Lágkúrufjölmiðlun

Um daginn var mikið talað um lágkúrufjölmiðlunina sem hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár. Slík tegund fjölmiðlunar birtist einkum í raunveruleikaþáttum og fíflagangi í sjónvarpi, gaspri og flissi í útvarpi og skrifum í ýmsa miðla um ófarðaðar stjörnur að kaupa í matinn, fitukeppi, appelsínuhúð eða lafandi brjóst svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar sem fylgja þessum ósköpum.

Ímyndasmiðir nútímans koma úr ýmsum áttum og keppast við að stýra neyslu fólks og útliti og búa til gerviþarfir til að selja óþarfa. Oft er höfðað til lægstu hvata mannskepnunnar og allt er leyfilegt. Gjarnan er þeim mest hampað sem eru kjaftforastir, hneyksla mest og ganga lengst og þau gerð að ímyndum "fallega fólksins", "sannra karlmanna", "kynþokka" og þar fram eftir götunum. Þegar þetta fólk opnar munninn kemur ekki óbrenglað orð út úr því og ekki vottar fyrir heilbrigðu lífsviðhorfi, skynsemi eða sæmilega virkri heilastarfsemi. Um eitt þessara fyrirbæra kvenkyns var sagt nýverið: "Verðugur fulltrúi klámkynslóðarinnar, sem hlutgerir kvenlíkamann og lætur ungum stúlkum líða eins og þær þurfi að afklæðast til að hljóta viðurkenningu." Séðogheyrtþáttur Stöðvar 2 hefur verið iðinn við að kynna þessa tilteknu konu ásamt fleira svona fólki og hampa því sem fyrirmyndum... ja, hverra? Unglinganna? Maður spyr sig...

Þeir sem standa fyrir svona fjölmiðlun afsaka sig með því að þetta vilji fólk horfa og hlusta á eða lesa um. Þó var ritstjóri Vísis ansi vandræðalegur í viðtali um málið við Kastljós um daginn og í mikilli vörn. Ef það er satt sem þau segja - hvað er það í mannlegri náttúru sem gerir það að verkum að fólk nýtur þess að sjá náungann niðurlægðan? Getur einhver sagt mér það?

Kastljós 26. október 2009

 

Ég fjallaði um þessa lágkúrufjölmiðlun í Morgunvaktarpistlinum fyrir viku, föstudaginn þrettánda. Hljóðskrá viðfest neðst í færslunni.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Hvað er það í eðli mannskepnunnar sem veldur því að hún gleðst yfir óförum annarra? Það hlakkar í fólki þegar einhver er niðurlægður og margir borga jafnvel háar upphæðir fyrir að horfa á sjónvarpsefni þar sem fólk er ýmist rifið niður eða troðið í svaðið.

Fjölmiðlar hafa verið einn mesti áhrifavaldur undanfarinna áratuga og eru enn. Áhrifum fylgir ábyrgð og hún er afar vandmeðfarin. Þess vegna vakti mikla furðu í þjóðfélaginu þegar Stöð 2 tók upp á því, aðeins þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, að gera fréttamagasínþáttinn Ísland í dag að ábyrgðalausu þunnildi. Einmitt þegar þjóðin þurfti sem mest á beittri og gagnrýninni fjölmiðlun að halda.

Raunveruleikaþættir, sem margir ganga út á að niðurlægja fólk á einhvern hátt, hafa tröllriðið sjónvarpsdagskrám. Á fjölmiðlunum situr fólk á fullum launum við að gera grín að appelsínuhúð, lafandi brjóstum eða fitukeppum á þekktum einstaklingum. Svo ekki sé minnst á of litla eða of stóra rassa eða óeðlilegan hárvöxt á viðkvæmum stöðum. Sérstaklega er svo tekið fram ef myndir af ósköpunum fylgja.

Sumir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að reka sitt reyndasta og oft besta fólk í nafni niðurskurðar, en ráða í staðinn óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem væntanlega er auðveldara að stjórna. Í september sagði einn fjölmiðillinn meira að segja upp blaðamönnum á sjötugsaldri sem áttu eftir örfá ár í eftirlaun og höfðu alið mestallan sinn starfsaldur hjá blaðinu. Siðleysið var algjört.

Ég hef spurt marga hvað óábyrgum stjórnendum þessara fjölmiðla gangi til. Hvers vegna hið vitræna sé skorið niður á meðan hlaðið er undir lágkúru og fíflagang. Margir botna ekkert í þessu frekar en ég og enn aðrir segja: "Þetta er það sem fólk vill." En það er ég alls ekki sannfærð um. Hefur fólk eitthvað val?

Ég held stundum að með því að halda þessari tegund fjölmiðlunar að almenningi séu óprúttnir aðilar meðvitað að búa til einhvers konar heilalaust lágkúrusamfélag með það fyrir augum að ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk hugsi sé auðveldara að stjórna því. Segja því hvað það vill og hvað ekki, hvað má og hvað ekki - og hverjir mega hvað og hverjir ekki. Láta fólk svífa gagnrýnis- og hugsunarlaust í gegnum lífið, til þess eins að vera örsmátt tannhjól í æðra ætlunarverki valdhafanna.

Unga fólkið er sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri fjölmiðlun. Við hverju er að búast af fullorðnum einstaklingi sem alinn er upp við endalaust gláp á raunveruleikaþætti í sjónvarpi og útlitsfjölmiðlun, sem rífur látlaust niður sjálfstraust fólks og veikir sjálfsmynd þess? Valdhafa sem hegna fólki fyrir að hugsa og gagnrýna í stað þess að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti og rökhugsun.

En mannskepnan hlær að niðurlægingu náungans og í höfði hennar bærist engin hugsun.

*********************************************

Jóhann Hauksson skrifaði frábæra bloggfærslu á svipuðum nótum um daginn sem hann svo breytti og bætti og birti í DV. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Höfum það krassandi og afgerandi - Jóhann Hauksson - DV 28. október 2009


Bloggfærslur 20. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband