Þjóðaratkvæðagreiðsla eða ekki

Íslenski fáninnÉg hef aldrei tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um neitt mál frekar en aðrir Íslendingar, enda hafa þær aldrei farið fram. Eftir heiftúðugar umræður undanfarinna mánaða - ef umræður skal kalla - um tvö stórmál, ESB og Icesave, finnst mér stór spurning hvort þjóðin sé nógu þroskuð og skynsöm fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk hefur verið gífuryrt og sleggjudómar og svívirðingar tröllriðið umræðunni. Líkast til hafa þeir stóryrtustu fælt fleiri frá sínum málstað en þeir hafa laðað að. Öfgar á báða bóga hafa yfirgnæft skynsemisraddir og heilbrigða, hófstillta umræðu.

Eins og fram kom í Krossgátuþætti 25. apríl sl. þar sem Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir veltu vöngum yfir ýmsu, skortir Íslendinga sárlega rökræðuhefð. Sá skortur hefur svo sannarlega endurspeglast í pontu á Alþingi þjóðarinnar þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur stigið fram til að gaspra og gjamma, sletta skít á báða bóga og tapað sér í tittlingaskít. Á þessu hafa þó verið heiðarlegar undantekningar, sem betur fer.

Ég fékk bréf í gær frá Hirti Hjartarsyni, baráttumanni miklum og talsmanni þess að forseti Íslands samþykki ekki Icesave-lögin. Mér er ljúft og skylt að birta bréfið hans. Ég er sammála mörgu sem í því stendur þótt ég sé ekki sannfærð um að þjóðaratkvæðagreiðsla sé tímabær eins og ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Vonandi mun ástandið lagast áður en ESB-samningur verður kynntur og lagður í dóm þjóðarinnar. Talan sem Hjörtur nefnir er frá í gær, margir hafa bæst við síðan.

***************************************

Meirihluti þingmanna hefur samþykkt frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-hneykslisins. Málið er þar með úr höndum Alþingis. Á vefsíðunni www.kjosa.is er safnað undirskriftum við áskorun til forseta Íslands um að synja frumvarpinu staðfestingar þannig að almenningur geti gert út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meginrökin eru þríþætt: Fjárskuldbindingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðin gangist undir er fordæmalaus, bæði stærð  skuldbindingarinnar og hvernig til hennar var stofnað. Þótt líta megi svo á að almenningur á Íslandi beri ábyrgð á „bankastarfseminni" að baki Icesave, þá verður tæplega sagt að almenningur eigi sök á henni. Sama er að segja um stórfellda vanrækslu íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna, en allt er þetta efniviður í langvinnt ósætti. Í öðru lagi á almenningur kvölina af Icesave-hneykslinu, hvort sem ríkisábyrgðinni verður hafnað eða hún samþykkt. Í þriðja lagi virðist fullreynt að nHjörtur Hjartarson - Fréttir Stöðvar 2á sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um málið eftir hefðbundnum leiðum. Hver þessara röksemda, útaf fyrir sig, nægir til þess að réttlæta þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvær fyrst nefndu snúast um sanngirni og réttlæti. Síðast talda röksemdin lýtur að sátt. Í einu orði mætti nefna þetta lýðræði. Röksemdirnar sem tilteknar eru í áskoruninni eru ekki fleiri, en hin sögufræga gjá milli þings og þjóðar er látin liggja milli hluta. Hún er vel kunn. 

Sé litið til ástandsins í samfélaginu, þyngjast enn rökin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríkir ógnvænlegt vantraust á stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, embættismönnum og stjórnsýslustofnunum. Vantraust sem líklega er fordæmalaust í „vestrænu lýðræðisríki". Stjórnmálastéttin hefur að formi til umboð þjóðarinnar í málinu, en ekkert umfram það. Reiðin kraumar. Icesave-krísan er orðin að táknmynd hrunsins og almenningur verður að fá að gera út um hana sjálfur beint og milliliðalaust. Að öðrum kosti verður Icesave-gremjan viðvarandi næstu árin til stórkostlegs skaða fyrir íslenskt samfélag og lífsnauðsynlega endurlausn þess. Farsæl niðurstaða í Icesave-deilunni er sú sem þjóðin nær sátt um. Niðurstaða sem magnað ósætti ríkir um er röng. Við þurfum að jafna ágreininginn um Icesave í samfélaginu, og það gerum við með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir eru sannarlega til sem vonast eftir gruggugu vatni að fiska í.

Forsætisráðherra sagði Icesave „eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar fyrir og síðar." Hvað þarf til á Íslandi þannig að almenningur fái að gera sjálfur út um mál, milliliðalaust? Af hverju er almenningur á Íslandi aldrei spurður um neitt? Okkur stafar ekki hætta af lýðræði. Ekki af því að almenningur fái meiru ráðið um örlög sín. Það var ekki lýðræði sem keyrði samfélagið í þrot. Íslenskt samfélag er statt þar sem það er statt vegna ofríkis íslenskra stjórnmálaflokka og tortryggni stjórnmálamanna í garð lýðræðishugmynda og vantrú þeirra lýðræðislegum vinnubrögðum. Kerfið sem þeir byggja völd sín á er komið að fótum fram.

Forsetaembættið getur ekki tekið afstöðu til málsins. Embættið getur aðeins gert þjóðinni kleift að eiga síðasta orðið, samanber 26. gr. stjórnarskrárinnar. Aumt væri að gefa frá sér baráttulaust stjórnarskrárvarinn rétt sem almenningur á til þess að taka mál í sínar hendur. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Vel á fimmta þúsund manns hefur þegar skorað á forseta Íslands að vísa málinu
„í okkar hendur". Það eru um 1,5% kjósenda, en á Ítalíu og í Sviss, til dæmis, myndi það duga ríflega til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Áskorunin er sett fram í trausti þess að forseti Íslands fallist á röksemdirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Við vonum samt og treystum á framtakssemi almennings - þeirra sem munu borga Icesave-reikninginn. Tíminn er naumur.

Hjörtur Hjartarson,
talsmaður
„Í okkar hendur" á vefsíðunni www.kjosa.is

**********************************

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. og 29. ágúst 2009


Bloggfærslur 29. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband