23.6.2009
Orðheingilsháttur og titlíngaskítur
"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls." Mér komu þessi orð Halldórs Laxness úr Innansveitarkroníku í hug þegar ég skoðaði viðbrögðin við frásögn minni af útifundinum og óvæntri heimsókn til fjármálaráðherra sem ég sagði frá í síðasta pistli. Nokkrir netmiðlar fjölluðu um málið auk Bylgjunnar og bloggara.
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum. Það kom mér á óvart hvað þau voru mikil og sterk. Túlkun manna er ólík og jafnvel er hártogað út og suður það, sem ég taldi einfalda og skýra frásögn. Afskaplega misjafnt hvað fólki fannst vera kjarni málsins og það finnur jafnvel engan kjarna. Kannski er hér við sjálfa mig að sakast - kannski ekki.
Ég get ekki með nokkru móti svarað öllu sem sagt hefur verið, reyni það ekki. Enda öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og tilfinningar. Mér finnst aftur á móti verra þegar verið er að gera mér upp skoðanir og leggja mér orð í munn. Segja mig meina eitthvað sem ég hef ekki einu sinni gefið í skyn, hvað þá sagt og fráleitt hugsað. Svo er alltaf talsvert um að fólk lesi ekki einu sinni textann eða hafi svo afleitan lesskilning að ætla mætti að það hafi villst á bloggpistlum þegar það tjáir sig.
Ég kallaði þá sem mættu á fundinn hetjur. Sagði að hetjurnar hefðu mætt. Þýðir það að allir aðrir séu gungur? Ekki aldeilis. Ég mæti t.d. sjálf ekki á útifundinn næsta laugardag. Líkast til ekki þarnæsta heldur. Er ég þá gunga? Nei, ég bara kemst ekki, svo einfalt er það. Ef maður segir að einhver sé fallegur - eru þá allir aðrir ljótir? Eða ef hópur fólks er talinn gáfaður - eru þá allir aðrir heimskir? Nei, alls ekki. Lífið er ekki svo svart-hvítt eða pólaríserað og því hef ég aldrei haldið fram. Þótt ég hafi skýrt málið enn frekar í athugasemd nr. 8 við pistilinn virðist fólk ekki hafa tekið eftir því og heldur áfram í hártogunum. Ég skrifaði ekki ósvipaða ádeilu hér - í janúar - en minnist þess ekki að hafa séð viðlíka útúrsnúninga þá. Meira að segja gáfumennið, uppáhaldið mitt og rithöfundurinn Guðmundur Andri fellur í þessa gryfju hér. Orðheingilsháttur og titlíngaskítur? Maður spyr sig...
Mikið var gert úr því, að Steingrímur J. skyldi leggjast svo lágt að fá einhvern bloggara til að birta tölvupóstana. "Lauma bréfasnifsum að einstaklingum til að birta á bloggi..." Ég tek hjartanlega undir með þeim sem gagnrýna Steingrím fyrir að hafa ekki birt þá fyrr, og þá í útbreiddum fjölmiðlum bæði hefðbundnum og á netinu. Og ég spyr hvort fjölmiðlamenn hafi beðið Steingrím um skjöl máli sínu til stuðnings. Hitt er svo annað mál að Steingrímur bað mig ekki að birta póstana. Ég bað hann um að fá að birta þá. Á þessu er grundvallarmunur. Steingrímur hafði ekki hugmynd um að ég kæmi með Herði Torfa, ég tók fram í pistlinum að ég hefði verið boðflenna, svo varla var þetta vandlega undirbúið stönt eins og sumir hafa látið að liggja. Gengur þeim eitthvað til sem kjósa að mistúlka hlutina á þennan hátt? Maður spyr sig...
Einhverjir sögðu að Hörður hafi verið "tekinn á teppið". Það fannst mér bráðfyndið, sérstaklega af því það voru öfgahægrimennirnir hjá "fremsta fréttaskýringavef landsins", AMX sem sögðu það. Ég hef lært, ef ekki á langri ævi þá að minnsta kosti í ölduróti vetrarins, að spyrja sjálfa mig ævinlega: Hver segir hvað? Af hvaða hvötum? Í þágu hvaða hagsmuna? Í umboði hvaða stjórnmálaafla? Það hefur reynst mér nokkuð vel í tilraunum mínum til að skilja hina ómálefnalegu og þröngsýnu umræðu sem einkennist af... jú, einmitt... orðheingilshætti og titlíngaskít.
Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ljósritið af tölvupóstunum sem ég fékk í hendur var með nöfnum og netföngum allra viðkomandi aðila. Ég var ekki beðin um að klippa textann þannig að þau kæmu ekki fram. Það tók ég algjörlega upp hjá sjálfri mér. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu óttaðist ég að fólk í slæmu jafnvægi myndi senda þessum mönnum tölvupósta með miður notalegum athugasemdum. Þótt púkanum í mér hafi fundist það bara gott á þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri íslensku þjóðinni ekki til framdráttar um þessar mundir.
Það sem mér finnst einna verst við umræðuna um þennan pistil er, að þrumuræða Jóhannesar Þ. Skúlasonar virðist hafa fallið í skuggann. Hana birti ég í pistlinum en fáir virðast hafa tekið eftir henni. Ég vil því hvetja fólk til að kíkja aftur á pistilinn og lesa ræðu Jóhannesar.
Að lokum langar mig að biðja lesendur að hlusta á Krossgötuþáttinn sem ég hengi neðst í pistilinn. Þar ræða þau Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir meðal annars um skort á almennilegri rökræðu og rökræðuhefð á Íslandi, hræðslu við að ástunda gagnrýna hugsun og hættulegt vald stjórnmálanna.
Ég lýk máli mínu með annarri tilvitnun í Halldór Laxness, lýsingu á íslensku þjóðarsálinni um aldir - að þessu sinni úr Sjö töframönnum. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933: "Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)