5.10.2009
Áríðandi skilaboð!
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem litið hefur hingað inn síðastliðna viku að Bitruvirkjun er aftur á dagskrá. Ég hef fengið upplýsingar um að senda megi athugasemdir í tölvupósti til kl. 16 í dag þar sem 3. október bar upp á laugardag. Enda er þeim í Ölfusi ekki stætt á að hafna athugasemdum í tölvupósti þegar allir aðrir taka slíkt sem sjálfsagðan nútíma samskiptamáta. Það er nú einu sinni 21. öldin - ekki sú 19.
Því skora ég á alla sem ekki vilja láta eitra andrúmsloftið fyrir sér og sínum; sem vilja eiga náttúruperluna Ölkelduháls og nágrenni ósnortna; sem ekki vilja láta hljóð-, sjón- og loftmengun eyðileggja upplifun sína af einu fegursta landsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins; sem vilja mótmæla rányrkju og misnotkun á orkuauðlindum Íslendinga - til að senda athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss NÚNA. Viðfest hér að neðan eru nokkur tilbúin bréf sem öllum stendur til boða að nota. Veljið eitt - vistið það - opnið (breytið ef þið viljið) - skrifið nafn, kennitölu og heimilisfang - vistið aftur. Sendið síðan sem viðhengi á netfangið: sigurdur@olfus.is - og jafnframt afrit (cc.) á olfus@olfus.is og til öryggis á skipulag@skipulag.is. Ég bið starfsfólk Skipulagsstofnunar forláts - en allur er varinn góður.
Ekki ætla ég að endurtaka eina ferðina enn það sem komið hefur fram í fyrri pistlum. En eitt vil ég benda á sem hvergi hefur komið fram - hvorki hjá mér né annars staðar mér vitanlega. Það er samanburður á fjarlægðum. Ég hef minnst á eiturgufurnar frá jarðhitavirkjunum og hve nálægt Hveragerði fyrirhuguð Bitruvirkjun er. Rétt rúmlega 4 km frá suðaustustu borholunni að byggð í Hveragerði. Ég veit ekki hvort lesendur hafa upplifað að standa hjá borholu í blæstri - það er sérstök upplifun. Annars vegar upplifir maður orkuna - kraftinn sem dælt er upp úr jörðinni. Hins vegar hávaðann - ógurlegan, yfirgnæfandi, ærandi hávaðann sem orkudælingunni fylgir. Þessum krafti fylgir óumdeilanlega gríðarleg eiturefnamengun sem spúð er yfir allt nágrennið og svífur með vindinum víða. Ég hef fjallað ítarlega um hana í fyrri pistlum.
En hvað eru rúmir 4 km mikil fjarlægð? Hvað segðu íbúar Þorlákshafnar um að fá yfir sig hávaðann og eitrið sjálfir? Gera þeir sér grein fyrir hvað þeir ætla að bjóða Hvergerðingum upp á? Hér eru afstöðumyndir af Bitruvirkjunarsvæðinu - annars vegar frá Hveragerði og hins vegar frá Þorlákshöfn. Greinilega sést hér hve nálægt Hveragerði virkjanasvæðið er og Þorlákshöfn í samanburði. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bitruvirkun - fjarlægð frá Hveragerði vs. Þorlákshöfn
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gera sér litla grein fyrir fjarlægðum í kílómetrum innan borgarmarkanna, flestir hverjir. Ég tók á það ráð til að gefa kost á samanburði að setja fjarlægðina í samhengi við hluta af höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða tæplega 4,2 km. Og ég spyr: Viljum við hafa eiturspúandi gufuaflsvirkjun svona stutt frá heimilum okkar, skólum barnanna, vinnustöðum okkar og daglegu lífi? Ekki ég! En svona nálægt Hveragerði er fyrirhuguð Bitruvirkjun. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Reykjavík NV - 4,2 km
Kópavogur-Garðabær- 4,2 km
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)