Viðhorf Helgu Völu - Þetta er ekkert grín!

Hér fyrir neðan er úrklippa úr 24 stundum í dag þar sem Helga Vala Helgadóttir varar við sinnuleysi fólks gagnvart þeirri hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, annaðhvort í Arnarfirði eða Dýrafirði.

Helga Vala lýsir yfir áhyggjum sínum af hugmyndinni og sinnuleysinu og vitnar í orð fólks sem segir að það taki því ekki að ergja sig yfir þessari umræðu - þetta sé bara grín.

EN ÞETTA ER EKKERT GRÍN!

Ekki frekar en þær hugmyndir að reisa álver í Helguvík, eyðileggja náttúruperlur á suðvesturhorninu með óarðbærum, brennisteinsspúandi jarðvarmavirkjunum, leggja háspennumöstur um þvert og endilangt Reykjanesið og flytja inn enn fleiri erlenda farandverkamenn eins og Helga Vala kallar þá réttilega. Svo ekki sé minnst á þensluna, vaxtaokrið og verðbólguna sem óhjákvæmilega fylgir öllum þessum framkvæmdum.

Íslendingar verða að átta sig á því, að mönnum sem haldnir eru virkjana- og stóriðjufíkn er fúlasta alvara. Þeim er ekkert heilagt. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um hvers konar mengun af völdum framkvæmdanna og þeir hafa sannfært sjálfa sig um að þetta sé "þjóðhagslega hagkvæmt" (aur í eigin vasa?). Og að það þurfi "að skapa störf" í þjóðfélagi þar sem er ekkert atvinnuleysi og fluttir hafa verið inn um eða yfir 20.000 erlendir farandverkamenn á örfáum árum til að þræla á lágum launum svo græðgisvæðingin geti orðið að veruleika og sumir fengið meira í vasann.

Ætla mætti að þjóðin sé reynslunni ríkari eftir Kárahnjúkaklúðrið - það var alvara þó að fáir tryðu því til að byrja með. Við verðum að taka mark á svona fyrirætlunum og kæfa þær í fæðingu. Náttúra Íslands er of stórfengleg og dýrmæt til að henni sé hvað eftir annað fórnað á altari gróðahyggjunnar og Mammons.

Vestfirðirnir eru dýrgripur sem við eigum öll að standa vörð um ásamt öðrum náttúrugersemum á Íslandi. Getur einhver með góðu móti séð fyrir sér Kría_í_Arnarfirðispúandi olíuhreinsunarstöð í þessu umhverfi hér á myndinni?



 

 




 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég tek heilshugar undir orð Helgu Völu í greininni hér að neðan, færi henni mínar bestu þakkir fyrir að halda vöku sinni, og skora á alla sem hafa skoðun á málinu að taka þetta mjög alvarlega, eigi síðar en strax, og láta í sér heyra - hátt og snjallt.

Viðhorf Helgu Völu Helgadóttur


Bloggfærslur 15. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband