Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.
Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.
Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dags féll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.
Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.
Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.
Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?
Ísland best í heimi... hvað?
Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.
Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.
Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.
5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.
Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:
Vit er
veraldar
gengi.
Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.
Jú
vit er
vandmeðfarið
og valt.
Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.
9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.
Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:
Í upphafi
skal efndirnar
skoða.
Jú
fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.
Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.
Jú
sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.
Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.
Jú
enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 10:23 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er satt, bara fáranlegt hvernig landinu okkar er stjórnað. En ég býst svo sem við að það sé ekki auðvelt.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 5.12.2007 kl. 14:17
já þetta er hábölvað ástand. Ég er á engan hátt pólitísk í þrengsta skilningi þess orðs, en ég er alvarlega farin að velta því fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekki að fara að hvíla sig.
Jóna Á. Gísladóttir, 5.12.2007 kl. 15:03
Ég er miður mín eftir að hafa lesið færsluna hans Jakobs. Minnir mig á hversu fátæktin er víðtæk, þ.e. tekur til margra þátta mannlegs lífs. Einangrunin er ábyggilega verst. Nútíma átthagafjötrar, ekkert annað.
Forgangsröðunin er svo annað mál sem er sárgrætilegt.
En það virðist sem við "venjulega" fólkið höfum forgangsröðunina á hreinu, en ekki þeir sem hafa í hendi sér að breyta hlutunum.
Takk kærlega fyrir góða og þarfa færslu.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.12.2007 kl. 16:58
Jæja vinkona, fyrst að þú komst mér í ham.
Ljóðin eru góð, þekkti þau nú ekki fyrr, en þau gera máske lítið nema að kankast á við karlaveldið mikla í laumi.
En pistillinn er náttla verulega góður, kveikir í mér fól til að taka þetta sama upp, hef oftlega hugsað þetta sama & þú hugrennir í honum.
Steingrímur Helgason, 6.12.2007 kl. 01:34
Þessi pistill er með þeim betri sem ég hef lesið í bloggheimum. Takk og aftur takk! Ljóðin hans Sigfúsar bekkjarbróður míns úr MR eru svo mögnuð og eiga heldur betur við um þetta efni. aftur takk! Þú ert frábær bloggari!
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 14:33
Fín færsla hjá þér mín kæra. Umhverfismálin eru mál okkar Íslendinga og þar sofum við á verðinum. Annars finnst mér í fyrsta sinn við hafa eignast umhverfisráðherra sem hagar sér ekki eins og iðnaðarráðherra. Ég vona að Þórunn standi á bremsunni. Hún er alla vega ekki hrifin af olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Sjálf vil ég ekki sjá hana hér á landi. Hún passar ekki inn í umhverfið hér. Ég vona að hún komi ALDREI.
Góðar kveðjur frá ísafirði
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 10.12.2007 kl. 18:34
Takk fyrir innlitið, öllsömul. Ég leyfi mér kannski að birta fleiri ljóð úr bókinni hans Sigfúsar seinna, svo hárbeitt og tímalaus sem þau eru. Andræði er fjársjóður.
Sama dag og ég setti þessa færslu inn tilkynnti ríkisstjórnin um 5 milljarða hækkun til handa öryrkjum og ýmsar réttarbætur. Það er hið besta mál en vonandi fylgir meira í kjölfarið.
Bryndís... ég kem vestur ef með þarf og berst eins og ljón gegn olíuhreinsunarstöð. Menn skulu ekki voga sér að eyðileggja Ketildalina eða aðra staði í þessum mínum uppáhalds- yndislega landshluta!
Lára Hanna Einarsdóttir, 10.12.2007 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.