2.9.2009
Salvör og spurningin góða
Salvör Kristjana Gissurardóttir heitir kona og er alveg frábær. Býr yfir gnótt heilbrigðrar skynsemi, heiðarleika og gagnrýninnar hugsunar. Stórskemmtilegur bloggari. Í kvöld varpaði Salvör fram góðri spurningu á Fésbókinni sem ég flyt hér með yfir í bloggheima með von um að einhver geti svarað henni. Spurningin hljóðar svona:
"Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna það er góður díll fyrir íslensk orkufyrirtæki að selja hluta úr íslenskum orkuauðlindum fyrir dollarakúlulán sem er með lægri vöxtum en undirmálslánin í Bandaríkjunum á sama tíma og gjaldþrota íslenskir bankar hanga á einhverjum fataleppa og prentsjoppum í Bretlandi af því núna sé alls ekki rétti tíminn til að selja, það fáist svo lágt verð fyrir draslið í kreppunni?" Einhver...?
Bloggar | Breytt 3.9.2009 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.9.2009
Fáránlegur farsi
Sala Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy verður æ farsakenndari eftir því sem fleiri tjá sig um hana og reyna að verja hana. Mér finnst skelfilegt að horfa upp á þennan fáránleika. Það er deginum ljósara að þjóðin vill alls ekki einkavæða orkuframleiðsluna, sem er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins. Að minnsta kosti ef marka má hljóðið í þeim sem tjá sig um málið. Þeir eru æfir.
Nú reynir á borgarstjórn Reykjavíkur. Þar ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkjum í hrossakaupasamstarfi við Framsóknarflokkinn. Sá örflokkur var næstum dottinn út úr borgarstjórn í síðustu kosningum en slefaði einum manni inn út á 4.056 atkvæði (af 64.895), eða rétt rúm 6%. Upphaflega var Óskar Bergsson aðeins í 3. sæti listans, en vegna óánægju eins og spillingar annars lenti hann í efsta sætinu og var til í að verða viðhald Sjálfstæðisflokksins - gegn gjaldi, vitaskuld. Meðal gullmolanna í herfangi Framsóknarmanna var að endurheimta Orkuveitu Reykjavíkur sem er, að því er virðist, akfeitur pólitískur bitlingur. Óskar skipaði vin sinn og flokksfélaga, sem var í 14. sæti á lista flokksins í Reykjavík, stjórnarformann OR og sá er nú að ráðskast með verðmætar eigur borgarbúa að eigin vild og flokksins. Við getum rétt ímyndað okkur hvað maður í 14. sæti hjá flokki með 6% atkvæða í kosningum hefur sterkt umboð frá kjósendum. En flokksbræður hans græða á orku og virkjunum - þeir eru margir í þeim bransa - og þá er ekkert spurt hvað sé almenningi fyrir bestu, eða hvað?
Ég sá frétt á Sky sjónvarpsstöðinni í gær þar sem rætt var við skuggaráðherra orkumála í Bretlandi. Hann var ómyrkur í máli og sagði að orkuskortur gæti farið að hrjá Breta innan 8 ára. Verið er að loka kolaorkuverum þar í landi vegna gróðurhúsaáhrifa og deilt er um hvað eigi að koma í staðinn. Ég horfði líka á viðtal á netinu, sem lesandi síðunnar benti mér á, við mann að nafni John Beddington, sem er vísindalegur ráðgjafi stjórnarinnar í Bretlandi og las svo líka viðtal við hann. Framtíðarsýn hans er ófögur og hann tengir saman fólksfjölgun í heiminum, fæðu- og vatnsskort, hnattræna hlýnun og - en ekki hvað - orkuskort.
John Beddington segir að eftirspurn eftir ferskvatni muni aukast um 30% og orku um 50% á næstu 20 árum. Getið þið ímyndað ykkur hvað verðið á eftir að hækka mikið á vatninu okkar og orkunni ef eftirspurnin eykst svona mikið og svona hratt? Svo eru nokkrir stjórnmála- og embættismenn að selja bæði vatnið og orkuna á tombóluverði - og lána meira að segja fyrir því líka! Við verðum að stöðva þetta fólk með öllum ráðum. Hér eru fréttir gærkvöldsins á RÚV. Þarna geislar fólk bókstaflega af útblásnum valdhroka. Þetta fólk hefur ekkert lært.
Eins og áður sagði reiknar John Beddington með því að eftirspurn eftir ferskvatni og orku aukist gríðarlega næstu áratugina. Hér er stuttur viðtalsbútur við hann sem fylgdi með netfréttinni. Hlustið á manninn!
BBC News - 24. ágúst 2009
Það er augljóst að auðlindir Íslendinga eiga eftir að verða verðmætari með hverju árinu sem líður, hvað þá hverjum áratugnum. En óhæfir og gjörspilltir flokksgæðingar enn spilltari stjórnmálaflokka ætla að svipta þjóðina arðinum af þessum auðlindum um ókomna framtíð með fáránlegum samningum við gráðuga menn. Nú þegar er búið að semja við álrisa um orkukaup á útsölu og alls kyns forréttindum. Og hverjir ætli borgi svo brúsann þegar upp er staðið nema almenningur þessa lands. Hvað þarf mikið til að fólki ofbjóði sukkið?
Hér er annað viðtal við John Beddington frá 13. ágúst í þættinum HardTalk á BBC. Sama þætti og Geir var í, munið þið? Þetta viðtal er mun lengra og ítarlega en hitt og hér fer Beddington nánar í svipaða hluti.
HardTalk á BBC - 13. ágúst 2009
Í Kastljósi í gærkvöldi var okkur sýndur farsakenndur fáránleiki málsins þar sem Guðlaugur stjórnarformaður OR og Dagur B. létu ljós sitt skína. Satt að segja var ég nákvæmlega engu nær eftir þennan farsa. Dagur var óundirbúinn og greinilega illa að sér í málinu. Ég hefði miklu heldur viljað sjá þarna Sigrúnu Elsu eða Þorleif, sem bæði sitja í stjórn OR, og hafa meiri þekkingu á þessu máli en Dagur virtist hafa. Og ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að Guðlaugur sitji í þessu embætti og fremji slíka gjörninga umboðslaus með öllu.
Kastljós 1. september 2009
Í athugasemd sem Birgir Gíslason gerði við þennan pistil kom m.a. fram: " Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR. Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.
Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar. Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).
Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshlutauppjör þeirra 30.06.2009). Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin. OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma,
ergo: Nettó vaxtakostnaður OR næstu 7 árin 4,601 milljarður.
Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfært verð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).
Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca. 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi: Ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir. Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar. Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunnar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnahagsáætlun ríkisins og IMF.
Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.
Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?
Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%. Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu? Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur? Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?"
Ef við gefum okkur að Birgir hafi rétt fyrir sér er þetta með ólíkindum. Gengið þarf ekki að styrkjast nema um 10% til að OR tapi 840 milljónum! Talað hefur verið um stöðutöku gegn krónunni. Getur þetta ekki fallið undir það - og verið stöðutaka gegn OR, verðmætasta fyrirtæki Reykvíkinga, um leið?
Fjallað var um samninginn á borgarstjórnarfundi í dag. Baráttukonan Heiða B. Heiðars fór á pallana og sagan sem hún segir á blogginu sínu er mjög athyglisverð. Lýsir algjöru áhugaleysi sumra kjörinna fulltrúa borgarbúa á stórmálum eins og þessu. Heiða gat ekki orða bundist og lagði orð í belg á fundinum. Ég hengi hljóðskrá með athugasemd Heiðu af pöllunum neðst í færsluna. Það verða sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Ef þessi samningur verður samþykktur í borgarstjórn verð ég fyrst til að minna á hann þegar kosningabaráttan hefst. Ég læt ekki stela af mér, samborgurum mínum og afkomendum okkar þegjandi og hljóðalaust. Mig grunar að ég verði ekki ein um það.
Viðbót: Þessi pistill Stefáns Snævarr er nauðsynleg og umfram allt holl lesning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)