinn ungi afskaplega skemmtilegur krakki. Það verður gaman að fylgjast með þroskasögu hans úr fjarlægð. Vonandi heldur Egill áfram að blogga.

Einhvern veginn beit ég það í mig að ég hefði ekkert gaman af að lesa blogg, enda þekkti ég enga bloggara og þar sem þetta áttu að vera persónulegar dagbækur var ég ekki ginnkeypt fyrir að hnýsast í einkalíf annarra. Mér kemur einkalíf fólks ekkert við, einkum og sér í lagi ókunnugra.

Svo tóku tvær vinkonur mínar upp á því að blogga. Önnur var í námi erlendis og ég vildi fylgjast með henni og hin er einfaldlega með skemmtilegri konum sem ég þekki - svo ég fór að lesa blogg. Reyndar voru þær - og eru enn - afspyrnulatar við þetta en ég var dottin í bloggið. Ekki man ég nákvæmlega hvernig þetta vatt upp á sig, en fyrir tæpu ári var ég búin að búa til sérstaka bloggmöppu í bókamerkin hjá mér og hún fylltist af slóðum á bloggara. Og ég uppgötvaði að ég var alls ekki að hnýsast í einkalíf fólks, bloggið er miklu víðtækara en svo og gjarnan bráðskemmtilegt, áhugaverðar umræður og lífleg skoðanaskipti í gangi.

Þetta fór rólega af stað hjá mér. Fyrir utan áðurnefndar vinkonur bættist við einn bloggari, hálfum mánuði seinna næsti og svo koll af kolli. Endrum og eins hef ég tekið til og hent út þeim sem ekki hafa staðið undir væntingum en bætt öðrum við sem ég hef rekist á og líkað vel. Áður en ég vissi af var ég farin að lesa viss blogg á hverjum degi og alltaf bættist í safnið.

Þetta er fyrsti bloggarinn sem fór í möppuna hjá vinkonum mínum tveimur og syni annarrar. Ég þekkti konuna af afspurn og hún er algjör snillingur í að gera hversdagslega atburði skemmtilega og spennandi. Maður brosir eftir hvern lestur.
Þessi varð fljótlega skyldulesning. Hún hefur skrautlegan stíl, myndrænan og bráðfyndinn, en hún er líka einlæg og hefur með eindæmum ríka réttlætiskennd.
Svo er það þessi sem segir svo dásamlega frá. Nánast allt sem frá henni kemur hefur snert mig á einhvern hátt og kennt mér eitthvað nýtt um hluti sem ég hef aldrei kynnst af eigin raun.
Þessar tvær eiga örugglega báðar eftir að skrifa bækur, mjög ólíkar bækur. Ég verð fyrst til að kaupa bækurnar þeirra og hlakka til að lesa þær.

Þessi varð fljótlega algjört möst. Hún er flott kona og áhugaverð þótt oft sé ég ósammála henni.

Ég fór að uppgötva vini og kunningja á blogginu sem ég vissi ekki að væru þar eða hafði misst sjónar á. Ég gerði aldrei athugasemdir, kunni einhvern veginn ekki við að troða mér inn í umræður hjá bláókunnugu fólki, en einn daginn mátti ég til, málefnið var mér mikils virði. Síðdegis sama dag fékk ég tölvupóst frá þessari konu sem reyndist vera gömul vinkona mín sem ég hafði misst sjónar á eins og gengur í lífinu. Hún hafði séð nafnið mitt í athugasemdinni og hafði upp á mér. Ég las skrif hennar langt aftur í tímann, fannst hún með eindæmum málefnaleg og skemmtileg, bloggið hennar höfðaði sterkt til mín og hún bættist á daglega listann minn. Það verður gaman að kynnast henni upp á nýtt.

Enn ein góð vinkona mín bloggar, en stopult þó. Hún er ein af þessum ódrepandi hugsjónamanneskjum sem er óþreytandi við að benda á bæði það sem betur má fara og sem vel er gert.
Skólabróðir minn er orðinn duglegur bloggari. Hann er frábær ljósmyndari, birtir flottar myndir á blogginu sínu og setur fram skemmtilegar hugmyndir sem hann fær í bunkum.
Þessi er gamall vinnufélagi og mér finnst alltaf gott að lesa bloggið hans. Honum er einkar lagið að blanda saman hlutum í skrifum sínum, er einstaklega vel máli farinn og segir skemmtilega frá.
Vin minn frá unglingsárum fann ég og var búin að lesa bloggið hans lengi áður en ég gaf mig fram við hann. Mér virðist hann ennþá vera svolítið dyntóttur eftir alla þessa áratugi en það verður áhugavert að kynnast honum aftur.

Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur.

Svo er það þessi náungi. Ég varð fyrst vör við hann á athugasemdum annarra bloggara og var hikandi við að skoða skrifin hans af því myndin sem hann notaði var svo skrýtin (hann er reyndar nýbúinn að bæta úr því). En ég lét vaða og sá ekki eftir því. Hann kryfur lífið og tilveruna, trú, trúfrelsi, trúleysi, andann og alheiminn almennt alveg sérlega vel. Það eina sem angrar mig við bloggið hans er, að hann er með ljósa stafi á dökkum bakgrunni - og það get ég ekki lesið, sjónin mín er bara þannig. Svo ég þarf alltaf að hafa heilmikið fyrir honum - afrita færslurnar hans inn á Word-skjal, sverta letrið og stækka það. Stundum þarf ég marga daga til að melta skrifin, liggja yfir þeim og lesa oft. Maður tekur misvel við. En ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma verið alvarlega ósammála honum.

Þá eru það tveir kollegar mínir í þýðingunum, háðfuglinn og lati bloggarinn, frábær listakona þess síðarnefnda, leiðsögukonan, bókabéusinn, veðurfræðingurinn, eldhuginn, tölvu- og ættfræðingurinn, uppáhaldssöngvarinn, skemmtilegi pælarinn, fallega Stígamótakonan, maður frænku minnar, líklega systir Gyðu bekkjarsystur, þessi og þessi standa með okkur í baráttunni, glæsilega nágrannakona mín, sagnfræðingurinn og tölvunördinn, og fleiri og fleiri og fleiri. Listinn er endalaus.

Ég hafði aldrei ætlað mér að blogga sjálf, láta mér bara nægja að lesa blogg annarra. En nauðsyn braut lög og vegna sérstaks baráttumáls, sem dylst engum sem les fyrri færslur, lét ég slag standa og byrjaði 1. nóvember. Hvort ég held áfram þegar baráttumálið verður útkljáð veit ég ekki, það verður tíminn að leiða í ljós. Ég hef verið hikandi og feimin við að afla mér bloggvina, en þó gert heiðarlegar tilraunir því ég lærði smátt og smátt hvað það er þægilegt að fylgjast með skrifum þeirra sem eru á bloggvinalistanum. Ég hef líka verið allt of ódugleg við að skrifa athugasemdir en líka gert heiðarlegar tilraunir þar. En þetta kemur í rólegheitunum.

Aðalatvinna mín felst í því, að sitja fyrir framan tölvuna í vinnuherberginu heima og þýða misgott sjónvarpsefni. Þetta er einmanalegt starf, engir vinnufélagar, engin skemmtileg kaffistofa til að spjalla við fólk og stundum er hápunktur dagsins að setja í þvottavél, fara út með ruslið eða skreppa í eitthvert samráðsfélagsheimilið, Hagkaup, Bónus, Krónuna eða Nóatún. Þá er gott að geta kíkt á kunningjana á blogginu og athugað hvað er á seyði á þeim vettvangi.

Þættirnir hans Gísla Einarssonar, Út og suður, voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hann var naskur að finna áhugvert fólk víða um land og eftir hvern einasta þátt fékk ég sömu tilfinninguna: Þetta eru hinar sönnu hetjur Íslands. Liðið á síðum tímarita eins og Séð og heyrt, auðjöfrarnir og glansgengið hefur ekkert í þær.

Sama finnst mér um bloggarana, þeir eru líka alvörufólk.


Bloggfærslur 25. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband