Við vitum þetta...

Ég veit ekki alveg hvað ég er búin að koma mér í. Samþykkti um daginn að vera pistlahöfundur hjá nýrri Morgunvakt Rásar 2... veit ekki hve lengi. Ég held bara í sumar. Ég verð með pistla á föstudögum... eða spjall. Þetta er í mótun. Orkuboltinn og kjarnakonan Lára Ómarsdóttir fékk mig í þetta og fyrsti pistillinn var tekinn upp hjá RÚV á Akureyri í gær. Bjössi tæknimaður var mjög góður við byrjandann og allt gekk eins og í sögu. Eftir prufurennslið sagði hann að þetta yrði ekkert betra svo við létum það bara standa.

Morgunvaktin á Rás 2

"NOOOHHH!", heyrði ég í heyrnartólunum þegar ég var búin að flytja pistilinn. "Hvað þýðir það?", spurði ég. "Þú tekur djúpt í árinni," sagði Bjössi. "Það er full ástæða til þess," sagði ég. En mér fannst ég ekkert taka of djúpt í árinni, síður en svo. Reyndar var ég búin að ákveða allt annað umfjöllunarefni en skipti um skoðun eftir fréttirnar á miðvikudagskvöldið.

Svo tók það mig miklu lengri tíma að stytta pistilinn en að semja hann. Mátti vera hámark 4 mínútur en upphaflegur pistill var 7 mínútur. Þegar þetta gerist - og ég hef reynslu af að reyna að stytta skrif mín úr 10-15.000 slögum í 5.000 slög sem er blaðagreinalengdin - finnst mér allt kjöt horfið af beinunum og skrifin/pistillinn vera komin(n) í einkennilegan skeytastíl. Þess vegna gafst ég upp á sínum tíma við að stytta pistlana mína og senda í dagblöðin. Ég er einfaldlega plássfrekari en leyfilegt er.

En hér er pistillinn, frumraun mín á þessum vettvangi - hljóðskrá hengd við neðst ef fólk vill hlusta líka.

************************

Ágætu hlustendur...

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendurÉg er að lesa hryllingssögu í tíu köflum. Bókin heitir Íslenska efnahagsundrið og er eftir Jón F. Thoroddsen. Í henni er farið yfir aðdraganda íslenska efnahagshrunsins og persónur og leikendur í þjóðarharmleik Íslendinga. Þetta er skelfileg lesning og segir mikla sögu. Skúrkarnir eru margir og með sótsvarta samvisku. Spillingin, siðleysið og græðgin bókstaflega skvettist framan í mann af hverri síðu.

Önnur bók, Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson, var ekki síður fróðleg en sjónarhornið annað. Þriðja bókin, Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson, er samantekt sagnfræðingsins. Þessar þrjár bækur ættu að vera skyldulesning. Námsbækur í framhaldsskólum og framhaldsögur í útvarpi. Við verðum öll að vita sannleikann, þekkja forsöguna, vita hvernig á ekki að gera hlutina, hverjum má ekki treysta og læra af reynslunni. Fleiri bækur koma út með meiri upplýsingum sem við verðum að lesa til að vita sannleikann um það sem gerðist og hverjir bera ábyrgð á hruninu mikla, sem mun fylgja íslenskri þjóð um ókomna tíð og setja svartan blett á sögu hennar.

Við vitum ýmislegt nú þegar. Við vitum hvaða flokkar voru við völd. Við Sofandi að feigðarósivitum hvaða flokkar einkavinavæddu auðlindina í sjónum, bankana og fleiri fyrirtæki og stofnanir í eigu almennings. Og buðu okkur svo jafnvel að kaupa hlut í fyrirtækjunum sem við höfðum sjálf átt áratugum saman. Við vitum hvaða flokkar afnumdu höft og reglur sem gerðu spilltum og siðlausum bankamönnum kleift að setja okkur á hausinn. Við vitum hvaða flokkar prédikuðu frjálshyggju, einkavæðingu, græðgi og sérgæsku sem gróf undan réttlæti, jafnræði, samvinnu og samhjálp í þjóðfélaginu og ýtti undir misskiptingu og óréttlæti. Og við vitum að þessir flokkar hafa ekkert breyst.

Af því ég veit að við vitum þetta öll fékk ég létt áfall yfir niðurstöðu nýrrar Gallupkönnunar í fyrradag. Flokkarnir tveir, sem bera höfuðábyrgð á græðgisvæðingunni og hruninu, höfðu aukið fylgi sitt og ríkisstjórnin tapað fylgi. Erum við virkilega svona gleymin? Við vitum að leiðtogar beggja flokkanna eru auðmenn. Þeir eru líka gasprarar sem lofa upp í bæði ermar og skálmar eins og heyrist á málflutningi þeirra á Alþingi. Ég sé þá ekki fyrir mér vinna að endurheimt jafnræðis eða samfélagslegri ábyrgð í íslensku þjóðfélagi. Ég sé flokkana þeirra ekki heldur stuðla að réttlæti og alls ekki að rannsókn á hruninu. Það er af og frá. Til þess eru þeir allt of stórir leikendur í aðdraganda þess.

HruniðVið erum kannski ekki alveg sátt við núverandi stjórn. Kvörtum yfir skorti á upplýsingum og margir gagnrýna Icesave-samninginn. Fleiri atriði má nefna, eins og fáránlega sérhagsmunagæslu samgönguráðherra. En þrátt fyrir allt held ég að stjórnin sem nú situr sé skásti kosturinn. Hún er ekki öfundsverð af að taka við hrundu þjóðarbúi og skafa grómtekinn skítinn eftir fyrri stjórnir. Engar ráðstafanir eru vinsælar undir þeim kringumstæðum en látum okkur ekki detta í hug að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar myndu gera betur. Og núverandi stjórn virðist að auki vera alvara með að leita réttlætis - þótt hægt gangi. Réttlæti er grundvallaratriði og vegur mjög þungt. Er ekki rétt að gefa Jóhönnu og Steingrími tækifæri til að halda áfram að moka flórinn? Við vitum að þau gera það af heilum hug og leggja nótt við dag í þágu þjóðarinnar.

Ekki vildi ég vera í þeirra sporum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 3. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband