26.7.2009
Glæpur og refsing?
Ríkissjónvarpið var með stórfrétt í kvöld um lán Landsbankans til fyrirtækja Björgólfsfeðga. Samkvæmt henni var framinn stórfelldur glæpur þegar Landsbankinn lánaði fyrirtækjum tengdum eigendum sínum langt umfram það sem lög leyfa og tjónið er metið í hundruðum milljarða.
Hér kemur fram að samkvæmt 30. grein laga um fjármálafyrirtæki (lög nr. 161/2002) megi lán til eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Eiginfjárgrunnurinn er síðan skilgreindur frekar í gr. 84 og 85. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans 2008 (í þessu tilfelli hálfsársuppgjör eða sex mánaða uppgjör frá 30. júní 2008) er eiginfjárgrunnur Landsbankans 319,6 milljarðar (neðst á bls. 34), sem þýðir að bankinn má ekki lána "innbyrðis tengdum viðskiptamönnum" meira en tæpa 80 milljarða (79,65). En lítum á hve mikið fé bankinn átti þátt í að lána fyrirtækjum Björgólfsfeðga (og Magnúsar) samkvæmt frétt RÚV:
Þarna eru ótalin þau fyrirtæki sem minnst var á fyrr í fréttinni, Grettir með 60 milljarða og Novator Pharma 43 milljarða. En á þessum lista eru lánin komin upp í 365 milljarða og þó vantar upphæð á eitt fyrirtækið. Gerum ráð fyrir að Landsbankinn hafi lánað þetta allt (fram kemur í fréttinni að hann hafi átt hlut í einhverjum lánanna). Og gerum ráð fyrir að lánin til Grettis og NP (103 milljarðar) jafni upphæðir á móti. Þar sem eiginfjárgrunnurinn var aðeins 319,6 milljarðar er þarna búið að lána langt umfram 100% af honum, eða um 114%. Munum að bannað er samkvæmt lögum að lána meira en 25% af grunninum, eða 80 milljarða. Þetta slagar í að vera fimmföld leyfileg upphæð. Undir lok fréttarinnar tók ég sérstaklega eftir þessu:
Eva Joly sagði í viðtali við Stöð 2 þann 16. júní að réttarkerfi heimsins væru sniðin til að halda hlífiskildi yfir hinum ríku og valdamiklu. Þeir sleppi við refsingu eftir að dómar hafi verið kveðnir upp. Engu sé líkara en að hluti samfélagsins sé hafinn yfir lög. Ætlum við að láta það viðgangast í stærsta fjársvikamáli sem vitað er um þar sem heil þjóð er sett á hausinn? Eða verður yfirskrift íslenska efnahagshrunsins: Efnahagsglæpir og refsileysi?
Stöð 2 - 16. júní 2009
Verður refsað fyrir þennan glæp - og þá hverjum? Verður framhald á fréttinni á RÚV? Verður rýnt á svipaðan hátt í lánabækur hinna bankanna? Við bíðum spennt.
Bloggar | Breytt 27.7.2009 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)