Hvað er ólýðræðislegt við að láta í sér heyra?

MótmæliMikið hefur verið fjallað um hinn sögulega borgarstjórnarfund á fimmtudaginn og mótmælin sem þar voru viðhöfð og sýnist sitt hverjum. Ég hef sett inn athugasemdir á ýmsum bloggsíðum þar sem ég fagna þessum mótmælum og finnst þau alls ekki í ætt við skrílslæti eins og sumir vilja vera láta. Ég sat límd fyrir framan sjónvarpið á meðan á þessu stóð, skipti ört milli stöðva og fannst risið ekki hátt á forsvarsmönnum nýja meirihlutans. Loksins, loksins lét fólk í sér heyra og það eftirminnilega, enda þorra Reykvíkinga, og reyndar landsmanna allra, gróflega misboðið með valdaráninu. Frekar ætti að kenna valdaránið við skríl en mótmæli almennings sem hefur fengið sig fullsaddan af siðlausum embættisveitingum, baktjaldamakki, hrossakaupum, ábyrgðarleysi stjórnmálamanna og fáránlegri sóun á skattpeningum.

Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun var Hallgrímur Thorsteinsson með þrjá gesti, þau Kjartan Magnússon úr Sjálfstæðisflokki, Oddnýju Sturludóttur úr Samfylkingu og Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðing, sem væntanlega var þar sem hlutlaus áhorfandi. "Hvað finnst ykkur um það sem gerðist þarna?" spurði Hallgrímur viðmælendur sína. Þau Kjartan og Oddný höfðu skiljanlega ólíka sýn á atburðinn.

EinarMarSvo spurði hann Einar Mar "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði eitthvað á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta óhefðbundna stjórnmálaþátttöku... (Innskot Oddnýjar: Borgaralega óhlýðni.) ...eða borgaralega óhlýðni í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál."

Ég sá einhvers staðar að Jenný Anna, sá stórkostlegi nýyrðasmiður, kallar þetta "hljóðsettan lýðræðisgjörning" sem á jafnvel enn betur við hér en borgaraleg óhlýðni eða óhefðbundin stjórnmálaþátttaka.

Þetta finnst mér vera kjarni málsins og til að bæta um betur birti ég hér að neðan pistil Illuga Jökulssonar úr 24 stundum í dag. Ég hef verið mikill aðdáandi Illuga um langt árabil þótt ekki þekki ég hann neitt persónulega. Honum er einkar lagið að orða hlutina þannig, að mér finnst hann hafa lesið hug minn og hjarta og það gerir hann nú sem endranær.

Vonandi var atburðurinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudaginn bara forsmekkurinn að því sem koma skal - að landsmenn noti lýðræðið og taki virkan þátt í að móta líf sitt og umhverfi.


Pistill Illuga
 


Bloggfærslur 26. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband