Tvær ekkjur, þrjú föðurlaus börn og ef til vill fleiri fjölskyldumeðlimir sem treystu á vinnu og tekjur þessara manna. Andlát þeirra var í fréttum í ágúst 2008 en við höfum aldrei fengið að vita dánarorsökina. Rannsókn málsins var í höndum lögreglunnar á Selfossi og Vinnueftirlitið kom þar líka við sögu. Eftir því sem ég best veit hafa engir blaða- eða fréttamenn fylgt þessu máli eftir og reynt að grafast fyrir um hvað gerðist. Ég varð heldur ekki vör við mikla umræðu um málið á þessum tíma. En ég klippti þetta saman þá og hélt til haga því ég tók þetta nærri mér og vil vita hvað varð mönnunum að bana. Fá sannleikann. Fengu fjölskyldur þeirra bætur? Var skuldinni skellt á hina látnu? Hver er saga þessa hörmulega máls? Hafa rannsóknarblaða- og fréttamenn áhuga á að komast að því?
Andlát tveggja manna í Hellisheiðarvirkjun - Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 20.-25. ágúst 2008
Fjölmiðlafólk er duglegt þessa dagana við að reka hljóðnema framan í menn eins og Vilhjálm Egilsson hjá SA og Jón Steindór Valdimarsson hjá SI - talsmenn ofvaxins verktakabransa og steinsteypuaðals sem hefur blásið út undanfarin ár og neitar að draga saman seglin. Þeir eru fastir í gróðærishjólfarinu og sjá engar lausnir nema virkjanir og stóriðju. Þeir eru talsmenn yfirgangssamra og frekra þrýstihópa, lobbýistar dauðans. En aldrei fá andstæð sjónarmið að koma fram. Fólkið sem veit betur og veit sannleikann um orkuauðlindirnar; áhrifin á efnahaginn og umhverfið. Ég held að flestir Íslendingar séu nógu skynsamir til að gera sér grein fyrir því, að virkjanir og stóriðja er engin lausn - þvert á móti. Hvernig væri að hlusta á sérfræðinga í stað hinna freku, tillitslausu þrýstihópa og lobbýista gróðapunganna? Ég lýsi eftir mótvæginu í fjölmiðlaumfjölluninni.
Og fyrst ég er hér að ávarpa fjölmiðlafólk langar mig að beina athygli þess að skjalinu sem er viðfest hér að neðan. Um er að ræða sérlega vandaða athugasemd við fyrirhugaðri Bitruvirkjun sem samin er af Birni Pálssyni, fyrrverandi héraðsskjalaverði, og Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur, umhverfisefnafræðingi m.m. Þungavigtarumsögn, sagði kunningi minn. Það þarf ekki mikla sérþekkingu á málefninu eða aðstæðum til að renna í gegnum skjalið, sem er langt en mjög auðlesið og auðskiljanlegt öllum. Þar sem ég hef m.a. verið að fjalla um eiturmengun af völdum brennisteinsvetnis á íbúa suðvesturhornsins, en þó einkum Hvergerðinga í sambandi við Bitruvirkjun, ætla ég að klippa út brot af athugasemdinni (af bls. 9) og niðurstöðuna (bls. 11). Ég minni í leiðinni á að það sem þarna kemur fram á við allar jarðhitavirkjanir, ekki bara Bitruvirkjun, þótt hún sé miklu nær þéttbýli en aðrar virkjanir.
Hvergerðingar tilraunadýr - bls. 9
Niðurstaða - bls. 11
Að lokum langar mig að minna á þessar fréttir frá í desember sl. um mengun af völdum brennisteinsvetnis. Þetta skiptir alla íbúa suðvesturhorns landsins gríðarlega miklu máli - og það vill svo til að um er að ræða 2/3 af íbúum Íslands. Viljum við láta eitra fyrir okkur, börnunum okkar og barnabörnunum?
Fréttir RÚV 10. og 11. desember 2008
Bloggar | Breytt 6.10.2009 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)