13.2.2008
Auglýsingar á Moggabloggi
Mér var bent á fréttina hér að neðan í Fréttablaðinu í morgun og ég varð mjög kát að lesa þessi ummæli Árna Matthíassonar. Sjálf er ég alfarið á móti auglýsingunum og hef lokað á þær í mínum tölvum svo ég sé þær ekki. Það er mjög auðveld aðgerð sem hefur þann kost í för með sér að loka á allt sem hreyfist - því hreyfiauglýsingar þoli ég alls ekki af líkamlegum ástæðum sem ég kann ekki að skýra. Ég fæ einhvers konar riðu eða jafnvægistruflun sem veldur því að ég get ekki skoðað vefsíður með hreyfiauglýsingum. Fyrir nú utan það sem bloggvenzli mitt, Steingrímur Helgason, skrifar um hér og ég tek heilshugar undir.
Fleiri hafa skrifað um þessi auglýsingamál og þar fer þar fremstur meðal jafningja annað venzli mitt og gamall vinur, Sigurður Þór Guðjónsson með þessari færslu sem ég er líka innilega sammála. Sumir láta sér hins vegar fátt um finnast og segjast ekki taka eftir þessu.
Enn aðrir hafa hætt að skrifa á Moggabloggið og þeir eru fleiri en þessir fjórir eða fimm sem Árni nefnir í viðtalinu. Auk þess sem nokkrir hafa sett Moggabloggið á "skilorð" - ætla að hætta að skrifa ef auglýsingin verður ekki fjarlægð innan einhvers ákveðins tíma.
Alveg væri ég til í að borga hóflegt árgjald fyrir bloggsíðuna mína auglýsingalausa þótt ekki hafi ég bloggað mikið eða lengi. Ekki væri úr vegi að miða t.d. við árgjaldið á 123.is blogginu sem er rétt innan við 3.000 krónur á ári.
Ég skora á forsvarsmenn mbl.is og blog.is að leyfa bloggurum að velja um hóflegt árgjald fyrir síðuna sína annars vegar - eða auglýsingar hins vegar!
Vefurinn | Breytt 16.2.2008 kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)