Nú er mér ekki skemmt

Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm og finnst sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutunum, en í greininni hér að neðan úr 24 stundum 12. desember sl. fer formaður Húseigendafélagsins óralangt yfir strikið. Hér með er áætlunum um að ganga í téð félag frestað um óákveðinn tíma.

Í grein formannsins er nánast hver einasta setning árás á mig og mína og aðra líkt þenkjandi, auk þess sem orðbragðið er síst til fyrirmyndar.  Þegar sjálfum formanni Húseigendafélagsins finnst sjálfsagt að banna fólki að elda tiltekinn mat innan veggja eigin heimilis og reykja á bak við luktar dyr er þess skammt að bíða að fleira bætist á bannlistann.

Ég er alin upp við að borða skötu einu sinni á ári. Foreldrar mínir og amma, sem bjó á heimilinu, ÞÓTTUST ekki vera að Vestan - þau VORU að Vestan. Og það var ekkert barbarískt við matargerð móður minnar eða neyslusiði okkar, hvort sem um var að ræða skötu, siginn fisk, svið, rauðmaga eða annað sem sumum fannst herramannsmatur en öðrum ómeti. 

Ég var frekar matvönd í æsku, en skatan fannst mér alltaf góð, ólíkt mörgum börnum, og ég hef alltaf haft skötu á borðum á Þorláksmessu og hyggst halda í þá hefð til dauðadags.  Vei þeim formanni sem reynir að banna mér það.  Ég get ekki með nokkru móti séð að þar með sé ég að skerða rétt annarra til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi eins og formaðurinn segir.  Ég ólst upp í sambýlishúsi, bý enn í sambýlishúsi og hef aldrei fengið kvörtun frá nágrönnum yfir skötulykt, enda er opnanlegt fag á eldhúsglugganum hjá mér og auk þess vifta yfir eldavélinni.  

Ég áskil mér þann rétt að meta sjálf hvað mér finnst óætur viðbjóður og hvað ekki.  Þar í flokki er ýmislegt sem öðrum þykir herramannsmatur, s.s. gellur, sniglar, ýmsir pastaréttir og fleira.  En ekki hvarflar að mér að banna fólki að borða það þótt mér þyki það ógeðslegt.  Mér finnst líka frekar ókræsilegt að ganga fram hjá hitakössum með sviðahausum í búðum og finna fýluna af þeim, ekki sérlega lystugur matur fyrir minn smekk, en fyrr skal ég dauð liggja en kvarta og hafa sviðin af þeim sem finnast þau góð.

Skötumáltíð er órjúfanlegur hluti af jólunum hjá mér eins og rjúpur og hangikjöt.  Lyktar- og bragðsmekkur fólks er einstaklingsbundinn og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.  Sumum finnst hangikjötslykt ógeðslega vond, vill formaðurinn banna það líka?  Sjálf kúgast ég ef ég kem nálægt þar sem verið er að gera slátur - þoli ekki lyktina.  Á þá ekki að banna sláturgerð í mínu húsi? Mér finnst lykt af alls konar mat ógeðsleg, öðrum sjálfsagt líka, og ef hlustað væri á svona blaður gæti endað með því að enginn mætti elda neitt sem nágrönnunum þykir vont eða illþefjandi. 

Ég hlýt að vera mikill syndaselur í augum formannsins, því auk þess að elda skötu einu sinni á ári þá reyki ég alla daga ársins - en aðeins innan veggja heimilisins - ekki í sameigninni, hvað þá að ég liggi á skráargötum nágranna minna og blási reyknum inn til þeirra.  Það væri eina leiðin til að þeir yrðu fyrir ónæði af mínum reykingum.

Ef formaðurinn og hans líkar vilja banna fólki að elda og borða tiltekinn mat og reykja tóbak inni á heimilum sínum, hvað kemur þá næst? Hvað fleira vill formaður húseigendafélagsins banna fólki að gera innan veggja eigin heimila?  Hvernig ætlar hann að fylgjast með? Hafa eftirlitsmyndavélar á hverju heimili?

Það er í hæsta máta óeðlilegt og raunar argasti skandall að Sigurður sé með slíkt óþverraorðbragð og geri svona lítið úr fjölda fólks opinberlega þar sem hann er í forsvari fyrir félag sem tekur við alls konar kvörtunum yfir nágrönnum, hversu alvarlegar eða léttvægar þær kunna að vera.  Hann er hér að stimpla sig rækilega inn sem fordómafullur maður sem dæmir samkvæmt eigin smekk og getur því aldrei talist hlutlaus í neinum málum héðan í frá.

Ég er búin að lesa greinina þrisvar og verð reiðari við hvern lestur. Mér finnst maðurinn gera sig að fífli og óviðurkvæmilegt orðbragðið lýsir ótrúlega mikilli mannfyrirlitningu og er formanni Húseigendafélagsins ekki sæmandi.


Skata_24_121207-80

Bloggfærslur 14. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband