12.9.2009
Skrúfað fyrir upplýsingar
Ég skrifaði um gagnagrunn Jóns Jósefs Bjarnasonar fyrir nokkrum dögum og birti ótrúlegar myndir sem sýna tengsl nokkura auðjöfra sem hafa kafsiglt efnahagskerfið. DV skrifaði um gagnagrunninn og birti upplýsingar og Kristinn Hrafnsson hjá RÚV gerði frétt um Jón Jósef og upplýsingarnar sem hann hefur safnað og skráð árum saman.
Jón hefur verið að uppfæra grunninn undanfarna daga þar sem hann náði aðeins til 1. ágúst 2007 og ljóst er að margt hefur gerst á þessum tveimur árum sem upp á vantaði. Upplýsingar sem Jón notar eru opinberar, og hann segir að fyrirtækið Creditinfo selji gestum og gangandi víðtækari og persónulegri upplýsingar en gagnagrunnurinn hans geymir. Sjálf þekki ég ekki til upplýsingagjafar Creditinfo, en það gera eflaust aðrir. Persónuvernd hefur haft aðgang að gagnagrunninum í hálft ár og ekki gert neinar athugasemdir við hann.
Nú hefur embætti Ríkisskattstjóra lokað á aðgang Jóns Jósefs að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Hann segist hafa náð að uppfæra fyrirtækin en í gær, föstudag, var aðgangi hans lokað en þá átti hann eftir að uppfæra upplýsingar um þær persónur sem tengjast þeim. Þetta var gert án þess að láta hann vita þótt hann hafi greitt 180.000 krónur fyrir aðganginn og átti eftir tíma til áramóta. Þar sem hann var í miðri uppfærslu þegar hin óvænta lokun átti sér stað olli þetta talsverðum vandræðum.
Starfsmaður Ríkisskattstjóra sagði Jóni Jósef að yfirmaður þar á bæ hefði gefið þessi fyrirmæli. Ekki er vitað hvar þau eru upprunnin, en einhver vill greinilega ekki að upplýsingar komist inn í gagnagrunninn og beitir valdi til að skrúfa fyrir þær. Þetta getur komið sér afar illa fyrir ýmsa rannsóknaraðila sem nota gagnagrunn Jóns Jósefs, bæði hér heima og erlendis. Svo ekki sé minnst á upplýsingaflæði til almennings sem hafið var með vísan í gagnagrunninn.
Ég reikna fastlega með því að fjölmiðlar taki þetta mál upp á sína arma og grafist fyrir um ástæðu þess að skrúfað var fyrir opinberar upplýsingar sem búið var að greiða fyrir. Þær hafa líka rannsóknargildi og eru stór þáttur í að auka gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings. Mig langar að vita hvort þetta sé lögleg aðgerð og nákvæmlega hver fyrirskipaði lokunina.
Fréttir RÚV 12. september 2009
Fréttir RÚV 8. september 2009
DV 8. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst
DV 9. september 2009 - Smellið þar til læsileg stærð fæst
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)