Tortryggni, teygðar meiningar og tengsl

Það var ekki ætlun mín að skrifa meira alveg strax um meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs og Höskuldar á fundum þeirra með þingmönnum í Osló. Ekki fyrr en ég hef fengið meiri upplýsingar. En tvennt varð til þess að ég ákvað að nefna nokkur atriði í viðbót.

Fram hefur komið sá undarlegi skilningur einhverra - eða misskilningur - að tilgangur minn eða heimildamanns míns hafi verið að kasta rýrð á erindi þeirra félaga til Osló og göfugan tilgang. Svo er alls ekki. Ég hef ekkert minnst einu orði á skoðun mína á þeim hluta málsins og ætla ekki að gera. Þeir höfðu með sér fjóra aðstoðarmenn og ég gerði aðeins athugasemd við tvo þeirra. Hér eru engar samsæriskenningar á ferðinni, bara verið að benda á staðreyndir sem blasa við.

Sigmundur Davíð gerði að mínu mati mikil mistök í gær sem kasta rýrð á tilgang hans með förinni, hversu göfugur sem hann kann að hafa verið. Mistökin kristallast í viðtölum við báðar sjónvarpsstöðvarnar, RÚV og Stöð 2. Hlustið á manninn.

 

Hér vogar Sigmundur Davíð sér að gera lítið úr ofureðlilegum ótta, tortryggni, reiði og vanþóknun fólks á þeim mönnum sem settu íslenskt þjóðfélag á hausinn og samverkamönnum þeirra. "Á Íslandi tengjast allir einhverjum á einhvern hátt," segir Sigmundur Davíð og gerir ekki greinarmun á vogunarsjóðum, skúringakonum og leikfangabúðum. Er auðmaðurinn Sigmundur Davíð þarna að verja félaga sína, hina auðmennina? "Ég veit ekkert um hvort einhverjir sem voru með okkur á þessum fundum hafi einhvern tíma verið viðskiptafélagar Björgólfs Thors," segir Sigmundur Davíð og fer svo að tala um nornaveiðar og McCarthyisma. Mér finnst ég hafa heyrt svona kjaftæði fyrir ekki svo ýkja löngu - í margar vikur eftir hrun þegar þáverandi stjórnvöld voru upptekin við að persónugera ekki hlutina. Síðan segir Sigmundur Davíð: "Ætla menn að troða þetta allt niður í svaðið af því þeir hafi hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni." Ja, hver skollinn... hugsaði ég með mér. Annaðhvort hefur tunguliprum töffurunum tekist að blekkja Sigmund Davíð svona hressilega eða eigin- eða pólitískir hagsmunir bera samvisku hans ofurliði.

Sigmundur Davíð á að vita betur - og gerir það. Hann er í ábyrgðarhlutverki í þjóðfélaginu og honum leyfist ekki hvað sem er. Mennirnir tveir í vogunarsjóðBjörgólfur Thor Björgólfssonnum eru ekki bara "einhverjir sérfræðingar" - þeir eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors Björgólfssonar - fyrrverandi aðaleiganda bankans sem bjó til Icesave. Hér er ekki um að ræða að þeir hafi "hugsanlega þekkt einhvern sem var einhvern tíma með einhverjum útrásarmanni". Og ég skal hengja mig upp á að Sigmundur Davíð veit þetta mætavel. Ef ekki skal ég gefa honum vísbendingar:

Vogunarsjóðurinn Boreas Capital Fund tengist Björgólfi Thor á a.m.k. tvennan hátt - fyrir utan vináttuna - við meðreiðarsveina Sigmundar Davíðs. Sjóðurinn var... ég held að það sé kallað að vera vistaður hjá... Landsvaka, sem er hluti Landsbankans. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því, að þar hafi Boreas Capital komist upp með ýmislegt af því þetta voru vinir Bjögga.

Eins og áður hefur komið fram var Boreas Capital stofnað um mitt ár 2007. Í þessari frétt kemur fram að sjóðurinn lokaði fyrir nýja fjárfesta í ágústlok 2007 og var fjárfestingargeta hans þá 126 milljónir evra sem á núvirði eru rúmir 23 milljarðar íslenskra króna. Hér er ársfjórðungsuppgjör Straums fyrir 3. ársfjórðung 2007. Takið eftir að á bls. 23 er sagt að eignarhlutur Straums í Tanganyika Oil Company er 32 milljónir evra.

Á 4. ársfjórðungi er hluturinn kominn niður í 20 milljónir, en aftur á móti á Straumur nú 19 milljónir evra í... jú, einmitt - Boreas Capital Fund - sjá bls. 39. Þessi hlutur Straums er heil 15% af fjárhæðinni sem Boreas Capital lagði upp með í lok ágúst þetta ár, 126 milljónunum.

Á 1. ársfjórðungi 2008 er hlutur Straums í Tanganyika Oil 28 milljónir evraBoreas Capital og áfram19 milljónir í Boreas Capital, en á 2. ársfjórðungi er hluturinn í Tanganyika horfinn og hluturinn í Boreas Capital 18 milljónir. Spurning hvort þetta sé sami Tanganyika hluturinn - eða einhver annar. Á þessum tímapunkti virðist Boreas Capital sjóðurinn hafa skroppið saman og var orðinn 10 milljarða virði eins og sjá má hér í stað 23. milljarða rúmu ári áður.

Stökkvum nú fram í 3. ársfjórðung 2008 - plús október og kíkjum í sérstaka Fjárfestabók. Þarna eru inni fyrstu 10 mánuðir ársins 2008 og þar hefur hlutur Straums í Boreas Capital hækkað upp í 24 milljónir evra. En eitthvað gerist í nóvember og desember 2008 því í árslok, í lok 4. ársfjórðungs, er eignarhlutur Straums í Boreas Capital horfinn. Liðurinn "other", þ.e. önnur óskráð fyrirtæki, stekkur hins vegar úr 86 milljónum evra í 173 milljónir. Eins og sjá má á þessari mynd var Boreas Capital Fund einn af 20 stærstu hluthöfum í Straumi í lok október 2008. Stjórnarformaður og aðaleigandi Straums var Björgólfur Thor Björgólfsson, æskuvinur Franks Pitt, stjórnarformanns Boreas Capital. Straumur varð gjaldþrota í mars 2009.

Þetta er sett hér fram til að sýna tengsl. Ég er ekki að halda því fram að Straumurviðskiptin sem vísað er í séu að neinu leyti ólögmæt - það veit ég hreinlega ekkert um og hef ekki forsendur til að meta það. En ég efast ekkert um að viðskiptatengsl þessara manna séu miklu meiri og flóknari en ég get nokkurn tíma skilið.

Málið er að Sigmundur Davíð og Höskuldur gerðu mikil og stór mistök með því að taka með sér tvo fulltrúa vogunarsjóðs, sem jafnframt eru vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, á fund norsku kollega sinna. Frá því hrunið átti sér stað og sannleikskornin hafa komið upp á yfirborðið eitt af öðru hefur oft verið sagt að Ísland hafi verið einn stór vogunarsjóður. Það er bæði landinu til hnjóðs og raunsönn lýsing á starfsemi vogunarsjóða.

Annars vegar er það blaut tuska framan í þjóðina að taka vini og viðskiptafélaga eins aðalleikarans í hruninu með sér. Hins vegar eru það hrikaleg skilaboð til norsku þingmannanna að taka menn úr vogunarsjóði með til að biðja um lán - hversu göfugur sem tilgangurinn er. Það er eins og að biðja um pening með spilafíkil við hliðina á sér.

Mogginn er orðinn nokkurs konar barómeter. Allir vita að hinum nýja ritstjóra þóknuðust Björgólfsfeðgar - enda gaf hann þeim Landsbankann og hefur liðið þeim hvaðeina sem þeim hefur dottið í hug. Geir Haarde sagði þegar hrunið var að bresta á að hann talaði alltaf við Björgólf Thor þegar hann væri á landinu. Ábending mín í síðasta pistli (lesið athugasemdir Magnúsar nr. 53, 54 og 57) hefur þótt frétt í velflestum fjölmiðlum og um málið fjallað í Pressunni, á Eyjunni, í DV og sjónvarpsfréttunum hér að ofan. Fjölmargir bloggarar hafa ýmist fjallað sjálfir um málið eða linkað í mitt. En hvað segir Mogginn? Ekkert á mbl.is svo ég viti en minnst á málið í þessari grein í sunnudagsmogganum. Þetta segir í greininni um málið:

Úr frétt Mogga 11. október 2009

Svo mörg voru þau orð. Ritstjórinn stendur með sínu fólki og er að undirbúa nýja stjórn til að gæta sérhagsmuna ýmiss konar. Spurning hvort hann sé að biðla til Framsóknar...


Bloggfærslur 11. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband