Rússagull, peningaþvætti og hrunið

PeningaþvættiÉg á heima næstum beint undir aðflugslínu norður-suðurbrautar Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn á að heita lokaður frá kl. 23:30 og frávik á aðeins að leyfa í undantekningartilfellum - sjúkraflugi og slíku. Veruleikinn var hins vegar sá, að á gróðærisárunum var mjög algengt að einkaþotur lentu klukkan 1, 2 eða 3 eftir miðnætti og hávaðinn var ærandi. Ég sakna þeirra nákvæmlega ekki neitt, en man að ég hugsaði oft með mér að tollverðir hlytu að fá gríðarlega mörg næturútköll. Eða hvað? Voru einkaþoturnar alltaf tollskoðaðar? Maður spyr sig...

Í síðasta pistli sagði ég frá hugrenningatengslum sem mynduðust þegar ég sá frétt á BBC World þar sem bandarískur fjárfestir sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Rússa. Margt var ósagt látið og verður svo enn um sinn, en ýmislegt vil ég þó benda á sem hreinlega komst ekki fyrir í pistlinum. Höldum hugrenningatengslunum áfram og fjöllum um peningaþvætti.

Þann 16. febrúar sl. birti Egill Helgason eitt af mörgum bréfum sem hann hefur birt frá Gunnari Tómassyni, hagfræðingi, sem búsettur er í Bandaríkjunum og hefur látið mikið frá sér heyra opinberlega, bæði fyrir og eftir hrun. Í þessu mjög svo athyglisverða bréfi fjallar Gunnar um mögulegan þátt peningaþvættis í bóluhagkerfinu á Íslandi í gróðærinu og spyr afar áleitinna spurninga sem enn hefur ekki verið svarað. Ég hvet fólk eindregið til að lesa bréf Gunnars.

Ég fylgist með öðru auganu með enska boltanum og hlustaði af athygli á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur um fótbolta og peningaþvætti í byrjun júlí í sumar. Pistillinn vakti auðvitað viss hugrenningatengsl í ljósi þess hvaða Íslendingar eiga enskt fótboltalið og hvaða þjóðhöfðingjar hafa farið á leiki í boði rússneskra auðjöfra.

Í september skrifaði Jenný Stefanía Jensdóttir, viðskiptafræðingur, búsett í Kanada, fimm mjög fróðlega pistla um peningaþvætti. Jenný leitaði víða heimilda og vísar í greinar og viðtöl. Ég mæli með lestri á öllum pistlum Jennýjar sem fjalla um peningaþvætti frá ýmsum hliðum. Þeir bera allir yfirskriftina Var peningaþvætti stundað á Íslandi? og eru hver öðrum fróðlegri, ekki síst niðurstaða Jennýjar: 1. kafli, 2. kafli, 3. kafli, 4. kafli, 5. kafli. Í 5. og síðasta kaflanum fjallar Jenný m.a. um viðtalið við Boris Berezovsky, sem ég birti í síðasta pistli ef einhver vill rifja það upp eftir lestur á pistlum Jennýjar. Mjög athyglisvert, svo ekki sé meira sagt.

Í lok september og byrjun október skrifaði Halldór Halldórsson, blaðamaður, mjög ítarlegar og upplýsandi greinar í DV um uppgang Björgólfsfeðga og samstarfsmanns þeirra og umsvifin í Rússlandi. Sem áttu að hafa endað með risasölu á brugghúsi og gríðarlegum fjármunum sem þeir áttu að hafa notað meðal annars til að kaupa sér banka hér á Íslandi. En í ljós kom að þeir fengu hluta fjárins að láni í öðrum íslenskum banka og hafa ekki greitt það enn. Hvorki var hlustað á viðvaranir þeirra sem þekktu til né litið á forsögu Björgólfs eldri, enda feðgarnir sérstakir gæludrengir þáverandi forsætisráðherra, síðar seðlabankastjóra og nú ritstjóra. Hann minnist enda ekki á þá eða umsvif þeirra þá og nú í blaði sínu þessa dagana en einbeitir sér að öðrum landráðamönnum í svipuðum styrkleikaflokki. Fyrsta greinin er eftir blaðamann DV, en mér virðist hún vera byggð á gögnum Halldórs miðað við það sem á eftir kemur. Það á við um allar greinarnar - að smella þar til læsileg stærð fæst.

DV 23. september 2009

Ingimar varaði við Björgólfsfeðgum - DV 23. september 2009

Þá eru það greinar Halldórs Halldórssonar. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að ýmislegt sé enn ósagt. Það vantar stykki í púsluspilið. Kannski eiga fleiri greinar eftir að birtast. Mig grunar það.

Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Björgólfsfeðgar, bjórinn og mafían - Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Björgólfsfeðgar, hótanir og bankakaup - Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Eftir allan þennan lestur - og það verður að lesa þetta allt, ekki síst pistla Jennýjar - situr eftir spurningin: Hve stór hluti af hruni efnahagskerfisins á Íslandi var afleiðing peningaþvættis? Ekki hvort.


Bloggfærslur 25. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband