15.9.2009
Súrrealískur og sögulegur fundur
Fundurinn í Ráðhúsinu í dag var súrrealískur. Fjölmenni var á pöllunum og fólk lét í sér heyra svo um munaði. Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, kallaði slíkt óhefðbundna stjórnmálaþátttöku eða borgarlega óhlýðni. Ég þurfti að fara til læknis svo ég varð ekki vitni að kosningunni og mótmælunum þeim tengdum. En átti í staðinn skemmtilegar samræður við lækninn.
Sá góði maður sagði að í dag hafi sú örlitla von um að eftir væru skynsamir, heiðarlegir stjórnmálamenn (í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki) sem hægt væri að treysta, endanlega dáið. Hann sagðist alltaf hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn þótt stundum hafi hann þurft að halda fyrir nefið og loka augunum á meðan hann exaði við Déið. En hann hefur heitið sjálfum sér að kjósa þá aldrei, aldrei framar. Ef ég þekki hann rétt stendur hann við það. Framferði sjálfstæðismanna í borgarstjórn í dag gerði útslagið.
Ég tók upp hljóðútsendingu fundarins. Upptakan rúllaði í tölvunni á meðan ég var í burtu. Svo klippti ég brot úr fréttatímum sjónvarpsstöðvanna og Mbl.is við kaflann með kosningunni og mótmælunum. Hljóð og mynd passa semsagt ekki saman nema að mjög litlu leyti. Skaut líka inn nokkrum myndum sem ég tók á fundinum. Hljóðskrá með allri umræðunni um OR-Magma málið er viðfest neðst í færslunni ef fólk vill hlusta á öll ósköpin.
Þessi borgarstjórnarfundur er sögulegur og verður svo sannarlega rifjaður upp frá ýmsum hliðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, það efast ég ekki um eitt augnablik. Nú eru kjósendur í þeirri aðstöðu að geta rifjað allt upp, engu verður gleymt.
Óskar Bergsson er framsóknarmaður eins og þeir gerast einna sannastir. Nú fagnar hann niðurstöðu dagsins með félögum sínum sem munu græða á gjörningnum á einn eða annan hátt. Skömmu eftir að hann hóf mál sitt á fundinum stóð fullorðinn maður meðal áheyrenda upp og gekk fram. Konan hans hvíslaði að mér: "Maðurinn minn getur ekki hlustað á Óskar Bergsson. Hann fullyrðir að Óskar hafi aldrei á ævinni sagt satt orð." Ég vissi nákvæmlega hvað bóndi hennar var að tala um. Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson voru í Kastljósi. Þar kom fram að Óskari finnst bara í góðu lagi að dularfullt skúffufyrirtæki, sem stofnað er til að komast í kringum íslensk lög, eignist nýtingarrétt á orkuauðlindum okkar. Siðferðið í góðu lagi á þeim bænum. Munið þið eftir þessu, til dæmis?
Kastljós 15. september 2009
Bloggar | Breytt 16.9.2009 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)