Hver á umhverfið?

Þessi spurning er yfirskrift fundar sem haldinn verður á vegum Framtíðarlandsins næsta miðvikudag, 5. desember. Í fundarboðinu, sem birt er hér að neðan, kemur fram að allar Norðurlandaþjóðirnar hafi fullgilt Árósasamninginn - nema Ísland. Tekið skal fram að samningurinn var gerður í júní 1998, fyrir hartnær 10 árum.

Yfirskrift samningsins, eða titill hans, hljóðar svo:  SAMNINGUR UM AÐGANG AÐ UPPLÝSINGUM, ÞÁTTTÖKU ALMENNINGS Í ÁKVARÐANATÖKU OG AÐGANG AÐ RÉTTLÁTRI MÁLSMEÐFERÐ Í UMHVERFISMÁLUM

Hvað veldur tregðu íslenskra stjórnvalda við að leyfa almenningi og náttúruverndarsamtökum að hafa meiri áhrif á meðferð umhverfisins? Alveg eins mætti spyrja: Hver á Ísland?

Framtíðarlandið hélt annan fund um Árósasamninginn 27. september sl. og var sitthvað skrifað og bloggað um málið þá, t.d. hér. Heilmikla umfjöllun má finna um samninginn víða á netinu, svo sem hér og hér og hér

------------------------------------------------

Hver á umhverfið? Stefnumót við framtíðina

Framtíðarlandið efnir til opins morgunfundar miðvikudaginn 5. desember frá klukkan níu til tíu í fundarsal Norræna hússins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, verður sérstakur gestur fundarins en að lokinni tölu hennar verða pallborðsumræður.

Í pallborði sitja eftirtaldir, auk umhverfisráðherra:
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar
Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur

Fundarstjóri er Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og meðlimur í sérfræðingaráði Framtíðarlandsins.

Umfjöllunarefni fundarins er staða lýðræðis-, skipulags- og umhverfismála með hliðsjón af Árósasamningnum. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Á fjórða tug ríkja í Evrópu eru aðilar að samningnum og hafa öll Norðurlöndin fullgilt hann nema Ísland. Þar sem samningurinn tryggir að almenningur og félagasamtök sem starfa að umhverfismálum eigi lögvarða hagsmuni þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið má telja að fullgilding hans myndi breyta miklu fyrir frjáls félagasamtök.

Fyrir alþingiskosingar í vor lýsti Samfylkingin yfir vilja til að staðfesta Árósasáttmálann og því er forvitnilegt að vita hvort umhverfisráðherra muni beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að hann verði fullgiltur. Að sama skapi er áhugavert að ræða hvaða áhrif fullgilding hans muni hafa, t.d. á umhverfi orkufyrirtækja og umhverfismála almennt á Íslandi. Staða frjálsra
félagasamtaka á Íslandi myndi að líkindum taka stakkaskiptum t.a.m. hvað varðar gjafsóknir og hverjir geta kallast lögaðilar að málum en einnig hvað varðar fjárstuðning til þess að kanna og kynna mál - t.d. andstöðu við fyrirhuguð álver og virkjanaáform.

Það hlýtur að vekja athygli að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa fullgilt samninginn þrátt fyrir að öll önnur lönd í kringum okkur hafa gert það..  Eiga komandi kynslóðir það ekki skilið að ákvarðanir um stórframkvæmdir og röskun á umhverfi séu teknar á opinn og gagnsæjan hátt?

Fundurinn á erindi til allra sem eru áhugasamir um lýðræðis-, skipulags- og umhverfismál.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miðað við margt sem hefur komið í ljós undanfarnar vikur í sambandi við m.a. virkjanir á Hellisheiði er maður ekki beint hissa á að Ísland sé ekki búið að staðfesta Árósarsamninginn. Mér finnst það vera til skammar. Hins vegar vona ég að það verði breyting á þessu mjög fljótlega!

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 20:09

2 identicon

Hvað veldur tregðu íslenskra stjórnvalda við að leyfa almenningi og náttúruverndarsamtökum að hafa meiri áhrif á meðferð umhverfisins? Alveg eins mætti spyrja: Hver á Ísland?

Það sem veldur þó mestri furðu hjá mér er hvað margt fólk sem er hlynnt framkvæmdum í sinni heimabyggð, framkvæmdum sem geta valdið óafturkræfum spjöllum á umhverfi, verður heiftugt og hneykslað á því að við "hin" sem ekki búum þar erum ósvífin að halda að við megum hafa einhverja skoðun á því eða ráða einhverju um það hvað gert er í þeirra heimasveit. Þá spyr ég gjarnan: Hver á Ísland? Kemur þetta mér ekkert við, bara af því að ég bý ekki þar? 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 22:15

3 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Manni líst síðan passlega vel á það hvað menn eru farnir að möndla mikið með skýin og veðrið með vafasamri tilraunastarfsemi sem fer ekki hátt...og Kínverjar fremstir í flokki í þesari klikkun, ætla að tryggja gott veður á ólympíuleikunum

HÉR fjallar ABC News um "cloud seeding" ...þeir eru smá saman að koma útúr holunum með þetta, ég segi væri ekki nær að nota peningana í flest annað en að fikta í veðrinu með því að dreifa efnisögnum um loftin blá(þetta er víst búið að vera í gangi með hléum siðan 1946 fram til dagsins í dag í um 20 löndum! ) afhverju ætli svona mikil leynd hafi verið yfir þessu kukli svo lengi, ætli sumar efnisagnirnar séu kannski ekkert of heilsusamlegar ef mikið er spreyað yfir sömu svæðin, kannski áratugum saman...og eitthvað þarf nú af eldsneyti til að standa í þessu öllu....það er það eina sem vantar að yfirvaldið stjórni veðrinu líka...hef ég þá ekkert gagn fyrir ÞÓR lengur

Þessi gamli vísindamaður og reynslubolti varar allavegana við þessum athöfnum

Georg P Sveinbjörnsson, 5.12.2007 kl. 04:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband