Nú er mér ekki skemmt

Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm og finnst sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir á hlutunum, en í greininni hér að neðan úr 24 stundum 12. desember sl. fer formaður Húseigendafélagsins óralangt yfir strikið. Hér með er áætlunum um að ganga í téð félag frestað um óákveðinn tíma.

Í grein formannsins er nánast hver einasta setning árás á mig og mína og aðra líkt þenkjandi, auk þess sem orðbragðið er síst til fyrirmyndar.  Þegar sjálfum formanni Húseigendafélagsins finnst sjálfsagt að banna fólki að elda tiltekinn mat innan veggja eigin heimilis og reykja á bak við luktar dyr er þess skammt að bíða að fleira bætist á bannlistann.

Ég er alin upp við að borða skötu einu sinni á ári. Foreldrar mínir og amma, sem bjó á heimilinu, ÞÓTTUST ekki vera að Vestan - þau VORU að Vestan. Og það var ekkert barbarískt við matargerð móður minnar eða neyslusiði okkar, hvort sem um var að ræða skötu, siginn fisk, svið, rauðmaga eða annað sem sumum fannst herramannsmatur en öðrum ómeti. 

Ég var frekar matvönd í æsku, en skatan fannst mér alltaf góð, ólíkt mörgum börnum, og ég hef alltaf haft skötu á borðum á Þorláksmessu og hyggst halda í þá hefð til dauðadags.  Vei þeim formanni sem reynir að banna mér það.  Ég get ekki með nokkru móti séð að þar með sé ég að skerða rétt annarra til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi eins og formaðurinn segir.  Ég ólst upp í sambýlishúsi, bý enn í sambýlishúsi og hef aldrei fengið kvörtun frá nágrönnum yfir skötulykt, enda er opnanlegt fag á eldhúsglugganum hjá mér og auk þess vifta yfir eldavélinni.  

Ég áskil mér þann rétt að meta sjálf hvað mér finnst óætur viðbjóður og hvað ekki.  Þar í flokki er ýmislegt sem öðrum þykir herramannsmatur, s.s. gellur, sniglar, ýmsir pastaréttir og fleira.  En ekki hvarflar að mér að banna fólki að borða það þótt mér þyki það ógeðslegt.  Mér finnst líka frekar ókræsilegt að ganga fram hjá hitakössum með sviðahausum í búðum og finna fýluna af þeim, ekki sérlega lystugur matur fyrir minn smekk, en fyrr skal ég dauð liggja en kvarta og hafa sviðin af þeim sem finnast þau góð.

Skötumáltíð er órjúfanlegur hluti af jólunum hjá mér eins og rjúpur og hangikjöt.  Lyktar- og bragðsmekkur fólks er einstaklingsbundinn og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.  Sumum finnst hangikjötslykt ógeðslega vond, vill formaðurinn banna það líka?  Sjálf kúgast ég ef ég kem nálægt þar sem verið er að gera slátur - þoli ekki lyktina.  Á þá ekki að banna sláturgerð í mínu húsi? Mér finnst lykt af alls konar mat ógeðsleg, öðrum sjálfsagt líka, og ef hlustað væri á svona blaður gæti endað með því að enginn mætti elda neitt sem nágrönnunum þykir vont eða illþefjandi. 

Ég hlýt að vera mikill syndaselur í augum formannsins, því auk þess að elda skötu einu sinni á ári þá reyki ég alla daga ársins - en aðeins innan veggja heimilisins - ekki í sameigninni, hvað þá að ég liggi á skráargötum nágranna minna og blási reyknum inn til þeirra.  Það væri eina leiðin til að þeir yrðu fyrir ónæði af mínum reykingum.

Ef formaðurinn og hans líkar vilja banna fólki að elda og borða tiltekinn mat og reykja tóbak inni á heimilum sínum, hvað kemur þá næst? Hvað fleira vill formaður húseigendafélagsins banna fólki að gera innan veggja eigin heimila?  Hvernig ætlar hann að fylgjast með? Hafa eftirlitsmyndavélar á hverju heimili?

Það er í hæsta máta óeðlilegt og raunar argasti skandall að Sigurður sé með slíkt óþverraorðbragð og geri svona lítið úr fjölda fólks opinberlega þar sem hann er í forsvari fyrir félag sem tekur við alls konar kvörtunum yfir nágrönnum, hversu alvarlegar eða léttvægar þær kunna að vera.  Hann er hér að stimpla sig rækilega inn sem fordómafullur maður sem dæmir samkvæmt eigin smekk og getur því aldrei talist hlutlaus í neinum málum héðan í frá.

Ég er búin að lesa greinina þrisvar og verð reiðari við hvern lestur. Mér finnst maðurinn gera sig að fífli og óviðurkvæmilegt orðbragðið lýsir ótrúlega mikilli mannfyrirlitningu og er formanni Húseigendafélagsins ekki sæmandi.


Skata_24_121207-80

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skatan er það sem ég hlakka mest til að borða um jólin. Ekki ánægð nema ég fái andarteppu yfir pottinum. Svo fæ ég mér sígarettu á eftir. Inni. Sem betur fer eru fleiri í húsinu sem sjóða skötu. Varla hægt að banna þetta einu sinni á ári.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:43

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Veistu að ég sé rautt.  Þetta er pjúra fasismi og ekkert annað.  Ég borða reyndar ekki skötu en mér finnst ekkert að því að þola smá lykt í nafni hefðarinna.  Þó það nú væri.  Ég hata lykt af innmat sem verið er að sjóða, gjörsamlega snýr við í mér maganum og ég reyki.  Guð minn góður. 

Annars eru þessir fasistatendensar inn núna og það er sífellt verið að sauma að fólki.  Ef sá dagur renni upp að mér sé ekki leyft að hafa mína hentisemi í mínum húsum, ja þann dag geri ég byltingu.  ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.12.2007 kl. 12:58

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það er með ólíkindum, hvað formaður Húseigendafélagsins opinberar heimsku sína og hroka í þessum skrifum. Hann virðist ekki með réttu ráði og maður spyr sig: í hverra erindum er maðurinn að ganga; húseigenda allra eða er hann á einkaflippi? Að varpa fram spurningu einsog „að skötustækjan hafi stuðlað að eyðingu byggða og fólksflótta að vestan“, segir allt sem segja þarf um þann mann, sem formaðurinn hefur að geyma. Legg til að manngreyið verði sér úti um annan starfsvettvang. Spurning: er Húseigendafélagið að einhverju leiti opinber stofnun eða alfarið einkadæmi?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.12.2007 kl. 13:11

4 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Það er ekki í lagi með Sigurð Helga Guðjónsson formann Húseigandafélagsins,hann meira að segja gerir lítið úr vestfirðingum og þeirra matarhefð í þessari grein sinni. Ég er vestfirðingur og ólst upp við það að borða fisk 5x í viku og oft var það sem móðir mín hafði Skötu 1x í viku. En því miður eru nokkrir svona furðufuglar til hér á landi, ég veit um einn svona furðufugl sem býr í sama stigagangi og dóttir mín í Melalindinni í Kópavogi. Það er ekkert lítið sem sá maður er búinn að ónáða dóttir mína með dónaskap,hann setti t.d. út á það að hún sé nú stundum að kveikja á reykelsi og að það væri bara svipað og ef fólk væri að elda Skötu heima hjá sér sem honum fannst alveg viðbjóður,óþefurinn væri út um allan stigagang. Ég var stödd heima hjá henni þegar þessi íbúi þar þurfti að tjá sig um þetta ásamt fleiru sem lýsti sér í yfirgangi og frekju.Þessi sami maður var sjálfskipaður sem húsvörður í stigaganginum hjá þeim. Og hann og Sigurður Helgi eru greinilega ekki aldnir upp við að borða fisk. Skata er ekki úrgangur heldur FISKUR. Kannski þekkir Sigurður Helgi ekki nöfnin á helstu fiskum hér í sjónum við íslandsstrendur.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 14.12.2007 kl. 13:16

5 identicon

Sæl, Lára.

Varðandi reykingar í eigin íbúðum geta þær reyndar verið til ótrúlegs ama fyrir nágranna. Þú ert væntanlega svo heppin að búa í nýlegri blokk þar sem er góð einangrun. Í minni blokk reykja allavega tveir á hæðinni og þetta lekur út um alla ganga og oft inn í íbúð hjá okkur - væntanlega undir dyrnar hjá nágrannanum, út á gang og svo inn meðfram hurðinni okkar. Mér nægir oft að standa í andyri eigin íbúðar til að vita að hún Halldóra sé að reykja.  Auðvitað má hún reykja í eigin íbúð eins og henni sýnist, blessunin, en engu að síður vildi ég benda pent á að reykingar í íbúðum geta auðveldlega orðið nágrönnum til mikils ama.

Svona fyrir utan að það er alltaf þó nokkuð stór hluti reykingafólks sem eru ekki jafn tillitssamir og þú, Lára - t.d. í stigaganginum hjá mér eru tveir hálfvitar sem reykja í lyftunni. Virðist alveg finnast það sjálfsagt.

Æ, það er stundum ekkert grín að búa í blokk þar sem allir ættu að vera vinir en ef einn vill fá einhverju breytt sem er honum til ama er verið að traðka á réttindum annars.

Þess fyrir utan er ég náttúrulega sammála því að þessi grein formannsins er þessleg að maðurinn hlýtur að hafa verið á sveppum þegar hann skrifaði hana (-;

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 13:30

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hólmdís - tek undir þetta, ég hlakka einna mest til skötunnar og vil hafa hana vel kæsta.

Jenný - láttu mig vita af byltingunni, ég verð með.

Ásgeir - þetta stendur á heimasíðu Húseigendafélagsins: "Húseigendafélagið var stofnað árið 1923 og er almennt hagsmunafélag allra fasteignaeigenda á Íslandi, hvort sem fasteignin er íbúð, einbýlishús, atvinnuhúsnæði, land eða jörð. Félagar eru bæði einstaklingar, fyrirtæki og félög, þ.m.t. húsfélög í fjöleignarhúsum. Félagsmenn eru um átta þúsund og hefur farið jafnt og þétt fjölgandi undanfarna áratugi." Semsagt - almennt hagsmunafélag fasteignaeigenda. Ef ég hefði verið félagi hefði ég sagt mig úr því núna vegna skrifa formannsins.

Til að gæta sanngirni er þetta í fyrsta sinn sem ég hef orðið vör við að Sigurður Helgi viðhafi slíkt orðbragð opinberlega. Hingað til hefur mér fundist hann málefnalegur og ekkert haft upp á hann að klaga. En nú gekk hann gjörsamlega fram af mér og ég hætti snarlega við að ganga í félagið eins og hefur staðið til hjá mér. Ég vil ekki taka þátt í svona öfgum.

Guðbjörg - já, Sigurður gerir lítið úr Vestfirðingum og öllum sem þykir kæst skata góð, og það eru sko ekki bara Vestfirðingar. Formaðurinn kallar eina af hefðunum frá barnæsku minni "barbaríska átveislu" og vænir mig og móður mína um að elda skötu á Þorláksmessu "í því skyni að misbjóða, ganga fram af, ögra og hrekkja fólk með heilbrigða bragðlauka og lyktarskyn". Ekki líst mér á sjálfskipaðan húsvörðinn hjá dóttur þinni, hann virðist vera af sama meiði.

Bragi Þór - ég bý reyndar ekki í blokk, en í fjölbýli þó. En ég hef búið í blokk og soðið mína skötu þar og reykt inni í minni eigin íbúð. Fékk aldrei kvartanir. En mér finnst alveg sjálfsagt að taka tillit til nágranna minna og reykja ekki í sameigninni, hvað þá í lyftu. Ég hefði reyndar haldið að reykingar væru bannaðar í lyftum svona almennt. Ég virði undantekningalaust reykingabann hvar sem það er og gæti þess vandlega að hafa opna glugga heima hjá mér og lofta út. Opnir gluggar gætu kannski hindrað það, að reykur berist út á stigaganga. Svo má þétta hjá sér dyrnar með ýmsu móti líka.

En ekki vildi ég lenda í því að kaupa mér íbúð fyrir 30 milljónir +/- og komast síðan að því að þar mætti ég ekki gera hitt og þetta sem væru hluti af mínu daglega lífi, hefðum eða hátíðasiðum sem hafa fylgt mér frá barnæsku.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.12.2007 kl. 14:50

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hvað er málið?

Það er lykt af öllu! Þannig er það því miður með sumt af því sem við látum ofan í okkur líka. Það sem hefur mestu lyktina hefur oft líka það bragð sem margir eru hvað sólgnastir í.

Það verður því miður oft fótur og fit í tollum erlendis þegar verið er að senda Íslendingum sem búa erlendis þorramat og fleira góðmeti.

Skata og hákarl er mitt uppáhald, því sterkara, því betra :)

Og að sjálfsögðu eigum við ekki a vera að amast yfir smá lykt af því sem að við erum að borða.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 14.12.2007 kl. 15:19

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Maðurinn hlýtur að vera að reyna að vera fyndinn.  Dettur ekki annað til hugar.  Hann hefur gleymt einhverju sem kallast friðhelgi heimila. Nú vill hann fara að tríta heimili eins og opinbera staði. Annars hefur mitt fólk borið virðingu fyrir þeim, sem ekki fíla skötuilminn. Þegar við bjuggu,m í blokk var skatan söðin út á svölum og nágrannar spurðir um tilfinningar sínar gagnvart þessum ilmi, svona nokkra tíma á ári.  Enginn setti sig gegn því.  Í sam´býli er sjálfsagt að fólk taki tillit og láti vita af partýstandi og slíku, stilli tónlist og hávaða í hóf á nóttum og slíkt. En að banna alla skapaða hluti er algert frat á fólk að mínu mati og verið að segja að við getum ekki höndlað samskipti okkar við nágranna.  Sigurður er maður minni fyrir þessa grein. Ekki vegna skoðunnar sinnar á skötulykt, heldur vegna grundvallar ranhugmynda um mannesjkjuna og lýðræðið.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 17:21

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Brælan af asískri matargerð fór alltaf í taugarnar á mér þegar ég bjó úti. Það var aðallega vegna þess að hún var framandi, svo vandist þetta. Við ættum kannski að fara að éta skötu oftat til að venja fólk við.  Annars er þessi Þorláksmessuhefð að aukast ár frá ári og fleiri og fleir, sem fara í skötuveislur og þykir þetta tilheyra. Nú hefur t.d. orðið mikil aukning í því að veitingastaðir bjóði upp á skötuveislur.  Í fyrra var ég t.d. á sögu að mig minnir.  Hefðin er semsagt mikið að færast út af heimilum og í samkomur og samveru, sem er ánægjulegt. Í þessum veislum má fá saltfisk og ket fyrir þá sem ekki meika skötuna og svo er skatan til á misjöfnu kæsingarstigi eða bara söltuð fyrir þá sem ekki hafa kvið í alvöruna. Mér finnst þetta yndisleg hefð og ánægjulegt hve hratt hún breiðist út og hve skemmtilegt það er orðið að fara saman í góðr vina hópi og minna sig á hvaðan maður kemur.  Sigurður má éta það sem úti frýs á Þorlák.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 17:32

10 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég var nú sem hver annar meðalJón búinn að hreinsa út úr innarlegum matarástartárkirtlum mínum yfir fábjánagrein þessari á bloggerí hennar Skjónu Fíngurbjargar minnar.

"'Stupid is what stupid write's"

Zkeida kvekindið ærlega, barasta... 

Steingrímur Helgason, 14.12.2007 kl. 21:43

11 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Hér er ein skötufærsla

Ingólfur H Þorleifsson, 14.12.2007 kl. 21:54

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég fékk upphringingu frá vinkonu minni í dag sem hafði lesið færsluna. Hún spurði hvort ég tæki grein Sigurðar Helga ekki aðeins of alvarlega. Ég held ekki. Ef einhver annar hefði skrifað þetta hefði ég látið mér fátt um finnast og ekki sagt orð, en hann er formaður samtaka fasteignaeigenda með hefur 8.000 félaga og vinnur meðal annars við að skera úr í deilumálum nágranna út af alls konar uppákomum. Ég efast ekki um að fjöldinn allur af félagsmönnum hans borðar skötu og þykir hún góð. Formaðurinn getur ekki látið eftir sér að viðra skoðanir sínar á svona málum og það með ómerkilegu, ókurteislegu skítkasti út í vissan hóp fólks og alveg ótrúlegum dónaskap. Honum ber að vera hlutlaus - að minnsta kosti opinberlega og út á við.

Góður punktur, Kjartan. Við Íslendingar höfum ekki sjaldan ýmist hlegið að eða skammast yfir viðkvæmni erlendra tollvarða og annarra þegar við höfum verið að senda íslenskan mat á milli landa, s.s. harðfisk, hangikjöt og ýmsan þorramat.

Jón Steinar... ef þetta er tilraun hjá formanninum til að vera fyndinn þá er annað hvort okkar gersamlega gjörsneytt skopskyni. Og auðvitað tekur maður tillit til nágranna sinna og ræðir málin. Það er grundvallaratriði í góðum samskiptum. Ég hef líka prófað að fara á veitingahús á Þorláksmessu til að borða skötu og hún hefur verið svolítið misjöfn að gæðum. En það er mjög gott að veitingahúsin bjóði upp á þetta. Hins vegar hefur verðið hjá þeim hækkað allmikið virðist mér, eftir að þetta fór að verða svona vinsælt. Njóttu skötunnar þinnar á Þorláksmessu.

Ég las athugasemdina þína hjá Skjónu Fingurbjargar, Steingrímur. Þú ætlar greinilega líka að fá þér skötu.

Ég var innilega sammála öllu í færslunni þinni, Ingólfur. Formanninum kemur ekkert við hvað aðrir hafa í matinn hjá sér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.12.2007 kl. 02:08

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Jón Steinar...  vonandi verður frost á Þorlák! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.12.2007 kl. 02:11

14 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Maðurinn hlýtur að vera að reyna að grínast!  Mín skata er sko komin í hús í blokkinni sem ég bý í hér í Sverige og verður elduð og étin með bestu lyst og svo bara loftað vel út á eftir!

Frænka þín í Svíþjóð (dóttir Atla)

Aðalheiður Haraldsdóttir, 16.12.2007 kl. 00:26

15 identicon

Heil og sæl! Fyrstu jólin sem ég hélt í eigin ranni voru á Freyjugötu 11 og ég var 19 ára. Þetta var um það bil minnsta tvíbýlishús í Reykjavík. Tvær íbúðir hlið við hlið.

Kiddi var á sjó og við mæðgur tvær um jólahaldið.  Ég gerði allt eins og mamma.  Bakaði spesíur (þótt mér þætti ekkert varið í þannig kökur) og vaniluhringi. Þreyf allt hátt og lágt. Skolaði úr gardínum og pússaði glugga. Tók til í skápum og skúffum á þessu pínulitla heimili.  Á Þorláksmessumorgun fórum við mæðgur frá ilmandi heimili í bæinn að finna jólsveina og klára seinustu innkaup þe að kaupa jólahangikjetið sem mamma sauð ávallt á Þorláksmessukvöld við undileik jólakveðja frá sjómönnum á hafi úti. 

 Áfallið sem ég varð fyrir þegar við komum inn í sameiginlega forstofu hússins litla var hræðilegt. Þvílíkur daunn! Hvað í ósköpunum var að gerast? Hver stóð fyrir þessum andskotans fýlu?  Annað eins hafði ég aldrei upplifað! Hvar var jólalyktin mín sem ég hafði skilið eftir?

Magnea nágrannakona mín á níræðisaldri, kona vestan úr Svalvogum, gægðist fram brosandi blíð að vanda. "Viltu koma inn og kíkja á skötubita heillin"? "Við erum líka með hnoðmör" bætti hún við. Hvað gat ég sagt? Þetta var mér algerlaeg framandi matur og ég brosti vandræðalega og sagði að við værum nýbúnar að borða. Svo skellti ég dótinu mínu inn og forðaði mér að heiman og til mömmu þar sem ég bar mig aumlega undan hinum ljúfu og góðu nágrönnum mínum sem mér fannst hafa rústað jólunum mínum......allvaga jólalyktinni minni.

Kveðja Ása Björk

Ása Björk (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 11:28

16 identicon

Ég er Vestfirðingur í föðurætt og heima hjá mér var alltaf skata þegar ég var að alast upp . Ég minnist þess ekki að það hafi verið eitthvað vandamál gagnvart öðrum íbúum hússins. Mér finnst það dálítið skrýtið ef fólk fer að amast við hefðum eins og þessum sem tíðkast einn dag á ári. Má þá ekki segja að sama ætti að gilda um hangikjötslykt? Hún er nú ekkert smá sterk? Er hægt að gefa sér að öllum þykir hún góð? Af hverju er hún þá ekki sett undir sama hatt?

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 13:48

17 identicon

Er ekki allt í lagi með þennan mann ...  Segjum sem svo að ég sé á móti Hangiketi(sem ég er svo sannarlega ekki) ætti ég þá að fara að berjast fyrir því að banna hangiketssuðu í fjölbýli ????

Nú eða egg og beikon...  Beikonlykt getur verið skæð!!!

Ég held að svona mönnum eigi að úthýsa sem fyrst úr samtökum á borð við Húseigendafélagið.  Hafi þetta átt að vera húmór þá hefði hann átt að skrifa þetta undir eigin forsendum. 

Ef ég vissi ekki betur þá hefði ég haldið að þetta væri textinn úr "Grumpy old Man" þáttunum sem BBC framleiddi á sínum tíma.

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband