21.6.2009
Útifundur og óvænt heimsókn til ráðherra
Fundurinn á Austurvelli í gær var fámennari en ég bjóst við. Og þó... Vonin dregur mann alltaf á asnaeyrunum. Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins. Jakkalakkarnir úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn létu auðvitað ekki sjá sig. Svona fundir eru fyrir neðan þeirra virðingu. En hetjurnar mættu.
Fundurinn var góður og ræðurnar stórfínar. Andrea Ólafsdóttir flutti þrumuræðu með álfahúfu á höfði og litla barnið sitt í poka á maganum. Jóhannes Þ. InDefence var seinni ræðumaðurinn og flutti glæsilega tölu sem fundargestir tóku undir hvað eftir annað. Ég birti hana hér að neðan. Og hér eru fréttir kvöldsins samanklipptar. Tölum ber að sjálfsögðu ekki saman frekar en venjulega og ég heyrði að lögreglan hefði talið 100 manns.
Eftir fundinn sat stór og skemmtilegur hópur fólks á spjalli á Thorvaldsen þegar Hörður Torfa fékk upphringingu og gekk frá til að tala í símann. Kom svo og sagðist vera á leið til fjármálaráðherra sem vildi leiðrétta eitthvað sem komið hafði fram í máli Harðar og ráðherra sagði misskilning. Ég bauðst samstundis til að fara með honum og gerðist boðflenna á fundinum. Steingrími J. og Indriða H., sem hitti okkur líka, fannst það bara í góðu lagi og við sátum og ræddum við þá í hálftíma eða svo. Ég hafði hvorugan hitt áður.
Það sem þeim lá á hjarta var að leiðrétta þær fullyrðingar að Hollendingar og Bretar hafi ekkert haft á móti því að gera Icesave-samningana opinbera. Þeir sýndu okkur tölvupósta á milli Indriða H. og embættismanna í Hollandi og Bretlandi og ég bað um ljósrit af þeim til að birta úr hér máli þeirra til sönnunar. Fyrsti pósturinn er frá Indriða og er dagsettur 11. júní. Þar segir Indriði:
Í íslenskri snörun: "Samningurinn hefur verið ræddur í nokkrum þingnefndum og þeir hafa krafist þess að fá afrit af samningunum í hendur líka. Ég held að mjög erfitt sé að verða ekki við óskum þeirra en við myndum fara fram á trúnað. Hvað segið þið um það?" Þá kemur svar frá Bretanum, einnig frá 11. júní:
"Ég býð fólki gjarnan að lesa skjalið inni á skrifstofu/ í herbergi en leyfi þeim ekki að fá afrit. Það þýðir að þeir verða að segja fólki frá innihaldinu en skjalið sjálft er ekki gert opinbert. Gæti það gengið á Íslandi?" Hollendingurinn svarar ekki fyrr en 12. júní og afsakar töfina. Hann segir:
"Ef tillaga G (Bretans) er möguleg hreyfi ég engum mótmælum. Ég hef áhyggjur af því, að ef allt verður gert opinbert hellist yfir okkur utanaðkomandi athugasemdir sem flækja umræðuna. En ef þú telur eina möguleikann vera að opinbera samningana væri ég tilbúinn til að íhuga það. En það verður að vera ljóst að við getum ekki endursamið."
Svo mörg voru þau orð. Greinilegt er á þessum orðaskiptum að Bretar og Hollendingar vildu ekki gera samningana opinbera. Ekki einu sinni þingmönnum, hvað þá þjóðinni. Hvað gerðist milli 12. og 17. júní þegar hollensku útgáfunni var lekið í fjölmiðla veit ég ekki. Ef áhugasamir koma með spurningar í athugasemdum er mögulegt að Indriði geti gefið sér tíma til að svara. Maður veit aldrei. Þeir lesa þetta væntanlega og vonandi athugasemdirnar líka. Einmitt þess vegna vil ég benda Steingrími J. sérstaklega á þessa bloggfærslu Teits Atlasonar. Þetta er málið eins og við ræddum, Steingrímur. Ekki bara mín skoðun. Koma svo!
Viðbót: Illugi skrifaði líka pistil á sömu nótum og Teitur í morgun.
Ég legg líka til að Steingrímur og Indriði lesi ræðu Jóhannesar sem ég sagði þeim frá. Hún var ansi mögnuð og mjög vel flutt. Hér er hún:
Austurvöllur, 20. Júní 2009.
Góðir Íslendingar.
Í gær birti ríkisstjórn Íslands undirritaðan samning við Breta og Hollendinga um lausn ICESAVE deilunnar.
ICESAVE málið varðar stærstu fjárskuldbindingar íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Það er mikilvægasta mál sem Alþingi hefur fjallað um frá lýðveldisstofnun. Og það er gríðarlega áríðandi að fjallað verði um þetta mál af skynsemi og samkvæmt efnisinnihaldi því að án þess að það gerist eigum við Íslendingar ekki möguleika á því að komast út úr þessu máli sem heil þjóð.
InDefence hópurinn, sem ég er hluti af, er ópólitískur og óháður hópur fólks sem á það eitt sameiginlegt að bera hagsmuni Íslands fyrir brjósti. Hópurinn afhenti í mars breska þinginu 83 þúsund undirskriftir gegn hryðjuverkalögunum og hefur síðustu 8 mánuði ítrekað bent stjórnvöldum á þær hættur sem Íslendingar stæðu frammi fyrir og þörfina fyrir aðgerðir.
Hópurinn hefur frá því að skrifað var undir ICESAVE samninginn barist fyrir því að vekja athygli á fjölmörgum atriðum sem tengjast samningnum og sem skipta öllu máli fyrir framtíð Íslands. Meðal þessara grundvallaratriða eru eftirfarandi:
Nr. 1. Afsal fullveldisréttar og eignir íslenska ríkisins
Mikið hefur verið rætt um 16. grein samningsins, sem fjallar um afsal fullveldisréttar íslenska ríkisins. Lögfræðingar InDefence, sem hafa mjög víðtæka reynslu af því að fjalla um þjóðréttarsamninga, eru sammála um að þetta ákvæði feli í sér víðtækt afsal friðhelgisréttinda sem leiðir til þess að mun auðveldara verður að ganga að eignum íslenska ríkisins. Þegar ákvæðið er lesið kemur ekki fram í texta samningsins nein takmörkun á hugtakinu eign".
Ríkisstjórn Íslands hefur sakað okkur um hræðsluáróður fyrir að benda á þessa augljósu staðreynd. En ef sú fullyrðing stjórnvalda er rétt að þessi tilvísan taki ekki til eigna á Íslandi - af hverju stendur það þá ekki skýrt í ákvæðinu?
Það er rétt að benda á að fyrst þegar þetta ákvæði komst í almenna umræðu á 17. júní, þá héldu stjórnvöld því blákalt fram að þarna væri aðeins átt við eignir Landsbankans. Nú hefur verið sýnt fram á, meðal annars af sérfræðingi í þjóðarétti, að þessi skilningur stjórnvalda var rangur.
Íslenskur almenningur á kröfu til þess að öll réttaráhrif sem felast í þessari grein séu skýrð af stjórnvöldum á tæmandi hátt. Að benda á staðreyndir og að kalla eftir nákvæmum útskýringum er ekki hræðsluáróður.
Nr. 2. Engar efnahagslegar forsendur
Samkvæmt útreikningum InDefence hópsins hefur íslenska ríkið engar efnahagslegar forsendur til þess að greiða lánið samkvæmt þessum samningi. Samninganefnd Íslands gefur sér að á næstu 7 árum muni eignir Landsbankans seljast fyrir 75% af upphæðinni. Það þýðir að eftir 7 ár koma íslendingar til með að sitja uppi með skuld sem með vöxtum og vaxtavöxtum verður milli 450-500 milljarðar króna. Þessa upphæð þarf að greiða á næstu 8 árum eftir það. Til að setja þessa tölu í samhengi þá jafngildir þetta því að íslendingar borgi að minnsta kosti þrjár Kárahnjúkavirkjanir á 8 árum. Ef eignir Landsbankans gefa minni heimtur en 75% hækkar þessi upphæð hratt.
Vaxtagreiðslur af þessu láni eru einnig gríðarlega erfiðar fyrir ísland. Miðað við forsendur samninganefndarinnar eru vextirnir um 36 milljarðar króna á hverju ári. Til að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum verður íslenska ríkið að eiga 36 milljarða af erlendum gjaldeyri í afgang á hverju ári, því að lánið er í evrum og pundum. En hvernig er hægt að búast við því þegar mesti gjaldeyrisafgangur síðustu 25 ára var aðeins 30 milljarðar? Þetta þýðir að Ísland þarf að gera betur en besta gjaldeyrisjöfnuð síðustu 25 ára bara til að geta borgað vextina samkvæmt þessum samningi. Og það þarf að gerast á hverju ári, næstu 15 ár.
Nr 3. Lánshæfismat Íslands mun mögulega lækka.
Það skiptir gríðarlegu máli að staðfesting fáist frá óháðum aðilum á því að lánshæfismat Íslenska ríkisins muni ekki lækka í kjölfarið á þessum samningi. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og heimilin í landinu. Slík staðfesting hefur ekki fengist.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lýsti sjálfur yfir áhyggjum af lánshæfismati íslenska ríkisins í erlendum fjölmiðlum í gær. Það hlýtur því að vera alger forsenda að áður en ríkisábyrgð á þessum samningi er lögð fyrir Alþingi sé fengið álit á stöðu Íslands frá alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum.
Nr. 5. Samningsmarkmið Íslendinga eru þverbrotin
Það er algerlega ljóst að samningurinn er ekki í neinu samræmi við þau viðmið sem samninganefndir landanna þriggja voru bundnar af og fram koma í þingsályktun Alþingis frá 5. desember 2008. Þessi samningsviðmið voru mikilvægur hluti af pólitískri lausn málsins, þannig að íslendingar samþykktu að taka á sig skuldbindingar gegn því að samið yrði um þær þannig að tekið skyldi tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og ... ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt".
Það er ljóst að samningur sem er ekki í neinu samræmi við þessi viðmið er óásættanlegur fyrir Alþingi Íslendinga. Í 3. grein samningsins er tekið skýrt fram að samningurinn tekur ekki gildi ef ríkisábyrgðinni verður hafnað á Alþingi. Þetta er eina útleið Íslendinga. Ef þessi samningur tekur gildi með samþykki Alþingis er hann algerlega skotheldur. Eina leiðin er að hafna ríkisábyrgðinni núna og knýja þannig á um að Bretar og Hollendingar setjist aftur niður að samningaborðinu, til að gera samning við Íslendinga sem er í samræmi við markmið Alþingis eða svokölluð Brüssel viðmið. Samning sem gerir okkur kleift að standa við skuldbindingar okkar. Það gerir þessi samningur ekki. Sá fyrirvari sem talað er um af hálfu stjórnvalda, að setjast niður og ræða vandann, er máttlaus því engin skylda er lögð á viðsemjendur okkar að breyta neinu í þeim viðræðum.
Svavar Gestsson hefur ítrekað haldið því fram að tvö atriði gerðu það að verkum að þetta væri góður samningur fyrir Ísland: Annars vegar að hryðjuverkalögunum yrði aflétt og hins vegar að Ísland kæmist í sjö ára skjól. Hvort tveggja er ofmetið.
Í fyrsta lagi lá það fyrir allan tímann, eins og InDefence fékk staðfest á fundi með fulltrúa breska utanríkisráðuneytisins í mars síðastliðnum, að um leið og einhvers konar samningur um ICESAVE lægi fyrir yrði hryðjuverkalögunum aflétt. Það er því ekki þessum samningi að þakka sérstaklega. Það lá alltaf fyrir hvort eð var.
Í öðru lagi er lítið hald í þessu sjö ára skjóli þegar Bretar og Hollendingar geta, samkvæmt 11. grein samningsins, gjaldfellt allt lánið hvenær sem er á lánstímanum, til dæmis á grundvelli þess að Alþingi breyti lögum eða að Íslendingar geta ekki borgað önnur erlend lán á réttum tíma. Þessi gjaldfellingarákvæði binda hendur Alþingis og íslenska ríkisins á óvenjulegan hátt, meðal annars takmarka þau rétt Alþingis til að setja lög. Ef Ísland uppfyllir eitthvað af þessum gjaldfellingarákvæðum þá skiptir engu máli hvort liðin eru sjö ár eða ekki. Allt tal um sjö ára skjól er því orðum aukið.
Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa bæði fullyrt að Bretar og Hollendingar séu að kaupa eignir Landsbankans eða taka þær upp í greiðslu. Þetta er algerlega rangt. Hið rétta er að Íslendingum er gefið færi á því að selja eignirnar áður en við greiðum Bretum og Hollendingum peninga. Ef okkur tekst ekki að selja eignirnar og fá andvirðið upp í ICESAVE mun Íslenska þjóðin þurfa að borga mismuninn. Svona rangfærslur hjá forsætisráðherra og aðal samningamanni Íslands gefa tilefni til að spyrja hvort þau hreinlega skilja ekki þann samning sem þau ætlast til að Alþingi samþykki?
Mikið hefur verið rætt um þann þrýsting sem liggur á Íslendingum að samþykkja ríkisábyrgð á ICESAVE samningnum. En gleymum því ekki að það hefur áður legið þrýstingur á Íslendingum og í hvert sinn risu Íslendingar upp sem einn maður undir einkunnarorðum Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja! Og þeirrar samstöðu þörfnumst við í dag.
Því fyrir Breta og Hollendinga getur það ekki talist neins konar ósigur að þurfa, samkvæmt samningnum sjálfum, að lúta vilja lýðræðislega kjörins þjóðþings Íslendinga. Það gefur hins vegar tækifæri til að setjast niður á nýjan leik og endurmeta samningsstöðuna á grundvelli þess að Alþingi telur forsendur þessa samnings of óhagstæðar fyrir Íslenska ríkið.
Það er staðreynd að í þessum samningi gefur íslenska ríkið frá sér allar varnir gegn því að vera dregið fyrir dómstóla vegna þessa samnings. Það er skýrt afsal á fullveldisrétti Íslenska ríkisins. Og hvort sem fjármálaráðherra telur það vera eðlilegt" ákvæði eða ekki, þá er það algerlega ljóst að fyrir Íslensku þjóðina, sem barðist fyrir fullveldi sínu í heila öld, er ekkert eðlilegt" við að afsala því með einu pennastriki. Þó við Íslendingar búum í fullvalda lýðræðisríki megum við aldrei gleyma því að jafnvel enn í dag eru fullveldi og lýðræði ekki sjálfsögð réttindi. Við búum við lýðræði, en við verðum samt að búa það til á hverjum degi.
Fyrir þrem dögum síðan fögnuðu Íslendingar fæðingardegi Jóns Sigurðssonar og stofnun íslenska lýðveldisins. Og við skulum aldrei gleyma því að það er engin tilviljun að mynd Jóns Sigurðssonar er staðsett hér á Austurvelli. Í nærri heila öld hefur Jón staðið hér og minnt Alþingismenn Íslendinga á skyldur sínar gagnvart því fjöreggi þjóðarinnar sem hann og fjölmargir aðrir börðust fyrir alla sína daga, fullveldi Íslands. Í nærri heila öld hafa íslenskir Alþingismenn aðeins þurft að líta út um glugga Alþingishússins til að vera minntir á að í eina tíð þótti fullveldi Íslands ekki sjálfsagður hlutur í samfélagi þjóða. Að afsala fullveldisrétti þjóðarinnar getur því aldrei talist eðlileg ráðstöfun sem embættismenn skrifa undir í skjóli nætur. Aldrei.
Góðir Íslendingar.
Þetta er vondur samningur fyrir Ísland. Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því að eina svarið er að hafna ríkisábyrgðinni núna og freista þess að ná betri kjörum við Breta og Hollendinga í kjölfarið. Það er ljóst að þegar Alþingi hafnar þessum samningi munu verða erfiðar afleiðingar af því fyrir Ísland í skammtímanum. En allt tal um áralanga útilokun úr alþjóðasamfélaginu, það er hræðsluáróður og hræðsluáróður bítur ekki á þá sem vita að þeir hafa réttlátan málstað að verja. Það er öllum aðilum í hag að semja upp á nýtt. En til þess að það geti gerst verðum við að standa saman núna. Eigi víkja. Því það er betra að taka slaginn núna en að komast að því eftir sjö ár að við höfum skrifað upp á dýrustu mistök Íslandssögunnar.
Jóhannes Þ. Skúlason
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (67)