9.10.2009
Getur einhver útskýrt þetta?
Nú skil ég hvorki upp né niður og bið lesendur um aðstoð. Eins og alþjóð veit eru tveir framsóknarmenn í Noregi að kynna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Kannski að fiska eftir láni. Stóru láni. Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi að þeir hafi hitt fulltrúa allra flokka á norska stórþinginu. Þeir eru sem sagt í Noregi sem stjórnmála- og alþingismenn, ekki einkaaðilar. Lítum á fréttina.
Ég er með ómanngleggri manneskjum og á yfirleitt erfitt með að púsla saman nöfnum og andlitum. Þetta er genetískur galli. Ekki að ég hafi þekkt þessa náunga, það gerði ég ekki. En mér barst tölvupóstur frá lesanda sem benti á þetta og ég kannaði málið. Ég sé ekki betur en að ábendingin sé réttmæt.
Í júní 2007, á hápunkti gróðærisins, var stofnaður vogunarsjóður (hedge fund) sem heitir Boreas Capital. Eins og sjá má ef smellt er á linkinn er þetta platsíða. Ekkert á bak við hana frekar en síðu þessa fyrirtækis, sem ku hafa velt milljörðum en er nú gjaldþrota. Maður fær því upplýsingar á erlendum síðum og innlendum, því hér er nýleg frétt um að fjárfestingar sjóðsins hafi skilað 70% ávöxtun í miðju hruni. Hér er enn nýrri frétt um gagnrýni sjóðsstjóra vegna olíumála Íslendinga - ímyndaðra eða raunverulegra. Strákarnir hafa líklega ætlað að græða á olíuauðlindinni. Lái mér hver sem vill, en ég er tortryggin gagnvart svona fréttum eftir það sem á undan er gengið.
Boreas Capital vogunarsjóðurinn mun tengjast Landsbankanum og/eða Landsvaka í gegnum einhvers konar umboðsmennsku. Ég kann þó ekki að greina frá þeim tengslum frekar og læt mér fróðari um það. En vert er að kynna sér skilgreiningu á hvað vogunarsjóðir eru og hætturnar af þeim hér.
Stjórnarformaður Boreas Capital er Frank Pitt og einn af stjórnarmönnum, eigendum og stofnendum vogunarsjóðsins er Ragnar Þórisson. Báðir hafa þeir ýmis tengsl við banka og einstaklinga, m.a. segir hér að þeir séu vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, eins aðaleiganda gamla Landsbankans.
Og þá er það stóra spurningin: Hvað voru tveir forsvarsmenn þessa vogunarsjóðs að gera með framsóknarmönnunum Sigmundi Davíð og Höskuldi í Osló í gær? Ef til vill er til eðlileg skýring á því og þá væri auðvitað mjög fróðlegt að heyra hana. Einhver?
Frank Pitt lengst til vinstri og tvær smámyndir - Ragnar Þórisson næstur og ein smámynd.
*******************************************
Ábending frá lesanda: Boreas Capital er skráð til húsa að Hellusundi 6 í Reykjavík. Þar er einnig til húsa fjárfestingarfélagið Teton, en stjórnarformaður þess er Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (86)
9.10.2009
Ég fann mikið til...
...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.
Veit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?
Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.
Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.
Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?
Kastljós 8. október 2009
Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)