"Ég er óttaslegin. Það er ekki langt í að ég verði skelfingu lostin. Ekki aðeins vegna óvissrar framtíðar, bæði fjárhagslegrar og annars konar, heldur einnig vegna ókyrrðarinnar, undirtónsins í samfélaginu, undiröldunnar... ...Örvæntingin er skelfileg. Hvað tekur fólk til bragðs sem hefur engu að tapa lengur?"
Þetta skrifaði ég meðal annars í bréfi til allra þingmanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir aðeins 9 dögum. Mig grunaði ekki að svo stuttur tími liði þar til fólk færi að grípa til örþrifaráða. Þessi maður lagði húsið sitt í rúst til að tjá örvæntingu sína og vekja athygli á hvernig farið er með varnarlausar fjölskyldur sem lentu í klónum á siðlausum bankamönnum. Hann, og við öll reyndar, er fórnarlamb græðgi banka- og auðmanna. Hvað tekur sá næsti til bragðs? En þarnæsti... og svo koll af kolli? Ástand og aðstæður þessa manns eru ekkert einsdæmi og táknrænt að láta til skarar skríða á sjálfan þjóðhátíðardaginn þegar Íslendingar halda upp á sjálfstæði þjóðarinnar.
Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 17. júní 2009
Í tilefni þessa atviks og umræðunnar um "einkalífeyrissjóð" Sigurjóns Þ. Árnasonar gróf ég upp viðtal við hann í Mannamáli frá 10. febrúar 2008. Þá var farið að þrengja að bönkum. Millibankalán urðu illfáanleg um mitt ár 2007 og lausafjárstaða versnaði. Hálfum öðrum mánuði eftir að þetta viðtal birtist, eða 29. mars 2008, stofnaði Sigurjón Icesave í Hollandi. Græðgi hans voru engin takmörk sett. Takið enda sérstaklega eftir orðum hans um græðgi í viðtalinu.
Mannamál 10. febrúar 2008
Hér segir Einar Kárason sögur úr gróðærinu og hvernig bankarnir fóru með spariféð sem þeir ryksuguðu til sín bæði hér heima og erlendis.
Mannamál 9. nóvember 2008
Og hér segir Einar söguna af sölu Íslenskra aðalverktaka, hæstaréttardómnum og sinnuleysi ráðamanna sem frömdu lögbrot og ypptu bara öxlum. Hefði hæstaréttardómur verið hunsaður svona gjörsamlega annars staðar í heiminum? Maður spyr sig...
Mannamál 18. maí 2008
Margir hafa furðað sig á því í gegnum tíðina hvernig gat staðið á því að Transparency International mældi alltaf svona litla spillingu á Íslandi. Ísland var gjarnan í fyrsta sæti lista yfir MINNST spilltu ríki veraldar. En við vissum mætavel að spilling var hér meiri en víðast hvar. Við hlógum að þessu og botnuðum ekkert í þessum mælingum.
Stundum, þegar verið er að mæla eitthvað, er það svo lítið að það mælist bara alls ekki. Getur verið að spillingin á Íslandi hafi verið svo gríðarleg að mælingarskalarnir náðu ekki utan um hana? Svo geigvænleg að hún mældist bara alls ekki? Maður spyr sig...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
17.6.2009
Ég um mig frá mér til mín
Þetta gæti orðið svolítið flókið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)