Dönum kennt - Dönum bent

Ég rakst á þetta í grúski - og það er frá 10. mars 2006! Þá þegar voru farnar að koma fram efasemdir um íslenskt efnahagslíf. Íslensku auðjöfrunum fannst rétt að upplýsa Dani um sannleikann - þ.e. þeirra sannleika sem við vitum nú að var byggður á sandi. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Útrásin skýrð fyrir Dönum - Fréttablaðið 10. mars 2006

Í sama blaði sá ég þessa frétt um hugmyndir starfshóps um hugsanleg áföll í íslensku fjármálalífi. Þar var talið æskilegt að FME hefði vald til að víkja frá stjórnum, bankastjórum eða framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Þær hugmyndir urðu ekki að veruleika fyrr en um seinan - og reyndar ekki búið að skipta út nógu rækilega ennþá. Guðjón Rúnarsson var nefndur til sögunnar hér - og hann stýrir ennþá sömu samtökum, sem nú heita Samtök fjármálafyrirtækja. Smellið til að stækka.

Tillögur starfshóps um fjármálafyrirtæki - Fréttablaðið 10. mars 2006


Borgarabréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

IMF - International Monetary Fund - AlþjóðagjaldeyrissjóðurinnHópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, og fór fram á fund með honum til að fá skýr svör við ýmsum spurningum sem brenna á almenningi á Íslandi. Hópnum finnst ekki nóg að lágt settir starfsmenn sjóðsins, s.s. svokallaður "landstjóri" AGS á Íslandi, svari eða svari ekki eftir atvikum þeim spurningum sem upp koma hverju sinni og að sjóðurinn hafi sína hentisemi með framtíð þjóðarinnar og komandi kynslóða.

Hér er íslensk útgáfa bréfsins, en ensk útgáfa var send Strauss-Kahn bæði í tölvupósti og með UPS/DHL hraðsendingu fyrr í dag.

*************************************************

Reykjavík, 2. nóvember 2009

Hr. Dominique Strauss Kahn
framkvæmdastjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Washington, D.C., 20431
U.S.A.

Ágæti Strauss Kahn,

Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar orsakast að hluta til vegna alheimskreppunnar. Ástæðan fyrir stærð vandamálsins á Íslandi er sú að íslenskir bankar, sem voru einkavæddir m.a. í samræmi við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snemma á þessari öld, tefldu allt of djarft. Mjög ámælisvert er að þessi þróun hafi átt sér stað án þess að íslensk stjórnvöld hafi gripið í taumana. Í kjölfar bankahrunsins leituðu íslensk stjórnvöld til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð í október 2008.

Við, undirrituð, teljum vafa undirorpið að sú samvinna sem Ísland hefur tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé íslenskri þjóð til hagsbóta og viljum fá úr því skorið. Það er að renna upp fyrir okkur að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda. Ábyrgð Íslendinga er mikil og það er okkar að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði skuldsettar með þeim hætti að þær Dominique Strauss-Kahngeti ekki staðið í skilum. Sem almennir borgarar á Íslandi förum við fram á skýr svör.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er andvígur frekara samstarfi við AGS. Þarna vegur þyngst sú staðreynd að AGS stillti íslenskum stjórnvöldum upp við vegg í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Það er óásættanlegt að alþjóðastofnun hagi sér á slíkan hátt, enda hefur þetta rúið sjóðinn því trausti sem hann hafði á Íslandi.

Þar sem hagsmunir heillar þjóðar og afkomenda okkar eru í húfi, förum við hér með fram á fund með þér, framkvæmdastjóra sjóðsins. Við viljum ræða við þig efnahagsáætlun AGS og fá skýringar á einstökum þáttum hennar. Við munum leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn getur farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt er að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember 2009.

Við, sem undir þetta bréf ritum, erum almennir borgarar á Íslandi. Við erum á öllum aldri, af báðum kynjum og styðjum mismunandi stjórnmálaflokka. Eftir efnahagshrunið sem varð sl. haust stóðum við fyrir opnum borgarafundum þar sem ráðherrar og þingmenn hafa mætt og svarað spurningum almennings milliliðalaust. Við teljum það heiður fyrir þig, framkvæmdastjóra AGS, að feta í fótspor fulltrúa elsta þjóðþings veraldar, Alþingis, og eiga með okkur opinn og heiðarlegan fund.

Agnar Kr. Þorsteinsson sérfræðingur í tölvuþjónustu atvinnulaus
Ásta Hafberg, verkefnastjóri Markaðsstofu Austurlands
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
Guðmundur Andri Skúlason, vélstjóri
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri
Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur
Heiða B. Heiðarsdóttir
Helga Þórðardóttir, kennari
Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndargerðarmaður
Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður
Ólafur Arnarson, rithöfundur og Pressupenni

**********************************************************

Hér er enska útgáfan af bréfinu.

Bréf til Strauss-Kahn


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 2. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband