29.9.2009
Látum ekki stela frá okkur landinu!
Ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu hér 1. nóvember 2007 með þessari sömu fyrirsögn. Bloggfærslan leit svona út og er líklega sú stysta sem ég hef skrifað. Og ég kunni ekki þá allt sem ég kann nú og nota í blogginu.:
1.11.2007
Látum ekki stela frá okkur landinu!
www.hengill.nu
*******************************************
Ég byrjaði að blogga gagngert til að vekja athygli á þeirri tilgangslausu eyðileggingu á undursamlegri náttúru sem fyrirhuguð var - og er - með því að reisa gufuaflsvirkjun á Ölkelduhálsi, Bitruvirkjun. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og umbylting orðið í þjóðfélaginu - en ekkert hefur breyst hvað þetta mál varðar. Við vorum fjögur sem ýttum úr vör, höfðum öflugt bakland og fyrr en varði vatt þetta allt upp á sig svo um munaði. Baráttan gegn Bitruvirkjun varð öflug og ótalmargir tóku virkan þátt í henni á ýmsan hátt. Fjöldi fólks hefur farið um þær slóðir sem yrðu lagðar í rúst og mega ekki til þess hugsa. Í tvígang slógum við athugasemdamet. Fyrst í nóvember 2007 með athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum og síðan í maí 2008 með athugasemdum við breytingu á deiliskipulagi þar sem óspjallaðri náttúru, að hluta til á náttúruminjaskrá, átti að breyta í iðnaðarsvæði. Skoðið myndirnar hér og hér.
Skipulagsstofnun sendi frá sér álit á fyrirhuguðum framkvæmdum 19. maí 2008. Þar sagði m.a.: "Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis."
Í framhaldi af þessu áliti Skipulagsstofnunar var fyrirhugaðri virkjun frestað um óákveðinn tíma af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus sló skipulagsbreytingum á frest. Hér er stiklað á stóru um baráttuna gegn Bitruvirkjun 2007-2008:
Mér finnst allt of lítið gert af því að skoða og fjalla um fórnirnar sem færðar eru fyrir nokkra kerskála sem kallaðir eru álver. Hvað þarf til að keyra risaálver eins og fyrirhugað er að reisa í Helguvík. Og sem sumir vilja reisa á Bakka. Orkusóunina, náttúruspjöllin og fjárfestingar fyrir risastór erlend lán til þess eins að skapa örfá, rándýr störf í álverksmiðju sem flytur gróðann úr landi og borgar litla sem enga skatta. Til að knýja hið öfluga álver sem fyrirhugað er í Helguvík þarf alla fáanlega orku á suðvesturhorni landsins að neðri hluta Þjórsár viðbættum. Varla yrði eitt megavatt eftir í aðra atvinnustarfsemi. Sjáið bara þetta:
Fréttir Stöðvar 2 - 5., 6. og 9. janúar 2009
Hvaða vit er í svona nokkru? Það þarf að þurrausa alla orku á þéttbýlasta svæði landsins til að keyra eitt einasta álver! Svo er fólk að láta sig dreyma um gagnaver og alls konar aðra atvinnustarfsemi. Jafnvel bílaflota sem gengur fyrir rafmagni. Gleymið því. Orkan fer öll í álverið - ef af verður.
Næstu daga ætla ég að rifja upp það sem ég skrifaði í áður - því baráttan gegn Bitruvirkjun er hafin aftur. Sveitarfélagið Ölfus auglýsti enn á ný breytingu á skipulagi og rennur athugasemdafrestur út 3. október nk. - á laugardaginn. Brettum upp ermarnar og söfnum liði, gott fólk! Það er skammur tími til stefnu. Þeir sem voru með síðast kannast við ferlið.
Neðst í hverri einustu færslu út vikuna verða viðfestar tillögur að mismunandi athugasemdabréfum sem öllum er frjálst að nota að vild - annaðhvort óbreytt eða með eigin breytingum. Það þarf að prenta athugasemdabréfið út og senda það í pósti á tilgreint heimilisfang. Svo hengi ég líka við stórmerkilega úttekt Björns Pálssonar og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur sem þau tóku saman og sendu frá sér í gær.
Úr fyrri baráttu - Fréttir Stöðvar 2 - 12. maí 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.9.2009
Síðbúin afsökunarbeiðni
Hvort sem Magnús Þór Sigmundsson er álfur eður ei, þá er hann frábær listamaður. Margir hrifust mjög af laginu sem hann flutti í þættinum Á rás fyrir Grensás á föstudagskvöldið. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hlusta á lagið. Eins og fram kemur í þessari hressilegu frétt á vef Önfirðingafélagsins (af bb.is) samdi hann lagið fyrir vestfirska karlakórinn Fjallabræður, sem flytja lagið með honum auk stórfínna tónlistarmanna.
Í fréttinni kemur fram að Magnús Þór hafi búið m.a. í Keflavík og á Flateyri, en búi nú í Hveragerði. Hann og fjölskylda hans eru því meðal þeirra sem fá yfir sig eiturgufurnar úr borholum Bitruvirkjunar ef hún verður reist.
Ég hringdi í Magnús Þór til að fá leyfi hans til að birta lagið og var það auðfengið. Hann sagði mér að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni. Síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar, auðlindanna... alls þess, sem nú er ýmist verið að selja og/eða eyðileggja. Arfleifðar okkar og afkomenda okkar.
En hér er lag Magnúsar Þórs, Freyja, flutt af honum sjálfum, vestfirska karlakórnum Fjallabræðrum og vel völdum tónlistarmönnum. Þetta er glæsilegur flutningur á frábæru lagi og mögnuðum texta sem ég skrifaði niður eftir eyranu. Náði honum vonandi réttum.
Freyja
Fyrirgefðu mér
undir fótum ég fyrir þér finn
ég man
þú varst mín
hér eitt sinn.
Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?
Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?
Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?
Fyrirgefðu mér
ég fyllti upp í dali með fjöllunum
ég heyrði ekki söng þinn og seið
mér varð á.
Já, ég skammast mín
er þú sál mína særir til þín
þar sem tár þinna jökla og fjallasýn
kveðast á.
Já, ég seldi þig,
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?
Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?
Kæra Freyja mín,
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?
Höfundur: Magnús Þór Sigmundsson
Með birtingu þessa lags og texta hefst baráttan gegn Bitruvirkjun hér á síðunni - aftur. Látið boð út ganga!
Bloggar | Breytt 1.10.2009 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)