21.2.2008
Áskorun til umhverfisráðherra
Eftirfarandi var sent umhverfisráðherra og fjölmiðlum í morgun:
Ágæti umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Í ljósi umræðna sem fram hafa farið undanfarna daga um hugsanlegt álver í Helguvík og yfirlýsinga sveitarstjórans í Garði, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og talsmanna Norðuráls viljum við koma á framfæri yfirlýsingu og áskorun til umhverfisráðherra.
Stofnað var til vefsíðunnar http://www.hengill.nu/ í lok október 2007 til að vekja athygli almennings á fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi og afleiðingum fyrir ómetanlega náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það heppnaðist svo vel að aldrei í Íslandssögunni hafa borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd, eða tæplega 700.
Málinu er ekki lokið, erfiðar ákvarðanir eru fram undan og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálar skynsemi og náttúruverndar. Náttúran á alltaf að njóta vafans.
Með von, vinsemd og virðingu,
Petra Mazetti,
Lára Hanna Einarsdóttir,
Katarina Wiklund
-----------------------------------------------------------------------------------
Ölkelduháls ber að vernda sem útivistarsvæði en ekki spilla með virkjun fyrir hugsanlegt álver Norðuráls í Helguvík
Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar vegna álvers í Helguvík er Ölkelduháls eitt þeirra háhitasvæða sem fórnað yrði ef áform um álverið ná fram að ganga. Sú fórn væri með öllu óréttlætanleg.
Ölkelduháls og umhverfi hans er dýrgripur á náttúruminjaskrá og það ber að virða.
Því skorum við á umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að sjá til þess að framkvæmt verði heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og allar tengdar framkvæmdir að Bitruvirkjun meðtaldri og vísum þar í kæru Landverndar.
Þrátt fyrir að mjög mikil óvissa ríki bæði um orkuöflun og orkuflutninga fyrir álver í Helguvík er að skilja á yfirlýsingum Garðs og Reykjanesbæjar að til standi að hefjast handa við byggingu álversins fljótlega. Sú fyrirætlan er beinlínis til þess fallin að setja ómaklegan þrýsting á önnur sveitarfélög sem hlut eiga að máli.
Slíku verklagi ber að afstýra með öllum tiltækum ráðum.
Aðeins lítill hluti orkunnar sem til þarf, eða u.þ.b. 20%, er í landi Reykjanesbæjar en enga orku er að finna í Garði. Ásælni sveitarfélaganna tveggja í auðlindir annarra tekur út yfir allan þjófabálk og við slíkan framgang er ekki hægt að una. Ítrekaðar ábendingar Skipulagsstofnunar um að eyða þurfi óvissu um orkuöflun og orkuflutninga áður en framkvæmdir hefjast eru að engu hafðar með yfirlýsingum sveitarfélaganna tveggja og talsmanna Norðuráls undanfarna daga.
Aðstandendur síðunnar www.hengill.nu sem sett var upp til bjargar Ölkelduhálsi og nágrenni
Petra Mazetti, Lára Hanna Einarsdóttir, Katarina Wiklund
Bloggar | Breytt 22.2.2008 kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)