Tjáningarfrelsi og nafnleysi

Mikið hefur verið rætt og ritað um kvartanir vissra manna um róg og níð í skjóli nafnleysis. Með betri pistlum um málið má lesa hjá Sigurði Þór. Í gærkvöldi las ég svo stórfínan pistil Agnars Kristjáns Þorsteinssonar, sem varpar ljósi á ýmislegt í þessu sambandi. Hann kemur m.a. inn á hluti sem ég hef mikið velt fyrir mér, skrifað og talað um - hræðsluþjóðfélagið sem hér hefur ríkt svo óralengi og kæft eðlilega, nauðsynlega umræðu. Þar sem fólk er látið gjalda orða sinna og skoðana. Svo langt hefur verið gengið að fólk hættir að þora að tjá sig og segja sannleikann. Agnar leyfði mér að birta pistilinn sinn hér. Yfirskrift pistilsins er Til varnar nafnleysi í samfélagi ógnar.

********************************************

Ég hef verið aðeins hugsi yfir þessari nafnleysisumræðu því að mörgu leyti hefur hún verið á einn veg: þ.e. þar sem lítill minnihluti nafnleysingja eru sóðar og níðingar, þá skuli ganga í skrokk á þeim öllum. Því hef ég ákveðið að stíga fram og taka aðeins upp hanskann fyrir hinni nafnlausu umræðu á netinu, eitt af því sem er óvinsælt af hálfu þeirra sem vilja stýra öllum umræðum og yfir tjáningarfrelsi drottna.

Þegar ég byrjaði að blogga þá ákvað ég að byrja með dulnefnið AK-72, sem er samsett úr stöfum í nafni mínu og fæðingarári. Tvennt var það sem olli þessarAK-72i ákvörðun og það var að ég var að færa mig hikandi inn á þennan ritvöll sem bloggið er og svo hinsvegar það sem var aðalástæðan: ég var ekki með skoðanir sem voru vinsælar, þ.e. ég gagnrýndi Sjálfstæðisflokk og Framsókn fyrir það fyrsta og svo hafði ég sterkar skoðanir gagnvart forarpytti íslensku þjóðarinnar: rasismanum, þjóðernishyggjunni og útlendingahatrinu sem einkennir umræðu þegar kemur að þessum minnihlutahópum. Enda fór sem fór, maður lenti í eldheitum umræðum og fékk á sig hatursfullar athugasemdir frá fólki sem skrifaði undir nafni og maður skildi alveg fullkomlega hversvegna nafnleysi getur verið gott i umræðu þar sem maður tekur upp hanskann fyrir minnihlutahóp.

Svo kom þó að ég fór að skrifa undir nafni eftir beiðni frá ritstjóra Mogga-bloggsins en hélt þó þessu heiti á yfirborðinu enda myndaði það smá „buffer" að mér fannst. Og það kom líka í ljós að skrifa undir nafni hafði einmitt ákveðin áhrif því þegar leið á umræðu um múslima og fordóma gegn þeim sem ég tók þátt í, þá gerðist nokkuð sem vakti hroll hjá mér og ónot. Einn af verstu öfgamönnunum í þeirri umræðu sem ég tel að gangi ekki heill til skógar, tók sig til og gróf upp hvar ég vann, netfangið þar og byrjaði að senda mér óhugnanlega tölvupósta með hatursáróðri. Ég bað hann um að hætta þessu og sagði honum að ég hefði ekki beðið um að fá svona viðurstyggð senda. Svar hans var að hann teldi sig hafa fullkominn rétt á því, hann væri að fræða mig um hætturnar af múslimum og þverneitaði að taka mig af póstlista sínum heldur hélt áfram að senda póst.

Ógnin af þessu var einnig augljós, ofstækisfullur kynþáttahatari og kristinn öfgamaður taldi sig geta gert hvað sem er og óhugnaðurinn sem fylgdi þessu, lifið með manni í nokkra daga á eftir. Að lokum varð þó niðurstaðan sú hjá mér, að einfaldlega setja klikkhausinn í „junk-mail filter", lét vini mína vita af þessu og sagði þeim að ef ég endaði lúbarinn eða með hníf í kviðnum, þá ætti að leita fyrst að grunuðum hjá íslenskum kynþáttahöturum sem fóru mikið um netheima. Ég ætlaði ekki að láta einhverja hálfslefandi, innræktaða amlóða hræða mig né hafa áhrif á mann.

Þó bliknar þessi saga mín miðað við íslenskt samfélag eins og það hefur verið síðustu ár undir stjórn náhirðar og sauðskinsskálka. Það var og er samfélag ógnar og ótta ,samfélag þar sem mönnum er hótað eða refsað fyrir að segja skoðanir sínar, tjá sig eða jafnvel upplýsa um glæpi líkt og litli Landsímamaðurinn gerði. Hann var rekinn fyrir að fara til lögreglunnar og láta vita um glæp uppáhaldsdrengja Bláu handarinnar sem kreistir og kremur alla þá sem henni líkar ekki við, og átti víst erfitt með að fá vinnu eftir á. Orðið um að hann væri „uppljóstrari" var víst látið ganga meðal klíkubræðra sem seint fyrirgáfu að andlit „frelsis markaðarins" skuli hafa verið gripið með kúkinn í brókunum og milljónir í vasanum. Ef hann hefði aftur á móti farið hefðbundna leið og látið yfirmann vita, þá hefði þetta bara verið kæft niður og hann færður á milli deilda, líkt og einhverjir bankamenn lentu í þegar þeir urðu varir við óeðlilega hluti innan bankakerfisins fyrir hrun.

Það sama hefur gerst fyrir suma þá sem skrifa á netinu undir nafni hafa upplifað, þeim er hótað, þeim er ógnað og sviptir atvinnu fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar, skoðanakúgun er liðin af hálfu þeirra sem völd hafaRúður brotnar í Nornabúðinni eða valdinu þjónka. Þetta varð sérstaklega áberandi í vetur þegar fólk sem tók þátt í mótmælum þurfti að þola allskonar svívirðingar, hótanir, ógnanir og jafnvel rúðubrot og ofbeldi, en nei, það var í lagi, þetta voru bara kommúnistadrullusokkar, þetta voru atvinnumótmælendur og þeir voru ekki eins réttháir í augum þeirra sem grenja nú. Þá mátti svívirða, níða, hrækja á, berja á og já, talsmenn frelsisins gengu fram með blóðþorstaglampa, heimtandi harðari aðgerðir gegn því fólki sem dirfðist að standa upp úr sófanum og láta skoðanir sínar í ljós. En var þetta fólk að væla? Nei, það tók mestum skítnum af æðruleysi því það ætlaði ekki að leyfa rökkum níðinga flokkakerfisins  að brjóta sig niður og myndaði skel ólíkt þeim stjórnmálamönnum, flokksdindlum, fjölmiðlamönnum og vörgum viðskiptalífsins sem vilja stýra allri umræðu.

En það eru ekki bara þeir sem skrifa og tjá sig á netinu sem lenda í svona, það eru líka þeir sem tjá sig á vinnustöðum þar sem yfirmenn þola ekki „rangar" skoðanir líkt og gerðist með einn ættingja minn sem vann hjá einu borgarbatteríinu. Hann lét gamminn geysa í einum kaffitímanum þar sem hann hraunaði aðeins yfir Framsóknarflokkinn, nokkuð sem nýja yfirmanninum með valdastandpínuna líkaði ekki við. Þegar verkstjóra-jæjað kom, þá var ættinginn dreginn inn á skrifstofu og honum tilkynnt það í ógnvekjandi tón að svona ætti hann ekki að tala og það yrði séð til þess að honum yrði sparkað ef hann talaði svona um Framsóknarflokkin aftur. Ættinginn gerði það eina rétta í stöðunni, sagði honum bara að eiga sínar hótanir, gekk út og fékk sér aðra vinnu, nokkuð sem var auðvelt fyrir mann með hans menntun og reynslu.

En í samfélagi ógnar og ótta sem hið „Gamla Ísland" var og er, þá er ekki svo hægt um vik á mörgum stöðum að gera hið eina rétta í stöðunni og storka skoðanakúgaranum. Tökum sem dæmi, þá sem búa út á landi og í litlum bæjarfélögum eða þorpum. Þar er nefnilega mun erfiðara að vera með „óvinsælar" skoðanir hvort sem það er að leggjast á móti álverum eða Málfrelsivera ekki með sömu skoðun og aðalatvinnurekandinn eða stjórnmála-aflið í þorpinu, það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki bara fyrir hann heldur einnig fjölskylduna. Þar er nefnilega hægt að beita hóprefsingu og ég efast ekki um að þeir sem valdið hafa, þeir sem tala mest um „frelsi einstaklingsins og markaðsins" og „tjáningarfrelsið má ekki hindra" hafi refsað mönnum fyrir að tjá sig undir nafni enda hafa þeir sem kenndir eru við skrímsladeild og náhirð oftast verstir verið.

Þetta leiðir því að öðru, þetta tal um hræsnina sem felst í því að tala um „frelsið" en þola ekki að aðrir hafi aðrar skoðanir. Hræsnin á bæ þeirra sem heimta að skrúfað sé fyrir skoðanir eða hvassa gagnrýni eða heimta að einhver yfirritskoðari taki á mönnum sem skrifa undir nafni, líkt og nýbakaður þingmaður nokkur sem aðhyllist „frelsið", telur að eigi að gera við hvassan skrifara sem dirfist að urra í áttina að honum. Hvar er frelsið þá ef þingmaður getur látið þagga niðri í gagnrýnanda sínum?

Slepjan sem liggur svo í orðum margra þeirra sem stíga fram nú sem siðapostular og fulltrúar vandlætingar, er í senn hræsin og velgjuvaldandi. Aðilar sem allir eiga sök á því hruni sem hefur orðið hér, aðilar sem hafa ekkert lært af hruninu og dreymir um hið „gamla Ísland" rísi upp á ný sem Fimmta ríkið. Og hverjir eru þeir þegar litið er yfir hringleikahús íslenskrar umræðu?

  • Stjórnmálamenn sem væla hvað mest undan að landinn blaðri á netinu og nota yfirskin um „netníð og nafnleynd". Sjálfir sjá þeir ekkert að notkun dulnefna ungliða sinna eða hópa sem birtu auglýsingar í þeirra þágu með lítt dulbúnum og jafnvel frekar árásargjörnum áróðri fyrir kosningar og nú í sumar. Nei, þá var það í lagi, því andstæðingurinn er skotmark sem í lagi er að beita nafnlausu níði gegn. Það er nefnilega munur á því að vera nafnlausi Jón eða Háaleitis-Jón þegar kemur að persónulegu skítkasti.
  • Viðskiptamennirnir sem settu landið á hausinn grenja nú undan umræðunni, heimta „lockdown" á slíkt því það á ekki að líðast að þeir sem borga skaðann eftir þá fái að tala um gjörðir þeirra. Við bætist að viðskiptamenn vilja að sjálfsögðu stjórna algjörlega umræðunni um sitt fyrirtæki eða útrásarvíkinganna sem eiga fyrirtækin en kveinka sér undan neikvæðri umræðu, umræðu sem þeir geta ekki stjórnað og tengist oft á tíðum hvernig þeir haga sér. Nei, hegðun þeirra er alltaf til fyrirmyndar enda eru það bara eðlileg viðskipti að ræna fólk ævisparnaðinum og setja heila þjóð á hausinn.
  • Blessaðir fjölmiðlarnir sem þegja margir hverju þunnu hljóði yfir því að FME gangi harkalega fram til að þagga niðri í þeirra stétt fyrir að kjafta frá glæpum eigenda fjölmiðlanna. Nei, þá er betra að vera hlýðinn og þægur hvutti, styggja ekki eigendur og stjórnarmenn sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir t.d. brunaútsölu á orkuveitum.

Þó er kannski hræsni fjölmiðlageirans mest pirrandi því þar stíga fram sjálfumglaðir fjölmiðlamenn sem riddarar réttlætisins gagnvart nafnlausum netverjum og setja sig á háan stall en gæta sín ekki að þeir standa á klettabrún tvískinnungsins. Tvískinnungsins sem felst í nafnlausum áróðurs og árásardálka sem kallast Staksteinar eða Fuglahvísl, nafnlausar ritstjórnagreinar og kjallaragreinar Svarthöfða og Velvakanda. Ekki sjá þeir neitt að allskonar slíkum meinfýsnum og jafnvel skítlegum dálkum því eins og fuglar AMX sem hvísla hvað meinfýsilegast, þá horfa þeir bara með augum ránfuglsins illa og hlæja illlýsislega líkt og hýenur viðskiptalífsins sem þeir þjóna.

Nei, það sem fer fyrir brjóstið á þessum þremur vandlætingarhópum er fyrst og fremst að allt sé ekki eins og það á að vera, að umræðan sé stjórnuð að hætti hins gamla Íslands þar sem stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn sitja eins og þægir seppar við matardallinn frá húsbændum sínum úr yfirstéttinni, í þeirri von um að fá að pissa á gullskreyttu klósetti húsbóndans einn daginn. Þeirra gremja er fyrst og fremst ein, að almenningur hafi skoðanir, að almenningur sé hættur að skilja að hans Gullklósetthlutverk sem hálfmenni þrælastéttar sé að halda kjafti, borga skuldir yfirstéttarinnar og vera niðurlægð fótþurrka valdsins um ókomna tíð.

Og hvað þá með bloggara marga sem koma fram undir nafni? Margir þeirra öskra og æpa um hryðjuverkamenn, asna, fávita geðveiki, föðurlandsvik og fleira í þeim dúr undir nafni, oft á tíðum með helbláan fálkann sitjandi á öxlinni, sama fálka og hefur rifið landið á hol og kjamsar nú á vænum kjötbita rifnum úr holdi almennings. Margir þeirra eru engu betri en verstu nafnleysingjarnir, flokksdindlar til hægri og vinstri sem jarma möntruna sem kokkuð er upp á flokkskrifstofum, en hneykslast nú á þeim sem skrifa nafnlaust, nafnleysingjum sem skrifa jafnvel mun betra og fágaðra en heimskuleg níðskrif margra nafngreindra fréttabloggara eru. Margir nafnleysingjana skrifa betri orðræðu, skila skýrari hugsunum og fallegra máli en fréttabloggarinn illræmdi, margir þeirra rökræða og það er aðeins háttur þess sem er komin í rökræðulegt gjaldþrot að byrja að tala um að fólk sé ekki marktækt í skrifum ef það sé nafnlaust.

Að lokum að þegar litið er yfir sviðið og nafnleysingjarnir eru skoðaðir í samanburði við þá nafngreindu, þá kemur oft í ljóst að fámennur hópur nafnleysingja er með níðið en þeir sem raunverulega eru verstir eru innantómir fréttabloggarar og heimskuleg skrif nafngreindra kjaftaska sem geysast fram með svívirðingum um allt og alla sem varla er samhengi í. Níðskrifin ógeðfelldu sem gagnrýnd eru nú blikna oft í samanburði við níðskrif hinna nafngreindu og nafnlausu sem þóttu flott og fín af þeim þríhöfða þurs valdsins áður á meðan það beindist gegn mótmælendum síðastliðinn vetur eða öðrum þeim sem "gamla Ísland" taldi óvin sinn.

Þó eru nafnleysingjarnir svínslegu eða orðljótustu nafngreindu netverjarnir ekki mesta hættan við lýðræðislega umræðu eða svartasti bletturinn á henni því þá er alltaf hægt að hundsa. Nei, þeir sem eru svarti bletturinn og ógn við málefnalegar umræður og lýðræðislegar rökræður, eru flokksdindlarnir og leiguþý auðmanna sem geysist um víðan völl í vernd fyrir húsbændur sína með heimtingum um ritskoðun og þöggun á þeim sem ekki hafa „réttar" skoðanir.

Þeir eru nefnilega fulltrúar hins gamla, spillta Íslands sem vill ná völdum á ný.


Bloggfærslur 8. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband