21.11.2009
Stóra Landspítalamálið
Það er svo margt sem ég botna ekkert í. Eitt af því er bygging svokallaðs "hátæknisjúkrahúss" (sem er reyndar fáránleg nafngift), staðsetning þess og fyrirhugaður rekstur. Ævinlega er hamrað á því, að heilbrigðiskerfið sé allt of dýrt. Mismikill niðurskurður eða sparnaður er árviss viðburður, deildum er lokað á sumrin og undanfarin 10 til 15 ár hefur æ meiri kostnaður færst yfir á sjúklingana sjálfa - alveg burtséð frá fjárhag þeirra eða greiðslugetu. Ég hef alltaf litið á það sem fyrstu skrefin í að láta draum Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins rætast.
Okkur er gjarnan sagt að þjóðfélagið hafi ekki efni á að reka heilbrigðiskerfið svo vel sé. Við eigum mikinn fjölda af mjög hæfu heilbrigðisstarfsfólki. Það verðskuldar eflaust betri starfsskilyrði og sjúklingar betri aðbúnað - en er málið nýtt "hátæknisjúkrahús" á stað sem margir vilja meina að sé kolómögulegur? Af hverju þykir svona brýnt að ráðast í bygginguna á þessum síðustu krepputímum þegar verið er að segja upp fólki, til dæmis í heilbrigðiskerfinu? Þess á milli er manneklan slík að ekki er hægt að reka spítalana. Er talið að atvinnulaust heilbrigðisstarfsfólk fari í byggingarvinnuna, eða hvað? Fyrir hverja er verið að skapa störfin og af hverju eiga lífeyrissjóðir landsmanna að verja lífeyrissparnaði fólks í meinta óarðbæra byggingu? Ég næ þessu ekki alveg.
Mér skilst að samkvæmt lögum þurfi að bjóða svona stórframkvæmdir út á EES-svæðinu. Erlendir verktakar gætu fengið verkið og miðað við reynsluna af Kárahnjúkum og viðsnúninginn þar má alveg eins gera ráð fyrir að vinnuaflið verði innflutt. Í hverra þágu er þessi framkvæmd og hvað veldur staðarvalinu? Fyrst varla er hægt að reka heilbrigðiskerfið nú þegar - til hvers að reisa nýtt sjúkrahús fyrir tugmilljarða í stað þess að nota peningana til að rétt af hallann og reka kerfið með reisn? Þetta minnir mig svolítið á að þegar gríðarlegur skortur var á starfsfólki í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum var tekið á það ráð að byggja nýja. Það vantar eitthvað í þetta púsluspil í mínum huga. En kannski hef ég bara ekki fylgst nógu vel með.
Hér er upptaka úr Silfri Egils og tvær blaðagreinar sem varpa einhverju ljósi á málið með staðsetningu nýja sjúkrahússins. Seinni greinin er í andstöðu við málflutning Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Silfrinu og leiðara Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu. Hún er skrifuð af tveimur embættismönnum Landspítalans sem horfa greinilega á málið með öðrum gleraugum, en það er fróðlegt að skoða þetta í samhengi.
Guðrún Bryndís Karlsdóttir í Silfri Egils 8. nóvember 2009

Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)