Hrammur græðgi og heimsku

Mikið ofboðslega er ég orðin þreytt á yfirgangi stjórnmála-, stóreignamanna og verktaka í skipulagsmálum í nánasta umhverfi mínu. Árum saman höfum við nágrannar mínir háð baráttu við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur til að reyna að verja eignir okkar og umhverfi fyrir eyðileggjandi hrammi græðgi og heimsku. Með  misjöfnum árangri. Ég bý alveg við miðborgina og í umhverfi mínu eru ein elstu og jafnframt viðkvæmustu hús borgarinnar, heillegustu götumyndirnar og saga við hvert fótmál. Ég hef megnustu fyrirlitningu á gráðugum, smekklausum frekjuhundum sem beita valdníðslu og fjámagni til að valta yfir samborgara sína, hunsa siðferði og sanngirni og sýna sögunni - grunninum sem við byggjum á - fullkomið skeytingarleysi og vanvirðingu.

Þetta er lýjandi barátta, tímafrek og getur verið mjög kostnaðarsöm. Og það er svo sárt að þurfa að standa í svona málum. Horfa á uppbyggingu forfeðranna og söguna sem þeir skópu með tilvist sinni troðna í svaðið. Það er alltaf verið að minnka hjarta og sál miðborgarinnar. Skemmdarverkin í borginni eru engu minni en þegar verktakar fara með stórvirkar vinnuvélar inn í náttúruperlur og leggja allt í rúst.

Nú á að ráðast á Ingólfstorg og Nasa, sem í mínum huga og jafnaldra minna heita Hallærisplanið og Sigtún. Þeir sem eldri eru kalla þetta eflaust ennþá Steindórsplanið og Sjálfstæðishúsið. Sigtún er undurfallegt hús með mikla sögu, ómetanlegan sal og stórfenglega sál sem geymir mörg leyndarmál mannlegra samskipta og ástarfunda í áranna rás. Staðið hefur til alllengi að breyta þessu svæði og við skulum líta á fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum frá júní og júlí 2008.

Ég tek undir með þeim sem segja að Ingólfstorg sé ljótt eins og það lítur út núna. Það er grátt og kalt og forljót hús gera umhverfið ekki aðlaðandi, s.s. Miðbæjarmarkaðurinn, TM-húsið, Plaza-hótelið og gamla Morgunblaðshúsið. Til hvers að bæta einu slíku við til að gera illt verra? Torginu er hreint ekki alls varnað og hægur vandi að breyta því ef vilji er fyrir hendi. Ef öll steypan væri upprætt, tyrft og bætt við blómum og trjám yrði þetta yndislegur staður í hjarta borgarinnar.

Til stendur að færa hús inn á torgið og byggja 5 hæða hótel (sem gæti vel orðið 6 hæðir eða meira - slíkt er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulaginu). Torgið er eign Reykvíkinga, en það á að klípa af þeirri eign til að hygla lóðareigandanum, Pétri Þór Sigurðssyni, eiginmanni Jónínu Bjartmarz fyrrverandi þingmanns og ráðherra Framsóknarflokksins. Pétur Þór á semsagt að fá að byggja stórt og almenningur á að víkja svo hann geti athafnað sig. Svona vinnubrögð geta engan veginn kallast eðlileg, hvað þá sanngjörn. Hér eru nokkrar fréttir frá undanförnum dögum um málið.

Aðalstræti er elsta gata Reykjavíkur og var, eins og nafnið bendir til, aðalgatan í þorpinu forðum. Hún er mjög þröng og öll aðkoma að henni líka. Fyrir ofan og vestan götuna er Grjótaþorpið, elsta byggð borgarinnar, og út frá Aðalstrætinu liggja - eðli málsins samkvæmt - fleiri götur á svipuðum aldri og með mikla sögu. Nú þegar standa tvö, stór hótel við Aðalstræti. Hótelum fylgir mjög mikil umferð bifreiða af öllum stærðum og gerðum - á öllum tíma sólarhrings. Rútur að sækja og skila erlendum ferðamönnum í eða úr flugi og/eða skoðunarferðum, leigubílar og ótölulegur fjöldi bílaleigubíla sem þurfa stæði. Auk þess þurfa hótel alls konar aðföng og þar vinnur fullt af fólki. Að ætla að bæta allri þessari umferð á þetta þrönga, viðkvæma svæði er ekki verjandi. Ef einhver hefur á annað borð hugsað út í slíkt hjá borginni.

Kastljós var með umfjöllun um málið 1. september og talaði m.a. við Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var fullur hrifningar á fyrirhugðum framkvæmdum. Um Nasa sagði Júlíus m.a. "...að húsið væri ekki hluti af skemmtanalífinu því þarna væru tónleikar." Ansi er ég hrædd um að fáir taki undir með Júlíusi. Horfið og hlustið sjálf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom heim úr námi með flottar hugmyndir og ákveðnar skoðanir á skipulagsmálum, enda skipulagshagfræðingur. Ég sat með stjörnur í augunum og hlustaði á hann. Tók undir hvert orð sem hann sagði. En svo fór hann í pólitík og hefur ekki minnst á skipulagsmál síðan. Rifjum upp frammistöðu Sigmundar Davíðs í skipulagsmálum.

Silfur Egils 13. janúar 2008 - um skipulag

 Silfur Egils 27. apríl 2008 - um fasteignaverð og skipulag

 Fréttir Stöðvar 2 og Ísland í dag 31. júlí 2008 - um staðsetningu Listaháskóla

Fínar hugmyndir hjá stráknum, vel fram settar og frábærlega rökstuddar. Hann hefði gjarnan mátt halda áfram í skipulagsmálunum, þar var hann eins og fiskur í vatni. Íhugum orð Sigmundar Davíðs með Ingólfstorg og Nasa í huga.

Eins og fram kemur í fréttaklippunum hér að ofan rennur frestur til að skila inn athugasemdum við breytingarnar á skipulaginu og niðurrifi salarins á Nasa út í dag, föstudaginn 11. september. Mig langar að hvetja alla sem vilja ekki að þessi tillaga fari í gegn til að senda inn athugasemd - mótmæla þessari vitleysu. Þetta kemur okkur ÖLLUM við, líka ykkur á landsbyggðinni og Íslendingum erlendis. Um er að ræða torg og sögulegan skemmtistað í hjarta höfuðborgar allra landsmanna - og við eigum landið okkar og höfuðborgina öll saman. Aðgerðarhópurinn Björgum Ingólfstorgi og Nasa er með heimasíðuna bin.is - og þar er hægt að fá allar upplýsingar um málið og senda athugasemd í gegnum síðuna. Kynnið ykkur heimasíðuna og hjálpumst nú að við að afstýra þessu slysi. Ef fólk vill senda athugasemdir sínar sjálft í pósti er netfangið: skipulag@rvk.is.

Líf á Ingólfstorgi - af bin.is

Ályktun stjórnar Torfusamtakanna 5. september 2009:

Torfusamtökin vara við því hættulega fordæmi um ráðstöfun almannaeigna sem gefið er með samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulags um uppbyggingu við Ingólfstorg og Vallarstræti. Í slíkri samþykkt felst að réttur eins lóðareiganda eru settur í forgang fram yfir breiða hagsmuni nágranna og almennings á grundvelli löngu úreltra skipulagshugmynda um miðbæ Reykjavíkur. Þó tillagan taki í vissum atriðum mið af sjónarmiðum húsverndar þá er hæð og umfang fyrirhugaðrar nýbyggingar við Vallarstræti á skjön við þá 101 hús í hættu - Torfusamtökinfarsælu endurreisn sögulegrar götumyndar Aðalstrætis og Grófar, sem borgaryfirvöld hafa unnið að af miklum metnaði og með glæsilegum árangri á undanförnum árum. Með nýbyggingunni yrðu fest í sessi eldri skipulagsmistök er heimild var veitt fyrir hækkun Aðalstrætis 9, en gluggalaus gafl þess húss varpar mestum skugga á sunnanvert Ingólfstorg og spillir ásýnd þess. Í því máli voru fjárhagslegir hagsmunir eins húseiganda teknir fram yfir tækifæri borgarbúa að eignast sólríkt og fallegt torg í hjarta miðbæjarins.

Nýjar upplýsingar um eðli og umfang minja frá fyrstu árum Íslandsbyggðar á svæðinu við Aðalstræti og Kirkjustræti breyta forsendum um uppbyggingu á þeim lóðum sem deiliskipulagið tekur til. Ljóst er að gera þarf umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu áður en framkvæmdir geta hafist. Í þessum fornleifum kann að vera fólgið einstakt tækifæri fyrir Reykjavík sem ekki má gefa sér fyrirfram að moka megi burt.  Þær fornleifar geta reynst Reykjavík, sögustaðnum við sund, menningarborginni og ferðamannastaðnum verðmætari en eitt hótel.  Þá kann hugmynd um að „jarða" hinn sögulega merka og um margt einstæða sal gamla Sjálfstæðishússins að vera í uppnámi, fari svo að merkar minjar finnist á lóð hússins.

Torfusamtökin árétta mikilvægi þess að borgaryfirvöld samþykki endurskoðaða heildarstefnu um húsvernd í elsta hluta Reykjavíkur og geri hana að lögformlegum hluta aðalskipulags borgarinnar.  Í því eru fólgnir ríkir almannahagsmunir fyrir alla íbúa borgarinnar um langa framtíð. 

Meðan húsverndarstefna Reykjavíkur er ekki hluti af aðalskipulagi borgarinnar mun uppbygging hins sögulega kjarna borgarinnar verða tilviljunarkennd, ómarkviss og borginni dýr.  Mörkuð vafasömum þrætumálum eins og því sem hér fer. 

Stjórn Torfusamtakanna


Bloggfærslur 11. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband