Áskorun til umhverfisráðherra

Eftirfarandi var sent umhverfisráðherra og fjölmiðlum í morgun:

Ágæti umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir,

Í ljósi umræðna sem fram hafa farið undanfarna daga um hugsanlegt álver í Helguvík og yfirlýsinga sveitarstjórans í Garði, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og talsmanna Norðuráls viljum við koma á framfæri yfirlýsingu og áskorun til umhverfisráðherra.

Stofnað var til vefsíðunnar http://www.hengill.nu/ í lok október 2007 til að vekja athygli almennings á fyrirhugaðri Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi og afleiðingum fyrir ómetanlega náttúruperlu í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það heppnaðist svo vel að aldrei í Íslandssögunni hafa borist eins margar athugasemdir við neinni framkvæmd, eða tæplega 700.

Málinu er ekki lokið, erfiðar ákvarðanir eru fram undan og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálar skynsemi og náttúruverndar. Náttúran á alltaf að njóta vafans.

Með von, vinsemd og virðingu,
Petra Mazetti,
Lára Hanna Einarsdóttir,
Katarina Wiklund

-----------------------------------------------------------------------------------

Ölkelduháls ber að vernda sem útivistarsvæði en ekki spilla með virkjun fyrir hugsanlegt álver Norðuráls í Helguvík

Umhverfisráðherra taki af skarið  

Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar vegna álvers í Helguvík er Ölkelduháls eitt þeirra háhitasvæða  sem fórnað yrði ef áform um álverið ná fram að ganga. Sú fórn væri með öllu óréttlætanleg.

 Ölkelduháls og umhverfi hans er dýrgripur á náttúruminjaskrá og það ber að virða.

Því skorum við á umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að sjá til þess að framkvæmt verði heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og allar tengdar framkvæmdir að Bitruvirkjun meðtaldri og vísum þar í kæru Landverndar.
 

Þrátt fyrir að mjög mikil óvissa ríki bæði um orkuöflun og orkuflutninga fyrir álver í Helguvík er að skilja á yfirlýsingum Garðs og Reykjanesbæjar að til standi að hefjast handa við byggingu álversins fljótlega.  Sú fyrirætlan er beinlínis til þess fallin að setja ómaklegan þrýsting á önnur sveitarfélög sem hlut eiga að máli.

Slíku verklagi ber að afstýra með öllum tiltækum ráðum.

Aðeins lítill hluti orkunnar sem til þarf, eða u.þ.b. 20%, er í landi Reykjanesbæjar en enga orku er að finna í Garði.  Ásælni sveitarfélaganna tveggja í auðlindir annarra tekur út yfir allan þjófabálk og við slíkan framgang er ekki hægt að una. Ítrekaðar ábendingar Skipulagsstofnunar um að eyða þurfi óvissu um orkuöflun og orkuflutninga áður en framkvæmdir hefjast eru að engu hafðar með yfirlýsingum sveitarfélaganna tveggja og talsmanna Norðuráls undanfarna daga.

  

Aðstandendur síðunnar www.hengill.nu sem sett var upp til bjargar Ölkelduhálsi og nágrenni

Petra Mazetti, Lára Hanna Einarsdóttir, Katarina Wiklund


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gott mál.  Verndum náttúruna. 

Anna Einarsdóttir, 21.2.2008 kl. 23:28

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þið eigið heiður skilinn fyrir framtakið .

Kristjana Bjarnadóttir, 22.2.2008 kl. 16:21

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Er ekki skylda umhverfisráðherra að láta framkvæma heildstætt umhverfismat - eða hvað? Þá finnst mér að Ríkissjónvarpið ætti að gera nokkra klukkutíma langa fréttaskýringaþætti, þar sem þessi stóriðju/virkjanamál yrðu tekin fyrir á fagmannlegan hátt og öll sjónarmið kæmu fram. Það gengur ekki lengur að mata þjóðina á einhverjum Kastljósgraut endalaust...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 22.2.2008 kl. 22:14

4 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Það má ekki búta stóriðu og orkumál niður í smábúta sem heyra undir sinn aðilann hver og engin heildarsýn. Einn hreppur samþykkir verksmiðjuna og annar hreppur samþykkir virkjunina. Og þar á ofan samþykkir virkjanahreppurinn hverja virkjunina á fætur annarri eins og þær séu sitt smámálið hver, en ekki ein stór heildarmynd. Þegar Hellisheiðarvirkjun fór í umhverfismat, var það umfang sem þar var kynnt, mun minna en það er nú þegar og ennþá minna en stefnt er að. Svona nokkuð mega menn bara alls ekki komast upp með!

Soffía Sigurðardóttir, 23.2.2008 kl. 05:46

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Baráttukveðjur

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.2.2008 kl. 10:25

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir framtakið sem ég styð heilshugar.  Illu heilli virðast stóriðjur eða stóriðjutengd atvinnustarfsemi vera töfraorðið þegar kemur að framtíð eylandsins. Heilu byggðarlögin eru teiknuð inní þá drungalegu framtíðarsýn að þau séu  búin að vera ef ekki komi til stóriðja einshverskonar.  Með þessum dauðadagsáróðri dregur smám saman af fólki og eftir stendur stór hluti þjóðarinnar og biður um ál eða aðrar álíka geðslegar lausnir. Fyrir þennan hugsanagang fær síðan náttúran, okkar dýrmætasta eign að líða, oft þannig að ekki verður úr bætt. Ég hef verið að fylgjast með því hvernig stjórnsýslan tekur á öðrum þáttum náttúruverndar og því miður hafa viðbrögð Þórunnar Sveinbjarnardóttur við fyrirspurnum mínum varðandi mjög alvarleg náttúruverndarmál, ekki verið með þeim hætti að ég búist við miklu úr þeim garði. En ég fagna baráttunni, er ákveðinn í að taka þátt í henni þar til ég geyspa golunni. Og svona til að skerpa aðeins á mikilvægi umræðunnar þá var býsna merkileg frétt í einu af dagblöðunum í morgun þar sem varað var við áti á Þingvallaurriðanum vegna kvikasilfurmengunar.

Pálmi Gunnarsson, 23.2.2008 kl. 12:28

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlitið, öllsömul.

Því miður er ekki gert ráð fyrir að gert sé heildstætt umhverfismat framkvæmda, þannig að horft sé á afleiðingar t.d. stóriðju í einhverju samhengi. Í tilfelli Helguvíkurálvers þyrfti í stórum dráttum að líta á virkjun, háspennulínur og verksmiðju sem samtengda framkvæmt, en það er ekki gert heldur tekin hver þáttur fyrir sig án tillits til hinna. Þetta eru hrikaleg vininubrögð sem ættu alls ekki að líðast og alls ekki það eina sem er mjög ábótavant í t.d. lögum um umhverfismat.

Takk fyrir ábendinguna með urriðann, Pálmi. Ég var búin að sjá forsíðuna á 24 stundum en ekki greinina á bls. 6. Meira um þetta mál seinna. Forvitnilegt væri að vita hvaða náttúruverndarmál þú hefur verið að spyrjast fyrir um.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.2.2008 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband