28.10.2009
Hlekkir hugarfarsins

Ágætu hlustendur...
Eitt af því sem einkenndi íslensku þjóðina, a.m.k. undanfarna áratugi, var að yppta öxlum og segja: "Þetta er bara svona!" þegar valdhafar misbuðu henni - og gjarnan mjög gróflega. Annars vegar vissi fólk sem var, að ekki yrði hlustað á kvartanir eða því yrði jafnvel refsað á einhvern hátt fyrir þá ósvífni að andmæla yfirvaldinu. Hins vegar var búið að heilaþvo þjóðina og afmá samfélagshugsun og náungakærleik hennar. Hugarfarið hafði verið einkavætt og hver orðinn sjálfum sér næstur. Samvinna og samhjálp var strokað út úr huglægum orðasöfnum Íslendinga.
Þetta var skelfileg þróun sem margir vonuðu að myndi snúast við eftir hrun - en það er nú öðru nær! Líklega heyrum við einna best að þetta hugarfar er enn við hestaheilsu, þegar hlustað er á yfirgengilega heimtufrekju bæjarstjórans í Reykjanesbæ og nokkurra meðreiðarsveina hans. Þeir krefjast þess að fá allt upp í hendurnar; að þéttbýlasta svæði landsins þurrausi orkuauðlindir sínar og leggi náttúruperlur í rúst til að skapa þeim nokkur störf í óarðbærum atvinnurekstri. Svo heimta þeir milljarðahöfn og þjóðin á að borga. Þarna er "ég um mig frá mér til mín" hugsjónin lifandi komin. Hvorki vilji né geta fyrir hendi til að horfa á heildarmyndina og taka tillit til náungans.
Samtök atvinnulífsins, sem eru hávær sérhagsmunasamtök, og Alþýðusamband Íslands, sem enginn veit fyrir hverja vinnur og hefur ekkert með alþýðu manna að gera lengur, taka undir í þessum frekjukór og reyna að valta yfir heilbrigða skynsemi. Talsmönnum þessara sérhagsmunahópa er fyrirmunað að skilja, að fyrirhyggju- og agaleysi er aðferðafræði fortíðar og ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi og búa afkomendum okkar öruggt skjól, þá verðum við einfaldlega að stíga varlega til jarðar. Skipuleggja vandlega áður en við framkvæmum í stað þess að æða út í óvissuna í græðgisham með skammtímareddingar og treysta á guð og lukkuna.
Guðmundur Andri Thorsson skrifað magnaða minningargrein um Morgunblaðið á vefsíðu Tímarits Máls og menningar í vikunni. Hann sagði meðal annars þetta:
"Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur... og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir.
Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist - allt hrundi, allt fór.
Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita."
Þetta sagði Guðmundur Andri.
Ég skora á Íslendinga að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins og byrja á að breyta sjálfum sér.
Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvaða hlekkir hugarfarsins eru einna hættulegastir er hér lítið, glænýtt dæmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)