Hroki, siðblinda, spilling og ósnertanleiki

Árni MathiesenAllir vita hvað gengið hefur á með umdeilda stöðuveitingu á vegum Árna Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra gagngert til að veita stöðuna "réttum" manni. Nýjasta útspil Árna er að sýna Umboðsmanni Alþingis yfirgengilegan hroka og draga fagmennsku hans í efa til að kasta rýrð á væntanlegt álit Umboðsmanns, sem Árni veit mætavel að verður sér í óhag.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, var í löngu og fróðlegu viðtali í Speglinum í gær um málið. Gunnar Helgi sagði meðal annars: "Það er náttúrulega hlutverk Umboðsmanns Alþingis að lenda í árekstrum við framkvæmdavaldið... og hann á að gera það. Og hann verður auðvitað að fá skilyrði til að sinna því starfi almennilega. Þannig að vandinn kemur kannski aðallega upp - eftir að Umboðsmaður hefur látið í ljós skoðun á einhverju - ef framkvæmdavaldið er ekki tilbúið til að hlíta því á einhvern hátt. Þá kemur upp sú staða að Umboðsmaður er auðvitað ekki dómari. Umboðsmaður er álitsgjafi og það eru á endanum engir aðrir en dómstólar sem geta kveðið upp dóma sem framkvæmdavaldinu ber að hlíta. Sú staða sem kemur upp ef framkvæmdavaldið hafnar túlkun Umboðsmanns... það er þá fyrst og fremst það, þá þarf kannski að reyna á þetta fyrir dómstólum ef það er mögulegt. En það er auðvitað ekki alltaf mögulegt. Til dæmis eru ráherrar í þannig stöðu að um lögsókn gegn þeim gilda alveg sérstakar reglur... um lögsókn gegn þeim samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, það er að segja. Þá þarf þingið að kæra, meirihluti þingsins þarf að kæra. Þá er kallaður saman sérdómstóll, landsdómur, sem er skipaður á alveg sérstakan hátt. Það segir kannski vissa sögu um hversu effektíft það fyrirkomulag er, að landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi."

Fréttamaður: "En það sem er kannski sérstakt við þetta mál, sem við erum að ræða er það, að áreksturinn kemur upp áður en Umboðsmaður kveður upp úrskurð."

Gunnar Helgi: "Já, þetta er mjög óvenjulegt að eitthvað af þessu tagi komi upp."

Fréttamaður: "Er það ekki bara fordæmislaust?"

Gunnar Helgi KristinssonGunnar Helgi: "Ég held að þetta sé fordæmislaust, ég veit ekki betur. Hér gerist það að ráðherrann ýjar að því í innganginum að bréfi sínu að Umboðsmaður sé í raun og veru búinn að gera upp skoðun sína og að eiginlega hafi það þá engan tilgang að svara spurningum hans. Þetta er hins vegar ekki í sjálfu sér rökstutt neitt sérstaklega í bréfinu. Það er vísað svona til þess að það sé ákveðinn tónn í spurningunum og þess háttar. Þá leiðist maður til að halda að þetta sé pólitískt útspil hjá ráðherranum. Að hann sé í raun og veru búinn að reikna stöðuna þannig að það séu líkur á því að Umboðsmaðurinn muni gagnrýna hann í sínu áliti og er þá að undirbúa jarðveginn fyrir það, að í raun og veru hafi ekki verið hlustað á röksemdir ráðuneytisins eða ráðherrans"

Gunnar Helgi segir jafnframt: "Ráðherrann auðvitað, hann er að búa sig undir það, geri ég ráð fyrir, að fá hugsanlega gagnrýni frá Umboðsmanni. Auðvitað er það slæmt í jafnmiklu deilumáli og þetta mál er, auðvitað er það slæmt að fá á sig gagnrýni frá Umboðsmanni og það eru vissir hnekkir fyrir ráðherra. Hvernig hann spilar úr því er auðvitað eitthvað sem hann verður að sjá fram úr en virðist svona vera að undirbúa þá vörn einhvern veginn með þessum ummælum - eða ég get ekki séð annað."

Fréttamaður: "Umboðsmaður ber ábyrgð gagnvart Alþingi. Ætti svona mál einhvern veginn að koma til kasta Alþingis eða forsætisnefndar Alþingis. Er þetta eitthvað sem það eða hún ætti að fjalla um eða taka á?"

Gunnar Helgi: "Ja... í raun og veru hefur Umboðsmaður ekkert sérstakt vald til að knýja fram aðgerðir Alþingis. Alþingi er ekki bakhjarl hans í þeim skilningi. Það eru í raun og veru flokkarnir, og þá meirihlutaflokkarnir á hverjum tíma, sem ráða Alþingi. Ráðherra situr náttúrulega í skjóli þeirra. Þannig að... álit Umboðsmanns er miklu mikilvægara sem hluti af mótun almenningsálitsins heldur en að móta einhverjar stjórnvaldsaðgerðir áður en auðvitað dómstólar hafa kveðið upp sinn úrskurð."

Ég fæ ekki betur skilið af orðum Gunnars Helga en að ráðherrar séu ósnertanlegir. Til að koma lögum yfir þá og láta þá axla ábyrgð á gjörðum sínum í ráðherrastól þarf meirihluti Alþingis að kæra - meirihluti sem samanstendur meðal annars af flokksfélögum ráðherra sem veittu honum embættið. Getur einhver séð fyrir sér að slíkt gerist hér á landi? Ráðherrar geta því sýnt valdhroka og misnotað vald sitt að eigin geðþótta án þess að neinn fái rönd við reist. Stjórnmálamenn treysta því að almenningur verði búinn að steingleyma misgjörðum þeirra og valdníðslu fyrir næstu kosningar og auðvelt verði að sveigja og beygja atkvæðin og beina athygli þeirra annað.

Verður raunin sú eða mun hin opna umræða á blogginu breyta einhverju?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir alveg snilldarlegan pistill! ég hef sjálfur verið að skrifa um ýmasa ráðherra. Það eru fleiri ráðherrar með allt á hælunum í embættum sínum. Þú getur kíkt á það ef þú nennir og séð hvort ég sé að far með einhvreja vitleysu. Það vill svo til að ég á skjöl sem sem sanna hvejir standa að baki þessarri "hemabökuðu" gjaldfellingu, enda búin að heyra ýmsa "hvítflibbaglæpamenn" útskýra aðferðarfræðina sem notaaðar eru í hlutabréfasvindi og hnaða aðferðum er beitt til að búa til gengisfellingu svo hægt sé að græða á henni...Takk aftur fyrir fróðlegan pistill..

Óskar Arnórsson, 28.3.2008 kl. 20:45

2 identicon

Ég hlustaði á Spegilinn og fannst rétt eins og þér margt athyglisvert koma þarna fram. Það sem mér finnst bera meira og meira á hjá þeim sem fara með ráðherravald er einmitt það sem hún Þórhildur kallaði svo ágætlega viðeigandi nafni í Kastljósinu í kvöld, þ.e. stjórnríki. Hún benti á hvað það væri orðið mikið áberandi og hvað lýðræðið okkar væri í raun vanþróað. Afleiðingin af þessu stjórnríki finnst mér birtast svo ljóslega í athöfnum Árna Mathiesen, hann virðist alveg hafa misst tengslin við umhverfi sitt, virðist bara lifa í einhverjum heimi þar sem hann má gera og segja alt sem honum sýnist.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 20:59

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ráðherra sagði eitthvað á þá leið að Umboðsmaður Alþingis væri búinn að móta niðurstöðuna fyrirfram, en er það ekki einmitt það ráðherrann er grunaður um? Niðurstaðan í sambandi við ráðningu Davíðssonar var nefnilega alltaf mótuð fyrirfram sama hverjir aðrir áttu eftir að sækja um. Hver er það annars sem stjórnar þessu landi?

Emil Hannes Valgeirsson, 28.3.2008 kl. 21:34

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill.

Hólmdís Hjartardóttir, 28.3.2008 kl. 22:39

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir frábæran pistil. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.3.2008 kl. 22:48

6 Smámynd: Jens Guð

  Við þurfum að gefa Árna Matt tíma og svigrúm.  Hann upplifir sig sem afkróað óargadýr.  Af frumstæðum hvötum bregst hann við með hroka,  kjafthætti og bulli að hætti óagaðs einræðisherra sem hefur engan skilning á lýðræði,  sanngirni og leikreglum þróaðs vestræns samfélags.

  Viðbrögð Árna við gjörspilltri stjórnsýslu hans eru taugaveiklunarviðbrögð þess sem nær ekki að höndla yfirvegaða hugsun.  Gefum honum tíma og svigrúm til að hugsa og ná áttum.   

Jens Guð, 28.3.2008 kl. 23:17

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ráðherrar geta misnotað það vald sem kjósendur fela þeim. Það er síðan undir okkur komið hvort áframhald verður á slíkri misnotkun.

Enn einu sinni veðjar ákveðinn stjórnmálaflokkur á stutt pólitískt minni kjósenda. Finnst mér felast í því lítilsvirðing, trú á að fólk sé fífl.

Kristjana Bjarnadóttir, 28.3.2008 kl. 23:37

8 identicon

Það er ansi oft sem manni verður hugsað til líkingarinnar um bjálkann og flísina þessa dagana.

Þessi skrif þín Lára Hanna hér  t.d., núast um skrif annars.  Það er greinilegt að þú leyfir þér þann munað að setja sjálfri þér önnur siðferðisviðmið en þú krefst af honum.  Bara með fyrirsögninni  einni saman („Hroki, siðblinda, spilling og ósnertanleiki“) tekst þér að opinbera sjálf, alla þá siðgæðisbresti sem þú vænir þann sem gagnrýni þín beinist að um að gerast sekur um, í skrifum sínum og eru þau þó mun hógværari.

Þú meinar honum jafnframt um þann rétt, sem þú sjálf veitir þér hér hömlulaust, að lýsa skoðun sinni á orðum og gjörðum annars og það þótt með tiltölulega hógværum hætti  sé af hans hálfu, a.m.k. sé miðað við það orðfæri sem bæði þú notar og hér á síðunni er víða notað um hann.

Það er svo einstaklega þægilegt að gagnrýna ef maður bara setur sjálfum sér lægri siðgæðisþröskuld en maður setur þeim sem maður ætlar taka í kennslustund í siðgæði.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 23:42

9 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég tók mig til & setti inn athugasemd um þetta á <anno> bloggi í gær eftir hennar færslu um sama mál.  Breyti ekkert um mína skoðun frá degi til dags, frekar en að endurtaka frekar en gæsir.

Steingrímur Helgason, 29.3.2008 kl. 00:00

10 Smámynd: Bumba

Uss uss usss,  mann setur nú bara hljóðan. Og enginn endir virðist vera á þessu. Með beztu kveðju.

Bumba, 29.3.2008 kl. 08:34

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hversvegna eru málsmetandi menn að reyna að hindra málfrelsi ráðherra ?
Spurningar umboðsmanns vekja vissulega upp spurnigar um hlutleysi hans, er hann kanski búinn að gera upp hug sinn ? -
Ég er sammála GÞÞ að menn lesi spurningar og myndi sér skoðun út frá því. 
Umboðsmaður alþings er í pattstöðu.

Hefðbundinn pistill frá vinstrimanni.

Óðinn Þórisson, 29.3.2008 kl. 09:34

12 identicon

Takk, Lára Hanna fyrir feykilega góðan pistil. Alþjóð ætti að vera orðin þreytt á dýralækningum ríkisstjórnarinnar, ekki síst Árna. Stundum veltir maður því fyrir sér af hverju landinn lætur allt yfir sig ganga.  Sjáið verðlag á landinu. Ekki heyrist nema í fáeinum sálum yfir öllu svínaríinu sem þar þrýfst.  Að fjármálaráðherra skuli haga sér svona er ólíðandi.  Hvað hefur þessi maður skilið eftir sig?  Ef þið horfið á manninn skín við okkur hrokasvipur og yfirlæti, sem aftur segir að maðurinn er kominn út á hálan ís og kann ekki að snúa sér við og koma sér í land.  Veður bara áfram og blindni og hroka og trú á eigið ágæti.   Hvernig í veröldinni er hægt að bera virðingu fyrir svona manni?   Hvernig á fólk að bera traust til svona manns?  Málið er að hann hagar sér eins og að ráðherrastóllinn sé hans fyrir lífstíð og að hann þurfi akkúrat ekkert að gera til að sanna burði sína til að sitja í þessum stól.  Enda hefur hann ekki gert það.  Hann er dýralæknir að mennt en fjandinn hafi það .... ég færi ekki með mín dýr til hans.  Traust mitt er ekkert á manninum né trú.  Hann ætti,  áður en syrtir meira um hann,  að segja af sér.  En hvað sem hann gerir verður hans ekki mynnst sem skörungs á einn eða annan hátt.  Hann hefur brennimerkt sig og mannorð sitt fyrir líftíð.

Sig. R. Þórarinsson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 11:16

13 identicon

Þessi 15 færsla undirstrikar í hnotskurn það sem ég var að benda á hér að framan; gott að þurfa ekki að sýna af sér vott af siðgæði sjálfur, en krefjast þess bara að aðrir sýni það.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 11:35

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Um hvað snýst þetta mál? Ráðherra slær fram þeirri ályktun að Umboðsmaður sé búinn að mynda sér skoðun á þessari ráðningu. Það finnst mér nú reyndar fremur líklegt. Ég hef engan hitt sem ekki er fyrir löngu búinn að mynda sér skoðun á þessu dæmalausa máli sem ég fæ ekki séð að flokkist undir mjög mikið álag á dómgreindina.

Með því að setja Þorstein Davíðsson tveim þrepum lægra en þrjá aðra umsækjendur var í raun búið að útiloka hann frá stöðunni. Þetta gerði valinn hópur reyndra og virtra lögmanna. Til að hnekkja þessu þurfti afar sterk rök.

Þau rök sem ráðherrann beitir eru þau að þessi hópur hafi barasta ekki þekkt þann bakgrunn sem drengurinn hafði. Þar vegur þyngst að hafa aðstoðað dómsmálaráðherra við að afla sér dómsáfellis vegna skipunar í embætti!

Hver skyldi svo hafa ráðið Þorstein í starf þessa aðstoðarmanns,- kannski vinstrii grænir? Enginn man til þess að hann hafi unnið þarna embættisleg kraftaverk. Og þegar hann hvarf frá þessu starfi þurfti engan að ráða í hans stað!

Ég treysti því öðru jöfnu að fagþekking sé einhvers virði. Þess vegna myndi ég ekki hringja í hæstaréttardómara ef kýrin mín þyrfti aðstoð við burð. Ekki dytti mér heldur í hug að vísa viðkvæmu álitaefni um lögfræðilega réttarstöðu mína til dýralæknis.  

Árni Gunnarsson, 29.3.2008 kl. 11:59

15 identicon

Það er einu sinni svo að menn lenda alltaf upp á kant. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn séu alltaf sammála um alla hluti svona eins og sænskurinn. Því fer fjarri að málflutningur Árna hafi verið yfirgengilegur. Hann einungis beindi spjótum sínum að spurningum Umboðsmannsins og það með mjög hvössum hætti. Sé bréf Umboðsmannsins skoðað þá er ljóst að hann er mjög beinskeyttur í sínum spurningum og því eðlilegt að svar sitjandi ráðherra sem fer jú með ráðherravald beiti sér og sinni stöðu. Hefur það eitthvað með siðgæði að gera þegar menn fara eftir sannfæringu sinni. Hefði Árni ekki getað skipað einhvern annan og farið gegn eigin sannfæringu. Hefði það verið betra? Hvers lags ráðherra væri hann? Það að prófessor vestur á melum hafi uppi sína skoðun er svo sem líka ágætt en það má ekki gleyma því að embættið er ekkimjög gamalt og er enn í mótun og auðveld að segja að þetta sé fordæmalaust.

mummi (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 12:10

16 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góður pistill hjá þér Lára.. annars er magnað hvað "hægri" menn eru tilbúinir til þess að þægjast yfirvaldinu í einu og öllu.. hafa þeir ekki sjálfstæða hugsun ?

Óskar Þorkelsson, 29.3.2008 kl. 12:29

17 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Mjög góð færsla; málegnaleg og rökstudd.

Fyrir nokkrum árum var ég stödd með Árna á fundi í Svartsengi um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Það voru áhugamenn um tvöföldun brautarinnar sem gengust fyrir fundinum og mætti ÁRNI S

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 29.3.2008 kl. 16:12

18 Smámynd: Brattur

... það hefur verið þannig í seinni tíð að ef að einstaklingur eða stofnun (fyrirtæki) truflar valdhafana á einn eða annan hátt, þá finnst þeim sem valdið hafa, best að leggja stofnunina niður, eða þá þeir segja að viðkomandi einstaklingur sé bara heimskur og vitlaust og eigi bara að finna sér eitthvað annað að gera...

... gjörsamlega óþolandi framkoma...

Brattur, 29.3.2008 kl. 16:18

19 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Afsakið mistökin hér að framan. Það sem ég ætlaði að segja, áður en tölvan tók af mér völdin, var eftirfarandi:

Fyrir nokkrum árum var ég stödd á fundi með Árna þar sem rætt var um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Árni gegndi stöðu dómsmálaráðherra, frekar en samgönguráðherra (man ekki hvort umferðarmálin voru farin yfir til samgönguráðuneytisins á þeim tíma) í forföllum þess ráðherra sem fór með málaflokkinn. Það var áhugafólk um tvöföldun brautarinnar sem stóð fyrir fundinum og hafði óskað eftir því að fólk, sem slasast hafði alvarlega á brautinni, mætti á fundinn. Ég fékk vinkonu mína, Aðalbjörgu Guðgeirsdóttur, til að mæta með mér á fundinn en hún lamaðist neðan mittis eftir slys við Kúagerði á árum áður. Auk þess lánaði ég myndband til sýningar á fundinum þar sem fórnarlömb brautarinnar lýstu reynslu sinni.

Þegar kom að sýningu myndbandsins, stóð Árni upp og gekk á dyr eftir að hafa lýst þeirri skoðun sinni að hann hefði haldið að þessi fundur ætti ekki að snúast um tilfinningamál. Það er í fyrsta og eina skiptið á lífsleiðinni sem ég hef beinlínis séð stjörnur af reiði. Ráðherrann gat sem sagt ekki þolað að fjallað yrði um afleiðingar umferðarslysa og fyrst fundarstjóri hélt sig við dagskrána, gekk Árni á dyr framan við suðandi sjónvarpsvélarnar. Ég þarf varla að taka fram hvaða álit ég hef á manninum og þess vegna kemur mér ekki á óvart hvernig hann hefur hegðað sér núna.

Hvað eigum við lengi að þurfa svona viðbrögð hjá æðstu stjórnendum landsins?

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 29.3.2008 kl. 16:22

20 Smámynd: Bumba

Uss uss, ljótur lestur. En frábær pistill. Ég er sammála hverju orði. En skrýtið að enginn skuli geta leiðrétt ráðherra já eða ríkistjórn hérna eins og í öðrum lýðræðisríkjum. Sérkennilegt. Með beztu kveðju.

Bumba, 29.3.2008 kl. 19:13

21 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlitið, öllsömul. Eins og Hallgerður segir þá holar dropinn steininn svo við megum ekki láta deigan síga og ræða ótrauð þau mál sem brenna á okkur. Bloggið er lesið og það getur haft áhrif á umræðuna.

Hlustið endilega á þáttinn Vikulokin á Rás 1 í morgun, laugardagsmorgun. Hann er hér. Lokaumræðan þar er einmitt þetta mál og þar er ekki farið mjúkum höndum (orðum) um ráðherra. Þar er líka önnur umræða sem ég á alveg eftir að taka, en ætla að byrja á í næstu færslu.

Sigurjón Pálsson: Þessi skrif mín snúast um miklu, miklu meira en bara skrif einhvers annars. Hún snýst um valdníðslu, hroka, spillingu og siðblindu. Svona þér að segja er ég blessunarlega laus við alla þessa mannkosti, en ég hef heldur aldrei setið á neinum valdastóli. Ég meina honum alls ekki um neinn rétt, síður en svo. En Árni er ráðherra sem í opinberu plaggi vænir flekklausan, hlutlausan embættismann um annarlegar hvatir, til þess eins að klóra í bakkann og beina athygli manna frá eigin klúðri. Ábyrgð hans er mikil en hann stendur ekki undir henni.

Óðinn Þórisson: Þetta mál snýst bara alls ekki um málfrelsi. Það snýst um pólitískt misferli og afglöp ráðherra sem að auki reynir að sverta mannorð embættismanns og með því að gera úrskurð hans að engu, því ráðherra veit upp á sig sökina. "Hefðbundinn pistill frá vinstrimanni" segirðu - og átt væntanlega við pistilinn minn. Það er alrangt. Þetta er hefðbundinn pistill frá manneskju með ríka réttlætiskennd.

Ég vil heldur taka mark á hinum ópólitísku sérfræðingum sem hafa tjáð sig um þetta mál en stjórnmálamönnum. Þeir hafa engra hagsmuna að gæta og tala út frá þekkingu sinni og siðferði.

Annars get ég alveg viðurkennt að Árna er vorkunn. Honum var att í þetta af samráðherrum sínum sem vissu mætavel fyrirfram að þessi embættisskipun yrði gríðarlega umdeild og umtöluð, og að sá ráðherra sem fremdi verknaðinn yrði jafnvel ekki lengi í pólitík eftir það. Sú staðreynd að Árni hafi verið notaður til verksins segir mér aðeins eitt: Frama hans í stjórnmálum fer senn að ljúka. Og ég þykist vita hver á að taka hans sess.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 00:42

22 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Flottur pistill hjá þér Lára Hanna eins og alltaf. Og takk fyrir það.  - Ég tjáði mig svo rækilega um þetta, á blogginu hennar Jennýar, svo ég ætla að láta það duga,- í bili.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.3.2008 kl. 02:03

23 identicon

Þessi færsla þín er skrifuð til að gagnrýna Árna fyrir svar hans til Umboðsmanns Alþingis.  Á því leikur enginn vafi.  Það sem sló mig hins vegar við lesturinn var það að þú ferð mun svæsnari orðum um Árna en hann um Umboðsmann Alþingis.  Og þú virðist telja þig telja þig þess fyllilega umkomin.  Hvað gerir það þig?  Eitthvað betri en Árna?  Öllu verri, ef dæma ætti af orðfæri ykkar einu saman. 

Þú ákveður að gefa sjálfri þér til siðferðilegt svigrúm til að ausa svívirðingum yfir Árna vegna svars hans, því það að segja opinberlega að hann sé haldinn  &#132;valdníðslu, hroka, spillingu og siðblindu&#147;  get ég ekki  kallað annað en svívirðingar.  Að þessu sögðu verður ekki ekki litið öðruvísi á en að þú sért haldin samskonar siðferðisbrestum og þú vænir Árna um að hafa,  þótt fyrsta og þriðja orðið í gæsalöppunum geti e.t.v. ekki átt við um þig &#150; að eigin sögn amk.

Við það að gerast ráðherra fyrirgerir enginn maður rétti sínum til að bregðast við, finnist honum hann beittur órétti, sama hver slíkt gerir því enginn er hafinn yfir gagnrýni.  Það virðist þú hins vegar gefa þér að umboðsmaðurinn sé og kallar ábendingu Árna í svari sínu &#132;yfirgengilegan hroka&#147;.

Ástæða þessara athugasemda minna er fyrst og fremst sú að mér ofbýður hvernig tíðkast orðið sumstaðar a.m.k. að bloggarar og gestir þeirra kasta frá sér öllu siðgæði og eys svívirðingum yfir fólk einkum þó og sér í lagi opinberar persónur, sem fólk heldur greinilega að það hafi óheft veiðileyfi á.  Í þessu sambandi má t.d. einnig vísa til 15. athugasemdar, sem Sig. R. Þórarinsson skrifar undir. 

Að skilja eftir sig slíkan úrgang á almannafæri telst sóðaskapur en gefur auðvitað um leið vitnisburð um snyrtimennsku bloggsíðunnar.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 02:57

24 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sigurjón Pálsson og Óðinn Þórisson eru greinilega mjög foringjahollir eins og prófessor nokkur sagði: "Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir...". Samkvæmt skilgreiningu hans hugsa þeir heldur ekki mikið um pólitík og velti ég því fyrir mér hvort það sé þeim ofviða að einhver vogi sér að gagnrýna foringjann. Það gefur auðvitað augaleið að slíkar "svívirðingar" komi frá vinstrimanni.

Reyndar grunar mig að þeir sem eru uppteknir af því að raða flokkum og fólki á skalann frá vinstri til hægri komist í töluverðan vanda. Sjálfstæðismenn hafa lengi vel talið sig eiga sætið lengst til hægri en áralangt samstarf við Framsóknarflokkinn hefur líklega leitt þá afvega í hægrimennskunni. Þeir vilja "bæta kjör sín og sinna" sama hvað það kostar og gefa lítið fyrir röksemdir og mótbárur helstu lögspekinga þjóðarinnar.

Er ekki bara kominn tími á stofna raunverulegan hægri flokk sem vinnur með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki bara fólks sem er upptekið af því að "græða á daginn og grilla á kvöldin"??

Sigurður Hrellir, 30.3.2008 kl. 11:25

25 identicon

Bíddu hægur Sigurður!   Hver er upptekinn við það að raða niður á hægri - vinstri skalann hér? 
ÞÚ byrjar á því og vitnar í einhvern ónefndan prófessor til styðja einhverja kolranga skilgreiningu þína á mér. 

Ég kannast ekki við að eiga neinn einn foringja í pólitík enda óflokksbundinn og alls ekki  Árna Mathiesen enda er hann hvorki foringi í sínum flokki né mínu kjördæmi.  Þú býrð mér til einhverja hillu sem hentar þér, en ég kannast alls ekki við, og gagnrýnir mig svo út frá henni. 

Þegar núllpúnkturinn er vitlaust stilltur kemst maður alltaf að rangri niðurstöðu og það gerir þú hér. 

Til einskis er að rökræða við þá sem eru vitlaust stilltir en samt bæti ég því við að ef ég segði þig haldinn &#132;valdníðslu, hroka, spillingu og siðblindu&#147; værir þú í mínum huga geðluðra ef þú sætir undir því athugasemdalaust og án þess að kalla það amk. svívirðingar af minni hálfu.  

Það eina sem ég gerði í athugasemdum mínum hér var að gagnrýna það að til slíkara svívirðinga sé almennt gripið á bloggsíðum, sama af hverjum og um hvern það er.  Sá/sú er það gerir verðskuldar sjálfur slíkar ávirðingar.

Ef þú og þess vegna bloggarinn, eruð ósammála mér,  þá segið þið það bara hér.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 19:35

26 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég ætla ekki að skattyrðast við þig, Sigurjón Pálsson. Við náum seint saman að því er virðist því við hugsum ekki á sömu nótum. Ég vil kalla hlutina sínum réttu nöfnum og fara ekkert í felur með þá, en það telur þú örgustu svívirðu og dónaskap. Í þínum huga verða þeir alltaf "vitlaust stilltir" sem eru ekki sammála þér, en ekki veit ég hvort þú hefur þann þroska að geta verið sammála fólki um að vera ósammála og láta þar við sitja.

Að lokum langar mig að benda þér og öðrum á bráðskemmtilegan og meinhæðinn pistil sem segir mikla sögu og sýnir djúpan skilning á sálarlífi og viðhorfum fjármálaráðherra. Pistillinn er hér, er frá 28. mars og heitir "Ómaklega vegið að fjármálaráðherra". Góða skemmtun.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 22:14

27 identicon

Það að geta ekki komið frá sér andmælum og gagnrýni nema nota gífuryrði og svívirðingar í garð annarra, sama hverjir í hlut eiga, er ekki eftirsóknarverður "þroski" að mínu mati.  Þar greinir okkur verulega á  - fyrst og fremst. 

Ég er hins vegar í stórum dráttum sammála þér varðandi ófremdarástandið í höfuðborginni okkar og sumt sem fram hefur komið á bloggsíðu þinni hefur varpað nýju ljósi á grundvallarþætti hvað varðar "stefnuna" í þeim málum.  Ég t.d. var þeirrar skoðunar að margir þessara "skúra" mættu missa sín en eftir að hafa hlustað hér á Sigmund, fyrst og fremst, sem ég missti af í Silfrinu, hefur skoðun mín á því breyst.  Það get ég þakkað þínu bloggi og vil nota tækifærið og geri það hér með.

Þetta með að vera vitlaust stilltur átti við um Sigurð Hr. Sigurðsson, sem bjó mér fyrst til bás eftir sinni hentisemi og gagnrýndi mig síðan út frá þeim forsendum.  Forsendum sem ég kannaðist ekki við að pössuðu við mig að neinu leiti.  Það kalla ég að stilla 0 punktinn vitlaust og þeir sem það gera fá ætíð vitlausa niðurstöðu, sama hvað þeir vanda sig.  Það var kannski alltaf meiningi hjá honum.

Ég kann heldur ekki við þannig málatilbúning.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 08:58

28 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sigurjón,

þú ert upptekinn af því að saka fólk um dónaskap og svívirðu og líkir skrifum sumra við sorp og sóðaskap. Gott og vel. Ég tek engu að síður undir með Láru Hönnu að nefna ber hlutina réttum nöfnum frekar en að nota rósamál. Fjármálaráðherrann hefur að mínu mati gert sig fyllilega verðugan þeirra orða sem um hann eru notuð hér í fyrirsögninni og ef eitthvað er svívirðilegt þá er það framganga hans sjálfs í umræddu máli.

Það vekur athygli mína að í öllum þínum fjölmörgu athugasemdum hér minnist þú ekki á það einu orði hvað þér sjálfum finnst um umræddar embættisfærslur Árna Matt. Ég gaf mér vissulega þær forsendur að þú tilheyrðir aðdáendaklúbbi hans en ef ég hef staðsett þig út frá vitlausum núllpunkti í pólitík þá finnst mér það miður.

Sigurður Hrellir, 31.3.2008 kl. 11:55

29 identicon

Ég drap niður &#132;penna&#147; í upphafi til að lýsa vanþóknun minni á þeim skorti á siðgæði sem víða má sjá og látinn er viðgangast á síðum margra bloggara.   Ég trúi ekki öðru en þú, Lára Hanna og einnig þú Sigurður Hr. hafið orðið vör við svipuð viðbrögð undanfarið, því ég er greinilega ekki einn um þessa skoðun.   

Ég vafra um og les mér til gamans og fróðleiks skrif annara á síðum bloggsins og lærist fljótt að sniðganga þær síður sem mér finnst undir velsæmismörkum.  Þessi síða hefur mér,  fram til þessa, þótt hafa það mikið &#132;kalíber&#147; þá er ég hef litið hér inn, að þegar það langt var gengið að lágkúra var það orð sem mér kom helst í hug, brást ég við því.  Mér fannst síðan setja ofan við þessa færslu.  Ég fer heldur ekki ofan af því að skrif þau sem einkenndu hana og viðbrögð eins og þau sem Sig R. Þórarinsson skildi hér eftir sig, eru undir velsæmi. En við höfum auðvitað hvert okkar þröskuld í því efni.

Mér finnst það gott viðmið að ef ég myndi hika við að benda börunum mínum og barnabörnum á að lesa það sem ég skrifa þá sé það betur látið óbirt almenningi.  Þessi skrif hefðu ekki staðist það mat.

Það þarf ekki að skrifa neitt rósamál til að láta vanþóknun sína í ljós kröftuglega.  Ég tel heldur ekki að ég hafi verið dónalegur í þessum skrifum mínum, né notað svívirðingar hér en samt hlýt ég að hafa komið við einhver kaun, miðað við þau viðbrögð sem þau hafa kallað fram.

Ég hvet þig Lára Hanna að halda áfram á sömu braut og næstu tvær færslur, eftir þessa, hafa verið.  Þær eru til mikillar fyrirmyndar og umfjöllunin í hæsta máta þörf.

Læt ég svo þessum skoðanaskiptum lokið.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 13:05

30 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir þín innlegg hér, Sigurjón, og ég get fullvissað þig um að þú hefur alls ekki verið dónalegur. En þú hefur ekki heldur komið við - að minnsta kosti ekki mín kaun. Ég fagna skoðanaskiptum sem fram fara á málefnalegan og kurteislegan hátt, þótt í þetta sinn getum við verið sammála um að vera ósammála.

Þakka þér líka fyrir hlýleg orð og hrós í minn garð fyrir önnur skrif mín á síðuna, þó að þessi pistill hafi ekki fallið þér í geð. Vonandi heldurðu áfram að líta hingað inn og vertu ævinlega velkominn.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.3.2008 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband