14.10.2009
Eru svona bændur bústólpar?
Svona mál ættu að vera hætt að koma manni á óvart. En ég rak engu að síður upp stór augu þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld. Þar var sagt frá fyrirtæki Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, Lamba ehf. Tilgangur þess er sauðfjár- og geitarækt. Brynjólfur orðinn bóndi? Ónei, ekki aldeilis. Fyrirtækið... eða réttara sagt einkahlutafélagið... var notað til að slá lán og braska. Virðist ekki hafa komið sauðfjár- og geitarækt nokkurn skapaðan hlut við.
Skuld einkahlutafélags Brynjólfs er nú þúsund milljónir - einn milljarður - sem bankinn gæti þurft að afskrifa. Ætli Brynjólfi þyki óábyrg meðferð á fé að borga skuldir sínar eins og Bjarna Ármannssyni? En eins og Lóa Pind segir í lok fréttarinnar: Það er ekki sama Jón og Jón ehf.
Fréttir Stöðvar 2 - 14. október 2009
Viðbót: Agnar minnti mig á þetta myndbrot úr Silfrinu þar sem Ari Matthíasson sagði söguna af því þegar hann lenti á fundi með mönnum þar sem verið var að kynna skattaskjól og hvernig hægt væri að koma fé undan skatti. Þarna er Brynjólfur Bjarnason einmitt nefndur til sögunnar. Skattrannsóknarstjóri brást við sögu Ara eins og sjá má hér og hér. Hvar ætli þetta mál sé statt?
Silfur Egils 25. janúar 2009
Önnur viðbót: Það er ekki að spyrja að DV og skúbbinu þeirra. Ég var minnt á að fréttin um Lamba hans Brynjólfs og skulduga geitarækt forstjórans birtist í DV í maí sl. DV hefur hvað eftir annað afhjúpað alls konar sukk, svínarí og spillingu þótt þær fréttir rati ekki alltaf í aðra fjölmiðla. Ég held að þeir sem treysta DV ekki ennþá ættu að endurskoða afstöðu sína, fara að kaupa blaðið og gera því þar með kleift að koma út oftar!
Bloggar | Breytt 15.10.2009 kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
14.10.2009
Hundgá úr annarri sveit
"Þessi er líka gamall vinnufélagi og nýbyrjaður að blogga. Hann er með yndislegri mönnum og bloggið hans eftir því. Hann segir þannig frá, að fyrr en varir er maður kominn á staðinn og sér atburðina ljóslifandi fyrir sér. Skrifin hans virka á mig eins og prósaljóð. Hann á að skrifa ljóðabækur." Þessa umsögn skrifaði ég í nóvember 2007, þá nýbyrjuð að blogga sjálf.
Hann hefur verið latur við bloggið upp á síðkastið og tregur til að "yfirgefa fjörið og hlýjan faðm Feisbúkk og fara í einsemdina á blogginu", eins og hann gantaðist með um daginn. Því miður - ég sakna pistlanna hans og það gera örugglega fleiri. En nú vitum við hvað hann hefur verið að sýsla undanfarið.
Við höfum ferðast með honum vítt og breitt um landið, farið með honum í göngur, niðurrekstur, réttir, eftirleitir og veiði. Við höfum borðað ljúffenga kjötsúpu hjá foreldrum hans í Skagafirðinum og hafragraut í eldhúsinu hjá honum sjálfum. Allt í huganum á vængjum myndrænna lýsinganna á blogginu hans. Svona skrifaði hann um réttirnar í september 2007:
Réttir, bara þetta orð, hljómurinn og lyktin og áður en þú veist af ert þú staddur í réttinni miðri umvafinn sauðfé og einblínir á mörkin. Pabbi stendur við dilkinn og segir manni til: "Þarna er ein kollótt, þessi gamla hornbrotna, þarna upp við vegginn, móflekkóttur hrútur"... og svo framvegis. Þetta er gaman. Einu sinni fór í taugarnar á mér þegar verið var að kalla á mann og segja manni að taka nú þessa kind, því mér fannst ég vera fullfær um að finna þær sjálfur. Það fer ekki í taugarnar á mér lengur. Enda búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér að karl faðir minn hefur sérstakan radar í hausnum þegar sauðfé er annars vegar. En ég var seigur núna, nokkuð fljótur að sjá mörkin og svo eru allir bæir með númer nú til dags. Svo var ég ansi lipur við að ná fénu og þar hef ég sko engu gleymt! Ég geng rólega um réttina, miða út ærina eða lambið og geri svo leifturárás. Mér finnst ég vera snillingur í þessu! En þegar maður var lítill gátu svona árásir endað á því að liggja á bakinu í drullunni og allir hlógu, en maður stóð upp aftur. Og fer aftur í réttir. Réttir. Það er eitthvað við þetta orð. Það er dregið sundur, spjallað við sveitungana og það sést ekki vín á nokkrum manni, bara skroppið í kaffi í skúrinn hjá kvenfélaginu og féð síðan rekið heim þar sem bíður heit kjötsúpa. Réttir. Þar sá maður fyrst á ævinni fullan mann, almennilegan hundaslag, menn að skamma fjallskilastjórann og fólk sem maður vissi ekki að væri til í sveitinni. En það var ekki mikið sungið. Það var á gangnasunnudaginn sem var sungið, þá var sungið meðan einhver rödd var til. En það er önnur saga og efni í annan pistil. En ég held að Akrahreppsbúar ættu að halda sinni gömlu Silfrastaðarétt aðeins lengur. Fara fram í kofa á fimmtudagskvöldi. Smala föstudag og laugardag og reka niður. Rétta síðan á sunnudegi. Ég hef trú á því að þeir sem vilja fara í göngur fái frí á föstudegi. Það er einhvern veginn léttara að fá frí á föstudegi en mánudegi. Og ég ætla að mæta í réttir að ári, þó að ég sé ekki lengur skrifaður fyrir markinu mínu í markaskránni, en það er í góðum höndum hjá Drífu og Fúsa. Réttarstígvélin eru enn í bílnum... ég þvæ þau bráðum...
Við komumst ekki á gangnafundinn á góunni frekar en hann - en fórum samt því hann skrifaði bréf og skyndilega vorum við komin norður. Og hann bauð okkur með sér á ættarmót í júlí og fyrr en varði vorum við orðin vel málkunnug ættingjum hans og forfeðrum - okkur var kippt inn í fjölskylduna og við fundum að við vorum velkomin. Hlýjan og húmorinn skín út úr öllum hans skrifum, hvað sem hann fjallar um hverju sinni og í ofanálag er hann feykilega góður hagyrðingur og skellir stundum á bloggið svona líka sallafínum kveðskap .
Og eins og ég stakk upp á í nóvember 2007 þá skrifaði Eyþór Árnason ljóðabók og í gær voru honum veitt verðlaun fyrir hana - eða óprentað handrit að henni. Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Fyrir fyrstu ljóðabókina sína! Þegar fréttin kom í sjónvarpinu rétti ég úr mér í sófanum, brosti út að eyrum og svei mér ef það glitraði ekki lítið tár á hvarmi. Ég klökknaði og var feykilega stolt af "mínum manni". Hvernig líður þá fólkinu hans - fjölskyldunni hér syðra og ættboganum í Skagafirði sem maður kannast svo vel við frá skrifum hans? Ég er ekki búin að sjá bókina, enda er hún ekki komin út. En ef ég fæ mér einhverja bók á næstunni þá verður það ljóðabókin hans Eyþórs - Hundgá úr annarri sveit. Eftir að hafa lesið hvern dýrindis prósann á fætur öðrum á blogginu hans veit ég fyrir víst að þetta eru eðalbókmenntir. Til hamingju með viðurkenninguna, Eyþór minn. Megirðu skrifa margar, margar bækur sjálfum þér og okkur hinum til gleði og ánægju.
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 13. október 2009
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)