20.9.2009
Upplýsingar og gagnsæi - lífsnauðsyn
Ein af forsendum þess að unnt verði að gera upp hrunið og takast á við afleiðingarnar er að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæi í þjóðfélaginu eins og best verður á kosið. Leynd og launung þjónar aðeins þeim sem hafa eitthvað að fela eða eru kannski með eitthvað misjafnt á prjónunum sem ekki má vitnast. Um daginn skrifaði ég pistil - Kerfisbundinn blekkingarvefur? - sagði þar frá hugbúnaði Jóns Jósefs Bjarnasonar og sýndi ótrúlegar tengslamyndir úr honum. Nokkrum dögum seinna var skrúfað fyrir upplýsingar hjá embætti Ríkisskattstjóra. Yfirlýsingar voru gefnar á báða bóga og málið virtist í hnút.
Fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mjög um hugbúnað Jóns Jósefs (IT ráðgjöf og hugbúnaðarþjónusta ehf.) sem sýnir tengsl milli eigenda og stjórnarmanna fyrirtækja á Íslandi. Hugbúnaðurinn getur á mjög einfaldan og gagnsæjan hátt teiknað upp eignarhald fyrirtækja á Íslandi. Hann er því mikilvægt tæki til að greina krosseignartengsl, samþjöppun valds, sem var ein af ástæðum bankahrunsins. Það kom því mörgum á óvart þegar lokað var á aðgang Jóns Jósefs að gagnagrunni Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sem hugbúnaðurinn byggir á.
Jón Jósef í Kastljósi 14. september 2009
Það mál er nú leyst. Eins og fram kom í kvöldfréttum fjölmiðlanna í gær og á vefsíðum þeirra sendi Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu undir kvöld:
"Að undanförnu hefur verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi ósk forráðamanns IT Ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu ehf. um að fá aðgang að gagnagrunni fyrirtækjaskrár. Ríkisskattstjóri taldi nauðsynlegt m.t.t. eðli gagnagrunnsins og fyrirhugaðar starfsemi, að afstaða Persónuverndar þyrfti að liggja fyrir.
Nú þegar afstaða Persónuverndar er ljós ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að forráðamaður hlutaðeigandi félags fái umbeðinn aðgang að uppfylltum viðeigandi öryggis- og formkröfum. Reiknað er með að unnt verði að ganga frá því á næstu dögum og skráin þá gerð aðgengileg.
Þá vill ríkisskattstjóri taka fram að öll verkfæri sem nýst geta eftirlitsaðilum og þar með skattyfirvöldum til að auðvelda störf þeirra og jafnframt við að stuðla að gagnsæi í viðskiptum og til að upplýsa um krosseignatengsl, eru mikils virði."
Hópur fólks sem vinnur að auknu gagnsæi upplýsinga fundaði með Jóni Jósef seinnipartinn í gær og niðurstaðan var sú að fá Skúla á fund með hópnum í gærkvöldi. Skúli skýrði fyrir hópnum þær ástæður sem lágu að baki þess að lokað var fyrir aðgang Jóns Jósefs að Fyrirtækjaskrá sem voru í stuttu máli þær, að embætti ríkisskattstjóra vildi hafa allt á hreinu og sýna ábyrgð. Enginn þrýstingur eða annarlegir hagsmunir hefðu legið þar að baki.
Skúli bað Jón Jósef afsökunar á ummælum sínum í fyrri tilkynningu og áréttaði að Jón Jósef hefði hvorki brotið lög né reglur og ekki gert neitt rangt. Þeir Skúli og Jón Jósef tókust í hendur og sættust heilum sáttum.
Ljóst var af framgöngu ríkisskattstjóra að hann er mjög meðmæltur gagnsæi upplýsinga svo framarlega sem farið er að lögum og mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess framvegis. Hann er áhugasamur um gagnagrunn Jóns Jósefs og þeir ætla að funda um framhaldið á mánudag.
Hér handsala þeir Skúli ríkisskattstjóri og Jón Jósef sættir í gærkvöldi.
Viðbót: Bendi á tvo nýja pistla um gagnsæi eftir Egil Jóhannsson og Hjálmar Gíslason.
Jón Jósef og Egill Jóhannsson í Silfrinu 20. september 2009
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)