30.10.2009
Að kyssa vöndinn sem sárast bítur
Hin svokallaða skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið lét framkvæma fyrir sig vakti nokkra athygli þegar niðurstöður voru birtar í téðu blaði í gær. Hún var eiginlega svolítið hlægileg og ég lagði út af henni í föstudagspistlinum. Hljóðskrá viðfest neðst.
Ágætu hlustendur...
Ef ástandið í íslensku þjóðfélagi væri ekki svona alvarlegt væri mér líklega skemmt. Mér fyndist samtakamáttur rógsherferðar sjálfstæðismanna sennilega bara meinfyndið sprikl þar sem þeir reyna, hver um annan þveran, að endurskrifa söguna og hvítþvo sig, flokkinn sinn og Hinn Mikla Ástsæla Leiðtoga. Enda komu sumir skríðandi úr fylgsnum sínum með pennann á lofti um leið og Leiðtoginn settist í ritstjórastólinn og enn aðrir brýndu deigu járnin og gáfu í. Og hjarðeðlið er slíkt að hörðustu áhangendur bergmála gagnrýnislaust bullið sem borið er á borð af þessum heiftúðugu harðlínumönnum.
Samt er ekki liðið nema ár frá hruni og enn koma sukk- og spillingarmál fortíðar upp á hverjum degi og hreingerningarliðið hefur ekki við að moka flórinn eftir þessa sömu menn og flokka þeirra. Er fólk nokkuð búið að gleyma þessu?
Nýjasta útspilið var að fá svokallaða skoðanakönnun um hverjum landsmenn treysta best til að leiða sig út úr kreppunni. Möguleikarnir voru eðlilega formenn stjórnmálaflokkanna - en bara fjögurra stærstu. Einnig mátti velja framkvæmdastjóra samtaka verktaka, álvera, steypu- og kvótaelítu og formann alþýðukúgunarsambands Íslands, sem af tvennu illu vill frekar hækka álögur á almenning en innheimta auðlindagjald af erlendum auðhringum og kvótakóngum.
Rúsínan í pylsuendanum var ritstjórinn. Neinei, ekki Reynir Traustason eða einhver minni spámaður! Það var að sjálfsögðu Hinn Mikli Ástæli Leiðtogi, nýráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, sem hélt flokknum sínum og þjóðinni allri í járnkrumlu einvaldsins um langt árabil. Og svo skemmtilega vildi til að könnunin var pöntuð af blaði í eigu félaga hans, hins nýráðna ritstjórans. Þessi uppákoma smellpassar inn í valdastríðið sem geisar á miðlum hinnar valdaþyrstu harðlínuklíku.
Þessi skoðanakönnun ber augljós merki þess að niðurstaðan hafi verið fyrirfram ákveðin. Af hverju ætti annars aðeins einn af mörgum ritstjórum að hafa verið þar á blaði? Var þetta kannski bara auglýsing fyrir Morgunblaðið? Mín niðurstaða er sú, að stríðsmenn Flokksins hafi staðið að könnuninni í samráði við þrútið egó Hins Mikla Ástsæla Leiðtoga, ritstjórans í Hádegismóum. Þetta er því fullkomlega ómarktæk könnun en ég óttast engu að síður, að taktíkin þeirra virki á þann hluta landsmanna sem þekkir ekki gagnrýna hugsun og passar svo undurvel við eftirfarandi lýsingu Halldórs Laxness úr smásögunni Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933:
"Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Góðir landsmenn - varist úlfa í sauðargærum og valdagráðuga kúgara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.10.2009
Ráðleysið í kjölfar hrunsins
"Mörg lönd hefðu upplifað djúpa fjármálakreppu, bæði fyrr og síðar, Ísland skæri sig ekki endilega úr þótt fallið hefði verið dramatískt. Líka traustvekjandi að hugsanleg svik væru í rannsókn. En það sem hefur mest áhrif á afstöðu alþjóðlega fjármálageirans er hvað íslensk yfirvöld virtust lengi vel ráðlaus. Icesave er eitt dæmið og viðbrögðin reyndar skopleg á köflum. Við, sem fylgdumst með Íslandi, veltum því fyrir okkur á hverjum morgni hvaða merkilega uppákoma yrði í dag, sagði þessi bankamaður sem nefndi, að reiptog ríkisstjórnarinnar og þáverandi seðlabankastjóra hefði komið útlendingum spánskt fyrir sjónir. Í stuttu máli: Sjálft hrunið fór ekki verst með orðspor Íslands erlendis - heldur ráðleysið sem fylgdi í kjölfarið."
Sigrún Davíðsdóttir var með enn einn upplýsandi pistil í Speglinum í gærkvöldi. Ég hugsaði með mér þegar ég hlustaði - og kom sjálfri mér á óvart með því að skilja (held ég) allt sem hún sagði - að fyrir rúmu ári hefði ég ekkert botnað í þessu. Spurning hvenær maður fær diplómaskjal í hagfræði.
Hljóðskrá í viðhengi hér fyrir neðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)