Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Þennan pistil skrifaði ég 10. desember 2007. Eftir umræðuna um mútur til sveitarstjórna og aðra óáran í tengslum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár er athyglisvert að bera málin saman. Þar var um að ræða Landsvirkjun, hér er það Orkuveita Reykjavíkur.

*************************************

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfussframkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."

Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.

Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.

En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.

___________________________________________

Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á
Orkuveita Reykjavíkursvæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna
Alfreð Þorsteinsson, þáverandi stjórnarformaður ORjarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR. (Ólæsilega rithöndin reyndist vera Alfreð Þorsteinsson.) _____________________________________________

Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?

Petra Mazetti, upphafsmaður Hengilssíðunnar sem beint er gegn Bitruvirkjun haustið 2007 og sem er enn á fullu í baráttunni, bjó til þetta plakat hér fyrir neðan með aðstoð okkar hinna. Við létum prenta nokkur þúsund eintök og sendum í pósti inn á heimili allra íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerði. Helst hefðum við viljað senda það inn á heimili allra landsmanna en höfðum ekki efni á því. Þetta kemur okkur öllum við og allir, hvar sem þeir búa á landinu, geta sent inn athugasemd!

Mig langar að biðja lesendur að láta plakatið ganga - hvort sem er að senda slóðina að þessari færslu, benda á hana í bloggum, setja hana á Facebook eða vista plakatið, birta það hjá sér, senda það áfram í tölvupósti eða á annan hátt. Smellið til að stækka.

Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrjár greinar - ekkert hefur breyst

Fréttablaðið 11. nóvember 2007

Upplýsingum haldið leyndum - Fréttablaðið 11. nóvember 2007

Fréttablaðið 19. nóvember 2007

Fékk níu daga... - Fréttablaðið 19. nóvember 2007

 Fréttablaðið 22. nóvember 2007

Hroki og hræðsluáróður - Fréttablaðið 22. nóvember 2007


Bloggfærslur 30. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband