Draumsýn einfeldningsins

Eftir að bankarnir hrundu og ríkið tók þá yfir (munið að við erum ríkið) hélt ég að auðvelt yrði að virða vilja og ákvarðanir ríkisstjórnar og ráðherra. Ég hélt að loforð þeirra og fögur orð um að hjálpa skuldsettum almenningi og heimilunum í landinu yrðu efnd. Meðal annars í þeim tilgangi að fólk yrði ekki gjaldþrota í hrönnum og til að hindra landflótta.

Ég hélt líka að tekið yrði hart á útrásardólgum og fyrirtækjum, þar sem óbeisluð græðgi hafði verið í fyrirrúmi. Þar sem tekin höfðu verið alls konar lán, eignir veðsettar upp í rjáfur og peningunum, afrakstri græðginnar, jafnvel í einhverjum tilfellum stungið í vasa stjórnenda eða eigenda fyrirtækjanna og komið fyrir í skattaskúmaskotum.

Þetta virðist hafa verið draumsýn einfeldningsins.

Allir vita um kröfu eða ósk Björgólfsfeðga um að fella niður helming af útistandandi skuld þeirra vegna kaupa á Landsbankanum áramótin 2002-2003. Og allir vita líka að krafa þeirra er enn óafgreidd í höndum m.a. Huldu Styrmisdóttur stjórnarformanns Nýja Kaupþings, dóttur Styrmis Gunnarssonar vinar Björgólfs eldri (vandi Íslands í hnotskurn). En  Morgunblaðið, DV og fleiri fjölmiðlar hafa sagt frá tveimur fyrirtækjum sem hafa flúið skuldir sínar og skilið þær eftir í gömlu bönkunum (les.: hjá okkur skattgreiðendum), en flutt eignir og verðmæti yfir á nýjar kennitölur með vitund og vilja bankanna. Semsagt - kennitöluflakk og byrjað með hreint borð, skuldlaus. Þetta eru bara tvö dæmi af... hve mörgum? Maður spyr sig...

Hér er umfjöllun Agnesar um hið dularfulla fyrirtæki Stím.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Morgunblaðið 23. nóvember 2008

Hér segir svo DV frá kennitöluflakki eigenda Stíms, sem neita þó að Stím komi málinu við.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

DV 10. júlí 2009

Hér segir Agnes frá fyrirtækinu Soffaníasi Cecilssyni á Grundarfirði og gríðarlegri skuldsetningu þess.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 31. maí 2009

Og hér segir frá kennitöluflakki Soffaníasar Cecilssonar og hvernig þeir komu sér undan skuldum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júní 2009

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði viðskiptaráðherra á Alþingi í gær um kennitöluflakk með vitund og vilja bankanna. Ráðherra sagði engar reglur til um slíkt flakk, en að kennitöluskipti væri oft eðlileg leið til að bjarga verðmætum og tryggja áframhaldandi rekstur.

Þetta er athyglisvert svar - bjarga verðmætum - í ljósi fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og sagði frá hjónum í fjárhagsvanda sem fengu enga fyrirgreiðslu hjá bankanum sínum. Þeirra saga er ekki frábrugðin allmörgum sögum sem ég hef heyrt og er gjarnan ástæða þess að fólk hefur flúið land.

Ég má til með að spyrja í þessu samhengi hvernig við metum verðmæti. Hvað eru verðmæti? Ég hefði haldið að gríðarleg verðmæti fælust í fólkinu sjálfu og því mikilvægt að koma málum þannig fyrir að það geti lifað hörmungarnar af. En svo virðist ekki vera. Verðmætin felast í fyrirtækjunum og eigendum þeirra, ekki almenningi. Hann má éta það sem úti frýs og borga síðan skuldir fyrirtækjanna.

Vissulega er mikilvægt að fyrirtæki geti lifað af til að veita fólki atvinnu. En það er gagnslaust að bjarga fyrirtækjunum ef fólkið sem á að vinna hjá þeim hefur flúið land. Er ekki rétt að ríkisstjórnin - eða þeir fulltrúar hennar sem stjórna bönkunum - fari að taka hlutverk sitt gagnvart skuldsettum almenningi alvarlega? Að farið verði að huga að réttlætinu og grundvelli samfélagssáttmálans sem getur ekki falist í viðlíka hrópandi óréttlæti. Er ekki tímabært að endurskoða verðmætamatið?

Morgunblaðið í dag -  Hjón fá enga lausn í bankanum.
(Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Morgunblaðið 14. júlí 2009


Bloggfærslur 14. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband