8.11.2009
Auðmenn, tjáningarfrelsi og réttlæti
"Íslenskir útrásarvíkingar hafa umsvif í Bretlandi, þar sem meiðyrðalöggjöf er miklu strangari en á Íslandi og útgjöld vegna meiðyrðamála eru nánast óbærileg venjulegum launþegum. Til þess að höfða mál gegn íslenskum ríkisborgurum þarf aðeins að koma því í kring, að ummæli, sem stefna á fyrir, birtist einhvers staðar á ensku, til dæmis á netinu. Íslenskur auðmaður með hagsmuni í Bretlandi þarf því aðeins að sjá um slíka birtingu og höfða síðan mál í Bretlandi, og þá er þess ekki langt að bíða, að sá, sem hann stefnir, verði gjaldþrota, hvort sem hann tekur til varna eða ekki og hvort sem hann vinnur málið eða tapar því."
Þannig hefst annar hluti fréttaskýringar Eyjunnar um Auðmenn, málfrelsi og lögsögu meiðyrðamála sem birt var í gær. Fyrsti - eða fyrri hlutinn, Eiga auðmenn að geta þaggað niður gagnrýni? birtist á fimmtudaginn.
Málið sem fjallað er um í þessum fréttaskýringum er grafalvarlegt og gæti haft háskalegar afleiðingar ef ekki verður brugðist við af löggjafanum á Íslandi. Ég fjallaði um þetta í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 og hvet alla til að lesa líka Eyjupistlana tvo sem vísað er í hér að ofan. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.
Ágætu hlustendur...
Mér hefur orðið tíðrætt um málfrelsið; tjáningarfrelsið sem hefur blómstrað undanfarið, einkum á netmiðlum og bloggi. Ég hef sagt, og stend við það, að þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg fái ekki nægilega góða heildarmynd af því sem er að gerast í samfélaginu, atburðunum sem leiddu til hrunsins og því sem gengið hefur á þetta ár sem liðið er síðan.
Einhvern tíma gilti löggjöf hér á landi sem kvað á um að ekki mætti vega að æru opinberra starfsmanna. Ekki einu sinni þótt sagt væri satt. Ef sannleikurinn var talinn skaða æru viðkomandi átti að þegja. Af hverju heiður opinberra starfsmanna var álitinn heilagri en annarra veit ég ekki, en lögunum var breytt, meðal annars vegna þrýstings frá Þorgeiri heitnum Þorgeirsyni.
Nýverið féll hæstaréttardómur í máli þar sem blaðamaður var gerður ábyrgur fyrir orðum viðmælanda síns um starfsemi afar umdeilds athafnamanns á höfuðborgarsvæðinu. Fordæmalaus dómur sem vakti furðu og óhug en hefur nú verið áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Eins og prentlögin eru nú, ræður kærandinn hverjum hann stefnir - viðmælanda, blaðamanni eða útgefanda - en því og fleiru mun eiga að breyta með nýjum fjölmiðlalögum.
En nú virðist íslenskum blaðamönnum og öðrum sem tjá sig á opinberum vettvangi stafa ógn af meiðyrðalöggjöf í Bretlandi, sem mun vera strangari en gerist og gengur víða á Vesturlöndum. Netmiðillinn Eyjan sagði í gær frá hótun íslensks auðmanns um að stefna miðlinum fyrir breska dómstóla vegna skrifa blaðamanns um sig og starfsemi sína á Íslandi. Hann sagði að Eyjupistillinn, sem auðvitað var á íslensku, yrði bara þýddur yfir á ensku og Eyjunni stefnt fyrir að skaða viðskiptahagsmuni sína í Bretlandi - hverjir sem þeir eru.
Nokkuð hefur verið fjallað um þessa kæruleið í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og viðbrögð til dæmis Bandaríkjamanna við bresku dómunum - en þeir neita að taka mark á þeim og líta á þá sem þöggun eða skerðingu tjáningarfrelsis.
Málaferli sem þessi eru rándýr og mun kostnaðurinn talinn í tugum milljóna. Hinn ákærði þarf að kosta vörn sína sjálfur og sanna mál sitt, en kærandinn virðist ekki þurfa að sanna neitt. Honum virðist nægja að dylgja um meintan skaða. Slík málaferli eru ekki á færi annarra en auðmanna, og ef ekki verður tekið fyrir þetta strax stafar tjáningarfrelsi á Íslandi - og annars staðar í heiminum - stórhætta af.
Ef ekki verður brugðist við aðförinni er hætt við að íslenskir útrásardólgar og auðmenn verði jafn ósnertanlegar og heilagar kýr eins og opinberir starfsmenn forðum og þaggi niður alla gagnrýni í krafti misvel fenginna fjármuna sinna og lagatæknilegra brellna í erlendum höfnum.
Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)