7.6.2009
Heimsk þjóð með gullfiskaminni?
Gífurleg reiði er í þjóðfélaginu vegna Icesave-samninganna. Mér heyrist sú reiði vera þverpólitísk með öllu þótt alltaf glitti í óþolandi og að því er virðist óhjákvæmilega flokkadrætti og skotgrafahernað. En svo eru þeir sem - ýmist af flokkspólitískum hvötum eða ekki - minna landsmenn á hvað þeir séu nú vitlausir og með mikið gullfiskaminni. Þetta Icesave-dæmi sé búið að vofa yfir mánuðum saman og sé ekkert nýtt. Þeir spyrja hvort við sem erum reið séum búin að gleyma því? Samningurinn eigi ekkert að koma á óvart - og því ekki að valda vonbrigðum eða reiði. Einmitt það.
Myndi einhver segja viðlíka við mann sem var að missa konu sína úr krabbameini sem þau höfðu barist við saman í tja... segjum þrjú ár? "Það þýðir ekkert að reiðast eða gráta, Palli minn. Þú ert nú búinn að vita í hvað stefndi svo lengi." Auðvitað dytti engum í hug að segja þetta. Mannssálin er skrýtin skepna og eitt af því sem einkennir hana er vonin. Þótt maður búist við hinu versta og viti að það komi þá vonar maður í lengstu lög að málin leysist farsællega. Hangir í voninni fram í rauðan dauðann. Alveg sama hvað um er að ræða. Barnalegt? Kannski. En mannlegt er það.
Þannig var það með íslensku þjóðina og Icesave. Við vonuðumst eftir réttlæti. Þótt ekki væri nema lágmarksréttlæti. Icesave-samningurinn á nákvæmlega ekkert skylt við réttlæti. Þar er verið að binda íslenskan almenning á skuldaklafa án þess að þessi sami almenningur hafi nokkuð til saka unnið, geti á neinn hátt varið sig eða haft áhrif á niðurstöðuna. Það er kjarni málsins. Samningurinn hefur verið yfirvofandi lengi. Við vonuðum það besta en fengum loks skellinn. Vondan, sáran, óréttlátan skell. Auðvitað erum við reið.
Ómar Valdimarsson kallar okkur gullfiska og segir reiðina skrípalæti. Egill Helgason hefur birt þrjár bloggfærslur til að sýna okkur fram á hvað þetta sé eðlileg niðurstaða. Við eigum að borga skuldir okkar. Í þeim síðasta minnir hann á hve Finnar voru stoltir af að hafa borgað skuldir sínar, einir þjóða, eftir fyrri heimsstyrjöldina. Mörður Árna segir of seint að vera svartsýn. Hann minnist reyndar ekki á hvort það er of snemmt eða seint að vera reiður. Einhverjir tala um lagatæknileg atriði og þar ber einna hæst gildi jafnræðisreglunnar. Allir innistæðueigendur eiga að vera jafnir, jafnt innlendir sem erlendir. Ég get tekið undir það, en ekki varist þeirri hugsun um leið hvort allir þjófar eigi ekki líka að vera jafnir. Allir glæpamenn. Verður Björgólfur Thor látinn borga eins og við hin? Ríkir eitthvert jafnræði milli okkar og hans? Verður Sigurjón Árnason, faðir Icesave og sem kallaði þessa reikninga "vöru" í sjónvarpsviðtali (sjá neðsta myndbandið hér), tekinn og fangelsaður eins og Lalli Johns eða Árni Johnsen? Hvítbókin auglýsir eftir Icesave-mönnum hér og Eyjan segir frá grein um útrásarglæpamennina hér, mbl.is hér.
Ég hef engu gleymt. Á alla sögu hrunsins í máli og myndum í tölvunni minni. Ég veit mætavel og hef margoft skrifað um hverjir eru ábyrgir. Ég kenni ekki Vg um Icesave og aðeins sumum í Samfylkingunni. Núverandi stjórn sem slíkri er ekki um að kenna. Hún er að þrífa skítinn eftir 20 ára óstjórn, geðveiki og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Og það er holur hljómur í gagnrýni Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna. Ég get ekki með nokkru móti tekið mark á orðum þeirra, upphrópunum og ásökunum. Flokkarnir þeirra eru ábyrgir fyrir Icesave, svo mikið er víst. Icesave varð til á þeirra vakt og þeir gripu ekki til nauðsynlegra og vel mögulegra ráðstafana til að firra íslenskan almenning ábyrgð á þeim. Þeir, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, steinsváfu á vaktinni. Við gjöldum þess nú.
Og ég er reið. Öskureið. Reiði mín er mjög eðlileg og ég tel mig eiga fullan rétt á að tjá hana án þess að vera uppnefnd gullfiskur eða eitthvað álíka niðurlægjandi. Að segja reiði mína óréttmæta eða kjánalega er í mínum huga svipað og að segja ekklinum Palla að hann sé aumingi ef hann reiðist vegna dauða konu sinnar og að sorg hans sé skrípalæti. Jafnvel þótt hann hafi vitað í hvað stefndi.
Mér er ekkert sagt um þessa samninga, enginn gerir neitt til að gera mér þá léttbærari, enginn útskýrir nokkurn hlut fyrir mér. Það er bara sagt að þetta sé nauðsynlegt. Þó segja lagaspekingar og ýmsir aðrir að svo sé ekki. Hverjum á maður að trúa? Hvar er réttlætið í þessu öllu saman? Hvar er réttlætið í því að þeir sem eru augljóslega ábyrgir ganga lausir, hafa það bara helvíti fínt, takk og baða sig í peningum eins og Jóakim Aðalönd? Þeir brutust inn hjá okkur og stálu öllu steini léttara. En okkur, fórnarlömbunum, er stungið inn fyrir glæpinn á meðan þeir, glæpamennirnir, ganga lausir og njóta þýfisins. Þó er vitað hverjir þeir eru og hvar er hægt að ná í þá.
Mig þyrstir eftir réttlæti. Ég vil fá upplýsingar. Ólafur Ísleifsson, hagfræðiprófessor, komst ágætlega að orði í fréttum RÚV í gærkvöldi. Ég tek undir orð hans: "Það getur vel verið að þetta séu ekki mistök. En það verður þá að minnsta kosti að sýna fólki fram á það".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (119)