Oft ratast kjöftugum satt á munn!

Æði margt hefur verið að gerast í íslensku þjóðfélagi upp á síðkastið og mig hefur oft langað að leggja orð í belg en ekki haft tíma til þess. Hef það reyndar ekki ennþá en ég get bara ekki orða bundist þegar kjöftugum ratast svo dagsatt á munn sem nú.

Hannes Hólmsteinn GissurarsonÉg hef iðulega furðað mig á því dálæti sem sumir fjölmiðlamenn hafa á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni – en skilið það líka í aðra röndina því þeir þurfa svo lítið að hafa fyrir honum. Það þarf sko ekki aldeilis að draga orðin upp úr honum, hvað þá að undirbúa gáfulegar spurningar og slíkt. En það þýðir heldur ekkert að mótmæla Hannesi eða koma með mótrök, hann hlustar ekki, heldur bara áfram að tala. Hannes er svo sannfærður um eigið ágæti og réttmæti skoðana sinna að engu skiptir þótt allt aðrar staðreyndir blasi við. Ef einhver viðmælandi hans reynir að benda á, þó ekki sé nema annan vinkil, kaffærir Hannes hann í málæði svo til hans heyrist ekki einu sinni.

Gunnar í KrossinumHannes Hólmsteinn og Gunnar í Krossinum eiga margt sameiginlegt að þessu leyti. Báðir eru innilega sannfærðir um að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og engar aðrar eigi einu sinni rétt á sér. Allir sem eru þeim ekki sammála eru kjánar sem skilja ekkert hvað skiptir máli og hvað ekki í lífinu. Báðir eru Hannes og Gunnar ofstækisfullir öfgamenn, hvor á sínu sviði. Ég verð að viðurkenna, þótt það sé mér þvert um geð, að ég hef lúmskt gaman af þeim báðum en verð engu að síður óskaplega pirruð þegar ég hlusta á þá. En á eftir finnst mér ég vera alveg einstaklega heilbrigð, víðsýn, fordómalaus og skynsöm. Að því leytinu láta þeir mér líða vel.

Kannski er það líka þessi eiginleiki sem heillar fjölmiðlamennina sem fá þá í þættina sína. Þeir vekja athygli fyrir öfgafullar skoðanir sínar og athygli er þáttastjórnendum lífsnauðsynleg. Hvaða skýring önnur gæti verið á því, að Egill Helgason bauð upp á Hannes Hólmstein í Silfrinu til að tala um loftslagsbreytingar seinni part árs í fyrra? Eða núna síðast í Kiljunni, sem annars er ágætur bókmenntaþáttur, þar sem Hannes og Egill skoðuðu saman myndir af lífsferli Davíðs Oddssonar og Hannes flutti fjálglegar skýringar með myndunum. Þótt ég túlki hugtakið bókmenntir mjög vítt fæ ég ekki séð að þessi myndaskoðun geti á neinn hátt flokkast undir bókmenntir, jafnvel þó að Hannes sé að gefa út myndabók um ofurhetjuna sína.

Davíð OddssonEins og allir vita hefur Hannes Hólmsteinn verið einn alharðasti talsmaður og verjandi Davíðs Oddssonar um áratugaskeið og Sjálfstæðismaður nánast frá frumbernsku. Eins og sjá mátti í fyrrnefndri myndasýningu í Kiljunni eru þeir einnig klíkubræður og hafa fylgst að hönd í hönd frá unga aldri. Ef Davíð hefur verið gagnrýndur, sem hefur vitanlega gerst ansi oft, stekkur Hannes til, ver hann með kjafti og klóm og réttlætir allar hans gjörðir og hvert orð sem af vörum hans hrýtur. En auðvitað þekkir og skilur Hannes Hólmsteinn Sjálfstæðismenn mjög vel af óralangri reynslu.

Í þættinum Mannamál á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag gerðist merkilegur atburður sem ég hef þó ekki séð mikið fjallað um. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skilgreindi þar mjög skýrt og skilmerkilega hvað í því felst að vera Sjálfstæðismaður, sem líkast til nær yfir alla þá, sem eru skráðir í þann flokk og/eða kjósa hann. Ég var búin að horfa á þáttinn á Netinu, en yfirlætislaus og skemmtileg færsla hjá bloggvenzli mínu, Steingrími Helgasyni, varð til þess að ég horfði aftur og hlustaði betur. Ég fékk hugljómun.

Þar sem ég hef sjálf betra sjónminni en heyrnar, og reikna með að fleiri séu þannig gerðir, tók ég á það ráð að skrifa niður skilgreiningu Hannesar Hólmsteins á Sjálfstæðismönnum orð fyrir orð. Hún hljómar svona:

SjálfstæðisflokkurinnHannes Hólmsteinn: Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.

Þar höfum við það svart á hvítu. Slóð á þennan hluta Mannamáls er hér ef einhver vill líka horfa, hlusta og sannreyna orð Hannesar Hólmsteins. Hann sagði þetta - í alvöru.

Skýrara og skilmerkilegra getur það ekki verið. Sjálfstæðismenn eru ekki pólitískir, fylgja bara sínum foringja eins og sauðkindur sínum forystusauð. Þeir hafa bara áhuga á því að græða og grilla og hugsa um það eitt að bæta kjör sín og sinna, láta foringjann um pólitíkina. Væntanlega er þeim slétt sama um alla hina. En vinstrimenn, sem virðast samkvæmt skilgreiningu Hannesar einmitt vera allir hinir, eru pólitískir upp til hópa og reyna að leysa lífsgáturnar, að líkindum þjóðfélagsmál sem þarf að íhuga, ræða og afgreiða.

Mig grunar að þarna sé Hannes Hólmsteinn að orða, svona líka snilldarlega, það sem ansi margir vissu almennt fyrir og eru búnir að vita lengi, lengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm mikið tek ég hjartanlega undir með þér.  Sjálfsræðisflokkurinn er trúarbrögð.  Að trú þýðir að hætta að spyrja og hugsa.  Ástæðan fyrir að Hannes og Gunnar eru spurðir álits er í grunnin sama og þegar Árni Johnsen eða Hallbjörn eru beðnir um að spila tónlist. Ekki af því að þeir eru frammúrskarandi tónlistarmenn, heldur það að okkur finnst við svo assgoti góð á eftir.  Þeir eru á mörkum hins málefnalega og slatta handan þeirra og það er alltaf gott að láta minna sig á hvar þau mörk liggja.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.1.2008 kl. 19:17

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Alltaf jafn beitt þegar þú tekur þig til. Ég hefði viljað skrifa svona pistil en kann bara að skrifa um veðrið.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.1.2008 kl. 21:45

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Laukrétt hjá þér Lára  Hanna. Góð færsla. Vaðallinn í Hannesi er þó stundum nokkuð sannfærandi. Hann er samt að mörgu leyti líkari Georg Bjarnfreðarsyni en Gunnari í Krossinum. Ég þekki Gunnar þó ekki vel og hef  yfirleitt lítinn áhuga á því sem hann er að segja.

Sæmundur Bjarnason, 19.1.2008 kl. 22:07

4 identicon

Mikið var gaman að sjá blogg frá þér. Ég var farin að sakna þess að fá ekki pistil.

þetta er náttúrulega bara klippt og skorið hjá honum Hannesi eins og honum einum er lagið. Mér fannst þessi lýsing á Sjálfstæðismönnum, þ.e. hvernig þeir vilja haga lífi sínu alveg óborganleg: Græða á daginn og grilla á kvöldin og láta foringjanum eftir að sjá um pólitíkina 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 22:11

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Skelfilega er þetta náttúrlega skemmtileg færsla  ..

Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 22:15

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

:)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 19.1.2008 kl. 22:56

7 identicon

Frábært eins og þín var von og vísa! Einhvernveginn verður kona glöð yfir að vera ekki sjálfstæðiskona eftir þessa skilgreiningu!!! (Enda nenni ég aldrei að grilla og varla að græða heldur,kennararolan).

Ása Björk (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 23:23

8 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það er aldeilis tekið á því - og vel!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 20.1.2008 kl. 00:04

9 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þetta er náttúrlega bara skoðun HHG ... og tilfinning mín er sú að sjálfstæðismenn snúi sér undan þegar hann talar. Guðmundur Ólafsson sem er alltaf hjá Sigurði G. Tómassyni á föstudagsmorgnum á Útvarpi Sögu kallar hann flugdrekann. Ég held að það sé af því að hann fer svo mikinn og er allur á lofti. Þeir félagarnir, Guðmundur og Sigurður, hafa líka vakið athygli á því að Hannesinn er oft erlendis þegar mikið stendur til, kosningar og slíkt. Þeir halda að hann sé tekinn úr umferð svo að hann bulli ekki og eyðileggi markmið og mögulegan árangur flokksins.

En sannleikurinn bítur auðvitað.

Berglind Steinsdóttir, 20.1.2008 kl. 10:41

10 Smámynd: Einar Indriðason

Ég kemst meir og meir á þá skoðun að það sem hrjái Ísland og íslendinga sé...... Sjálfstæðisflokkurinn, og hugsanalausir kjósendur hans sem bara mæta á kjörstaðina og setja X við réttan staf, bara af vana.  Ekki til gagnrýnin hugsun hjá þessum persónum.  Hálfgerðir svefngenglar eða Zombies.

Fínn pistill, og ég er sammála þér með þetta.

Einar Indriðason, 20.1.2008 kl. 11:18

11 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já þarna rataðist kjöftugum sannarlega satt af munni.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.1.2008 kl. 19:16

12 Smámynd: Heidi Strand

Góður pistill hjá þér Lára Hanna.

Einu sinni var sagt að ef Davíð kvefaðist þá hnerraði Hannes.

Heidi Strand, 20.1.2008 kl. 22:16

13 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Er Sjálfstæðisflokkurinn vandinn? Er ekki góður árangur að búa við bestu lífskjör í heimi, í öllum heiminum, af öllum þjóðum eða ríkjum heims, eftir sextán ára forystu Sjálfstæðisflokksins?

Annað: Eru blaðsíðurnar í sögu hamingjasamra þjóða ekki auðar, eins og spekingar hafa sagt? Er ekki miklu betra líf að græða á daginn og grilla á kvöldin en að eyða lífinu í mas og þrætur og óhamingju og sjálfskapaða erfiðleika? 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 20.1.2008 kl. 23:38

14 Smámynd: Sigurður Hrellir

Yfirleitt forðast ég öll viðtöl við HHG af ástæðum sem þú lýsir svo vel. Þó kíkti ég á þennan þátt á Stöð 2 því að mér fannst þetta svo ágætlega orðað hjá honum. Hann þekkir greinilega vel sitt fólk. Það er engin furða að flokkurinn hangi saman hvað sem á gengur ef kjörorðin eru: Græðum á daginn, grillum á kvöldin og bætum vor kjör!

Sigurður Hrellir, 20.1.2008 kl. 23:58

15 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég sé ekki að sundurleytt miðjumoð virki og á meðan vinstri menn eru á bólakafi í öfundssýki og afbrýðissemi þá sé ég ekki annan kost en Sjálfstæðisflokkinn. Það getur enginn flokkur þóknast okkur öllum. Ég þykist sjá að kvótamálin séu ekki að gera sig, en að flokkur sjái engin önnur málefni til að vinna í þá verður hann aldrei annað en sýnishorn og mér sýnist framsókn vera að sjá um sig sjálf.

XD

Högni Jóhann Sigurjónsson, 21.1.2008 kl. 00:10

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hannes:  Hvað ætlið þið að gera með hann Björn Bjarna og gendarlausa vænisýki hans, löreglu, eftirlits og hervæðingu?  Hvað finnst þér um þá síðfasísku stefnu?  Svo varðandi þetta með að græða og grilla og sjá fyrir sér og sínum.  Mér sýdist þú tafsa svolítið í viðtalinu og reyndir að segja "sjá fyrir landi og þjóð" en komst þér ekki til þess.  Ég sé það merki um einhvern snefil af heiðarleika.  Er það rétt skynjað? Var þetta kannski bara Freudean slip? (frauðinniskór eins og við köllum það hér)

Yfirlætið var svolítið yfirfljótandi þarna á grillinu í sjónvarpsal.  Ertu viss um að það sé tilefni til?  Góðærið hér er allt á lánum hér og 7-800 milljarðar í þessu litla hagkerfi af skammtímaskuldbindingum spekúlanta.  Hvar eru veðin?  Er kannski verið að sækja þau í auðlindum landsins?  Or málið virkaði sem prelude að slíku, svo ekki sé minnst á dóminn í máli hitaveitu suðurnesja.  Minnir soldið á dóminn, sem leyfði það að óveiddur kvóti yrði bókfærður og því hæfur sem veð.   Er þetta framtíðin, sem flokkurinn ætlar að bjóða upp á, að spila póker með undirstöður sjálfstæðisins? 

Sjórna Geir og Davið stýrivöxtum eða lánadrottnar úti í heimi?  Er aðalútflutningsavaran ofurvextir?  Þar liggur ástæða svokallaðs góðæris. Hér flæðir inn lánsfé frá þeim sem vilja gera út á vitleysuna. 

Ég held að ykkar agenda sé ekki þjóðarhagsmunir. Sleppi því að viðra kenningar mínar um það hér.   Ég er ekki viss um að sagan muni fara mjúkum höndum um ykkur.  Ekki bara vegna sauðdrukkinnar efnahagsstjórnunnar, heldur einnig vegna blessunar ykkar og þáttöku í blóðugum stríðleikjum mesta Terrorista frá dauða Hitlers.  Bush.

Það er ákveðin velgja í þjóðinni yfir ykkur, þótt þið séuð algerlega blindir á það. 

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2008 kl. 01:55

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég ætla að sleppa því að ræða um hlutrægar og spilltar ráningar í opinberar stöður.  Það er efni í bók.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2008 kl. 02:05

18 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég kíkti við á bloggsíðu Hólmsteinsins. Leitt að geta ekki sett inn athugasemdir þar. Líklega finnst HHG ekki ýkja áhugavert að hlusta á skoðanir hins ópólitíska Sjálfgræðismanns, hvað þá barbaranna sem stunda ljóðalestur og treysta ekki einu sinni á Foringjann.

Hannesi er greinilega annt um að fólk missi ekki af upphöfnum lýsingum sínum á átrúnaðargoðinu í Seðlabankanum. Einnig birtir hann ljómandi snotra mynd af þeim félögum þar sem þeir spáserruðu um miðbæinn á sínum tíma og "lögðu á ráðin".

Athygli mína vakti kafli úr ljósmyndaalbúmi hans sem hann kallar "Með öðrum". Þar stendur m.a. undir mynd úr kveðjuhófi DO 2005: "Eftir veisluna fórum við Björn heim til hans í Háuhlíð og rifjuðum upp eftirminnileg ár með höfuðsnillingnum Davíð." Margt er sér til gamans gert...

Sigurður Hrellir, 21.1.2008 kl. 12:14

19 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Aldeilis fínar umræður. Við vinstri menn höfum líka alltaf tekið eftir því að HHG bókstaflega gufar upp svona rétt fyrir kosningar. Á sumum heimilum er geltinn heimilishundurinn lokaður inni þegar mikið liggur við. 

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 22.1.2008 kl. 20:47

20 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Frábær pistill.

Kristjana Bjarnadóttir, 22.1.2008 kl. 22:00

21 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Dásamlegt.  Var búin að heyra af þessu til Englands, svei mér þá.  Hannes ber ekki mikla virðingu fyrir flokksfélögum sínum, enda eru þeir svo "ópólitískir" upp til hópa.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.1.2008 kl. 10:53

22 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

"Er ekki miklu betra líf að græða á daginn og grilla á kvöldin en að eyða lífinu í mas og þrætur og óhamingju og sjálfskapaða erfiðleika?"

Óskaplega heldur HHG að það fólk lifi óhamingjusömu lífi sem á sér annan tilgang í lífinu en að græða á daginn og grilla á kvöldin. Engin furða að hann skelfist slíkt líf.

Þú nefndir annan trúmann hér að ofan, sem heldur að allir þrái að komast í himnaríki eftir jarðlífið og syngja þar sálma. Ég gæti aftur á móti ekki hugsað mér hræðilegari eilífð en að dvelja í himnaríki með halelújahoppurum. Skyldu menn þar annars græða á daginn og grilla á kvöldin?

Soffía Sigurðardóttir, 24.1.2008 kl. 17:42

23 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þessi færsla þín og atburðir vikunnar hafa setið í höfðinu á mér þessa dagana. Þetta er mín leið til að losa um höfuðverkinn:

Græða á daginn og grilla á kvöldin,
Gróu þeir hitta og sögur út bera.
Hraðlygnir pésarnir hrifsa svo völdin,
hrossakaup mikil um stóla þeir gera.

Litlir og saklausir lúta þeir valdi
laun munu fá þó að biðin sé löng.
Ekkert það stoðar þó móinn í maldi
meiningin foringjans aldrei er röng.

Kærar þakkir fyrir að vekja athygli mína á þessu

Kristjana Bjarnadóttir, 25.1.2008 kl. 22:56

24 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Blessuð Lára góð grein hér.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 25.1.2008 kl. 23:13

25 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Eins og skrifað út úr mínu eigin hjarta, takk Lára Hanna, nema þú ert betri

Eva Benjamínsdóttir, 26.1.2008 kl. 03:03

26 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið þakka ég ykkur öllum innlitið og gaman er að heyra undirtektirnar. Ég hef líka orðið vör við að vitnað sé í þennan pistil á öðrum bloggsíðum og jafnvel afritað úr honum og birt. Þannig finnst mér að bloggið eigi að vera. Það styrkir umfjöllunarefnið og vekur meiri athygli á því og ég fagna því mjög. Eins er ég alsæl með nýja bloggvini sem bæst hafa í litla hópinn minn í framhaldi af þessum pistli.

Ég var aftur á móti undrandi að sjá Hannes Hólmstein líta inn á mína óþekktu, ungu bloggsíðu en reikna með að hann fylgist með öllum síðum á Netinu þar sem nafnið hans kemur fyrir. En ekki var innleggið hans merkilegt.

Vísurnar hennar Kristjönu finnst mér frábærar - takk fyrir þær!

Hannes Hólmsteinn er öfgafullt dæmi um pólitískan ofsatrúarmann. En þeir eru til í öllum flokkum og verja gjörðir sinna manna fram í rauðan dauðann, sama hve siðspilltar þær eru. Þó virðast sumir taka öðrum fram í þeim efnum og á ég þá bæði við menn og flokka.  

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.1.2008 kl. 15:22

27 identicon

Þetta staðfestir það sem ég hef margoft hugsað og sagt. 

Það sem mér finnst þó sorglegast er að ég sá þátt á þýsku sjónvarpsstöðinni ARD um uppgöngu Adolfs nokkurs Hitlers og þar kvörtuðu einmitt sagnfræðingar undan því að almenningur treysti honum og forystunni í blindni og trúðu því sem þar var prédikað.  Var ekkert að hugsa um afleiðingarnar heldur eigin batnandi hag.

Nú er ég ekki að jafna þessa tvo hópa saman en það er alltaf gott að skoða allt með gagnrýnum augum og meta hlutina sjálfur í stað þess að láta segja sér hvað maður á að halda. 

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 19:49

28 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

dásamlegur pistill

Brynjar Jóhannsson, 28.1.2008 kl. 18:34

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það var magnað að sjá þennan pistil þinn Högni. Þú ert sko ekki maður sem lætur hræra í sér.

Ég vona bara að Hannes H. hafi séð þetta og viti að þú ert traustur og þú hlustar á hann.

Árni Gunnarsson, 1.2.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband