Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

Systursonur minn sendi mér slóð að bréfi sem birtist í Lúgunni á Eyjunni í fyrradag. Bréfritarinn, Brynleifur Siglaugsson, stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun og skrifar þetta einlæga og blátt áfram bréf, sem stærstur hluti þjóðarinnar getur eflaust tekið undir. Sársaukinn nísti og mig verkjaði í hjartað.

Ég hugsaði með mér hvort þingmenn og ráðherrar læsu það og rynni blóðið til skyldunnar. Hvort útrásardólgar, bankastjórnendur, skilanefndarmenn, auðlindasalar, spilltir stjórnmálamenn og aðrir sem bera ábyrgð á örvæntingu þjóðarinnar, læsu það og skömmuðust sín. Ég spurði sjálfa mig hvort íslenska prestastéttin, sem á að heita sálgæslustéttin okkar en hefur þagað þunnu hljóði að mestu eftir hrunið, læsi það. Hvort forseti Íslands, sem hefði átt að stappa stálinu í þjóðina og sameina hana, læsi það.

Ekkert bólar á stuðningi við almenning sem hefur þurft að sæta eignaupptöku, er að kikna nú þegar undan aukinni skuldabyrði, skattahækkunum, almennum kostnaðarhækkunum og blöskrar svívirðilegt óréttlætið. Á meðan eru skuldir auðmanna afskrifaðar, kvótakóngar sleppa undan skuldum, skipta jafnvel bara um kennitölu og halda kvótanum. Við horfum upp á siðspillta braskara selja frá okkur hænuna góðu sem verpir auðlindagulleggjunum. Þetta er veruleiki almennings á Íslandi í dag. Það er verið að gera okkur að öreigum á meðan auðjöfrarnir sleppa, halda öllu sínu og fá restina á brunaútsölu.

Ég ákvað að gera mitt til að láta rödd Brynleifs hljóma, fletti honum upp í skránni og hringdi í hann með kökk í hálsi. Hann veitti mér góðfúslegt leyfi til að gera það sem ég vildi með bréfið. Ég bið alla sem vettlingi geta valdið að dreifa þessu bréfi - helst að tryggja að það komi fyrir sjónir allra Íslendinga. Rödd Brynleifs verður að hljóma hátt, snjallt og víða því hann talar fyrir munn svo ótalmargra Íslendinga með brostnar vonir og blæðandi hjarta. Almennings sem hrópar á réttlæti.

Ég las bréfið hans Brynleifs í pistlinum mínum á Morgunvaktinni í morgun. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég las bréf á netmiðlinum Eyjunni í fyrradag. Eftir lesturinn sat ég sem lömuð og tárin trilluðu niður kinnarnar. Bréfritarinn heitir Brynleifur Siglaugsson og hann gaf mér leyfi til að lesa bréfið fyrir ykkur. Yfirskriftin er:

Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

dag tek ég ákvörðun sem ég hef mikið og lengi hugsað um, ætla ég að vera eða ekki vera. Ég asnaðist á sínum tíma til að læra og ná mér í öll réttindi í þeirri atvinnugrein sem ég hafði mest gaman af. Vinnu sem ég naut og skapaði í eitthvað sem ég gæti verið stoltur af á efri árum. Ég hef unnið við þetta fag síðan ég var 16 ára, alls í 23 ár. Aldrei skort verkefni og aldrei verið í þeirri stöðu sem ég er í núna. Ég kann ekki á kerfið og vil ekki læra hvernig ég get haft það "gott" á bótum.

Í dag þarf ég að ákveða hvort ég sé syni mína, sem eru mér kærari en allt annað í lífinu, eingöngu í gegnum tölvuskjá næstu mánuðina og árin. Hvort ég get ekki boðið þeim góða nótt með kossi og fylgst með lífi þeirra og leik nema í gegnum símtöl við þá og móður þeirra. Þeir munu ekki getað leitað til mín með sínar spurningar eða fengið að hitta mig nema á margra vikna fresti. Það á eftir að vera erfitt, bæði fyrir þá og mig. En ef ég vil skapa þeim bjartari framtíð en við sjáum fram á hér, verð ég að fara. Fara burt frá fólkinu, landinu og lífinu sem ég á hér.

Það eru svo sem engin endalok, en það er samt ekki það sem við eigum að þurfa að gera. Að geta ekki séð fram á að hafa vinnu, geta séð fyrir sér og börnunum. Að horfa fram á að lífskjörin fari sífellt niður á við, aukning á drykkju og fíkniefnaneyslu, horfa uppá eldra fólk og öryrkja snupraða með endalausum niðurskurði til þeirra sem byggðu upp þetta land okkar.  Brynleifur og strákarnir hans sumarið 2009Menntun skorin niður og heilbrigðiskerfið skemmt og niðurlægt. Það er bara ekki það sem ég hef áhuga á. Ég gæti líka farið út á land og fengið mér vinnu þar í fiski eða öðru, það er ekkert að því, en þá get ég ekki gert það sem mér er mikilvægast - að byggja upp og skapa. Launin myndu örugglega vera þokkaleg með mikilli vinnu, en með sífellt hækkandi sköttum og meiri dýrtíð yrði það ekki það líf sem ég kýs. 

Ég hef engan áhuga á, að láta misvitra og misdrukkna menn og konur á þingi taka ákvörðun um framtíð barnanna minna. Ég hef engan áhuga á, að láta þetta sama fólk skerða öll lífskjör í landinu til þess eins að halda áliti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda, þar sem peningar eru mælikvarði á allt. Horfa uppá landið selt burt, horfa uppá sömu glæpamennina sitja áfram við kjötkatlana í bönkunum og pota bitlingum til vina og vandamanna. Álit umheimsins á Íslandi er einfalt: Við fórum fram úr okkur, létum gráðuga glæpamenn vaða uppi og skuldsetja skerið svo svakalega að við munum aldrei geta greitt skuldir þeirra - og við eigum ekki einu sinni að reyna það. Allt traust er farið á peningastjórnun hér. Það kemur ekki til baka þó að skrifað sé uppá lán sem við erum ekki og verðum aldrei borgunarmenn fyrir. Frekar á það eftir að halda áfram að versna í hvert sinn sem það verður fréttnæmt að Íslendingar standi ekki við samninginn.

Það hefur löngum verið landlægt hér að fresta skuldunum, lengja í þeim og ýta öllu aftur fyrir. Er ekki komið nóg af því? Ég er viss um að álit umheimsins á okkur myndi stóraukast ef við bara viðurkenndum staðreyndir og horfðum á  hlutina eins og þeir eru og viðurkennum vanmátt okkar. Tökum skellinn núna og notum næstu ár í að byggja upp trúverðugleika sem byggir á staðreyndum en ekki enn einni bólunni. Það verður erfitt en við getum þá allavega byrjað með hreint borð en ekki langan ósigrandi hala á eftir okkur.

Hreinsum til í yfirbyggingunni sem er að sliga stjórnkerfið, opnum það og höfum það gagnsætt. Losum okkur við sníkjudýrin sem eru búin að hreiðra um sig í kerfinu. Þetta er lítið land, byggt af mjög duglegu fólki en ekkert fyrirtæki getur gengið með þvílíku magni af smábossum og afætum sem skapa ekkert nema heimatilbúin vandamál. Ég ætla ekki að bjóða mínum börnum uppá að gerast þrælar fyrir erlenda fjármagnseigendur, það er ekki í boði. Og ég veit að það sama á við um mjög marga aðra. Frekar fer ég burt og byggi mína og þeirra framtíð þar sem yfirvöld þekkja sín takmörk, þar sem fólk er metið, ekki eftir greiðslugetu heldur líka sem lifandi verur."

Brynleifur tók ákvörðun - hann er að flytja úr landi.

*********************************************

Ég óska Brynleifi alls hins besta og vona að ástandið batni fljótt svo hann geti komið sem fyrst aftur til strákanna sinna. En ég er ekki mjög vongóð miðað við hvernig verið er að fara með landið okkar.

Sorglegt, en satt - Halldór Baldursson í Mogganum 1. september 2009

Túristar - Halldór Baldursson - Moggi 1.9.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Guð blessi Ísland

Fyrsta heimildamyndin um hrunið verður frumsýnd eftir rúman mánuð, 6. október. Nákvæmlega ári eftir að Geir flutti ræðuna frægu í sjónvarpinu. Þær eiga eftir að verða fleiri, heimildamyndirnar, en þessi er eftir Helga Felixson. Ég hlakka mikið til að sjá hana.


Bloggfærslur 4. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband