Bankar, afskriftir og ill meðferð á fólki

Ég hlustaði á viðtal í Bítinu á Bylgjunni á miðvikudagsmorguninn. Þar lýstu hjón því hvernig bankinn þeirra, Kaupþing, hafði komið fram gagnvart þeim og farið illa með þau - svo ekki sé meira sagt. Ég held að það sé sama fólkið og viðtal er við í helgarblaði DV, en vegna galla í skjalinu á vefþjóni DV kemst ég ekki inn á tölvuútgáfu blaðsins til að sannreyna það. Vonandi verður það lagað.

Pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gærmorgun fjallaði um óréttlætið sem viðgengst í þjóðfélaginu í boði bankanna og hvernig þeir virðast vera ríki í ríkinu - bæði þeir gömlu og nýju. Þótt við séum ekki að biðja um pólitíska stýringu á bönkunum eins og tíðkaðist hér áður fyrr ætti yfirvöldum að vera í lófa lagið að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra! Hljóðskrá viðfest neðst auk upptöku af áðurnefndu viðtali á Bylgjunni og Spegilsumfjölluninni sem vísað er í í pistlinum.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Réttlæti hefur verið mér mjög hugleikið og réttlætiskennd minni er gróflega misboðið nær daglega. Það virðist ætla að vera ansi djúpt á réttlætinu í íslensku samfélagi. Skuldsettur almenningur sem berst í bökkum þarf að horfa upp á bankana afskrifa tugmilljarða af skuldum helstu gerenda hrunsins. Í bönkunum sitja svo skuldlausir kúlulánþegar, deila og drottna og hóta starfsfólki sínu atvinnumissi ef það lendir í fjárhagserfiðleikum í efnahagshruni sem kúlulánþegarnir áttu sjálfir þátt í að skapa. Miskunn og mennska virðist ekki vera til þegar fégræðgi er annars vegar. Þetta er ekki réttlæti.

Ég hlustaði á viðtal í Bítinu á Bylgjunni á miðvikudagsmorgun. Þar var talað við hjón sem sögðu farir sínar ekki sléttar í viðskiptum sínum við nýja Kaupþing og skilanefnd gamla Kaupþings. Saga hjónanna virðist vera dæmigerð fyrir meðferðina sem hinn almenni borgari fær í bankakerfinu. Húsnæðislánin snarhækka, líka þau verðtryggðu í íslenskum krónum, fólk ræður ekki lengur við afborganir, selur ofan af sér en stendur þó uppi með milljóna- eða jafnvel tugmilljónaskuldir, húsnæðislaust og jafnvel atvinnulaust. Á meðan fá stórleikarar hrunsins að halda öllu sínu og bankarnir keppast við að afskrifa milljarðaskuldir þeirra. Þetta á ekkert skylt við réttlæti.

Almenningur maldaði í móinn í fyrravetur og sýndi mátt og megin fjöldasamstöðu. Ýmislegt gerðist, við fengum kosningar og nýja stjórn sem reynir að moka flórinn en sér ekki til botns. En yfirvöld virðast annaðhvort ekki fylgjast með því hvernig bankarnir fara með fólk eða ekki hafa völd til að gera neitt í því. Það er furðulegt og fullkomlega óviðunandi, enda eiga bankarnir að heita í ríkiseigu og ætla mætti að ráðherrar geti haft áhrif á það, sem fram fer þar innanhúss - og krafist réttlætis.

Langlundargeð og skortur á viðbrögðum Íslendinga eftir hrunið mikla hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Einn af innistæðueigendum Icesave í Hollandi var hér á landi fyrr í vikunni. Hann var í Silfri Egils á sunnudaginn og Spegilsmenn hjá RÚV spjölluðu líka við hann á mánudaginn. Mér var brugðið þegar ég hlustaði á endursögn Spegilsins á orðum Hollendingsins, meðal annars þetta: "Og hann undrar sig líka á því hve rólegir Íslendingar séu í tíðinni að taka á helstu gerendum hrunsins, sem kannski sé ekki stærri hópur en 30 manns. Víðast hvar annars staðar í heiminum hefðu einhverjir tekið sér fyrir hendur að koma þeim fyrir kattarnef væru þeir ekki komnir á bak við lás og slá. Hann tók fram að þetta væri ekki sín óskhyggja, heldur kalt mat. Hér byggju Íslendingar líklega að jákvæðum skorti, þ.e. á stríðshefð."

Já, við erum svo sannarlega öðruvísi, Íslendingar, og fyrr má nú vera jákvæði skorturinn. Í stað þess að refsa gerendum hrunsins og meðreiðarsveinum þeirra skipum við þá í bankastjóra- og skilanefndastöður, gerum þá að ritstjórum, alþingismönnum og aðstoðarmönnum ráðherra, afskrifum skuldirnar þeirra og bjóðum þeim að gjöra svo vel að halda áfram að arðræna okkur.

Er ekki kominn tími á hugarfarsbyltingu svo réttlætið nái fram að ganga?

************************************************
Þessu tengt:  Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland halda útikröfufund á Austurvelli í dag klukkan 15. Helstu kröfur eru:
 
1. Leiðrétting höfuðstóls lána.
2. Afnám verðtryggingar.
3. Að veð takmarkist við veðandlag.
4. Að skuldir fyrnist á 5 árum.
 
Ræðumenn eru Ólafur Garðarsson, varaformaður HH, Björn Þorri Viktorsson, lögmaður og Lúðvík Lúðvíksson frá Nýju Íslandi. Drífa sig! Sameinuð sigrum við.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 28. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband