Meira af eldheitum skipulagsmálum í Reykjavík

Það er ekki ofsögum sagt að skipulagsmálin í Reykjavík séu mikið rædd þessa dagana og enn bætist við ítarefnið sem nauðsynlegt er að kynna sér. Eins og sjá má af athugasemdum við fyrri færslu mína eru ýmsar skoðanir á lofti og fólk ekki par ánægt með hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, einkum í miðborg Reykjavíkur. Einnig er stórmál komið upp á Akureyri sem lesa má um hér og djúpstæður ágreiningur er milli íbúa á Selfossi og bæjaryfirvalda þar - svo ekki sé minnst á ósköpin sem hafa gengið á í Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi mál eru síst bundin við Reykjavík eingöngu þótt þessa dagana sé miðborg hennar í brennidepli.

Hagsmunatengsl eru fólki augljóslega ofarlega í huga og af fréttum og viðbrögðum manna má merkja að spilling er greinilega mjög algeng þegar um lóðabrask, húsabrask og aðra fjárplógsstarfssemi á því sviði er að ræða. Því hvað er það annað en spilling þegar verktaki borgar í kosningasjóð og fær að launum verðmætar lóðir sem hann getur skipulagt að eigin geðþótta og grætt tugmilljónir á? Hvað er það annað en spilling að formaður skipulagsnefndar bæjarfélags starfi fyrir einn verktakann í bænum eins og kemur fram í einni athugasemdinni við fyrri færslu? En hér á landi eru engin lög - hvað þá viðurlög - við spillingu. Hún er umborin eins og hvert annað hundsbit. Fólk tautar og skammast hvert í sínu horni eða á sinni kaffistofu en yfirvöld eru aldrei krafin skýringa og aldrei reyna fjölmiðlar að fletta ofan af slíkri spillingu og neyða ráðamenn til að afhjúpa siðleysið.

Ef brotið er á rétti almennings, yfir hann vaðið og lífsgæði hans skert, eru fáar leiðir færar og glíman við kerfið, embættismenn og peningavaldið virðist oftar en ekki fyrirfram töpuð. Þegar svo úrskurður berst frá æðstavaldinu er eina leið fólks að ráða sér rándýran lögfræðing og fara í einkamál við verktakann - eða hvern þann sem braut á því - og renna blint í sjóinn með útkomu málsins. Það er á fárra færi. Svona mál eru orku- og tímafrek og reikningar lögfræðinga stjarnfræðilega háir.

Hjálmar SveinssonEinn er sá útvarpsmaður sem hefur um langa hríð fjallað mjög vel og skilmerkilega um skipulagsmál á Rás 1. Það er Hjálmar Sveinsson í þætti sínum, Krossgötum, sem nú er sendur út klukkan 13 á laugardögum. Í fyrravetur helgaði Hjálmar þáttinn skipulagsmálum mánuðum saman og mér telst til að ég eigi í það minnsta 14 þætti sem ég tók upp. Þessir Krossgötuþættir eru fjársjóður fyrir áhugafólk, því Hjálmar tók afar faglega og ítarlega á málinu og ræddi við fagfólk á ýmsum sviðum skipulags- og byggingamála, sem og við almenning. Í þáttunum kom ótalmargt fram sem á brýnt erindi við borgar- og skipulagsyfirvöld hvar sem er á landinu, ekki síður en málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem minnst var á í pistlinum hér á undan.

Í rúmlega ársgömlum tölvupósti til nágranna minna vegna mála í nánasta umhverfi okkar sagði ég: "Mikið hefur verið rætt um umhverfismál á landsvísu, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sagt að umhverfismálin verði mál málanna í komandi alþingiskosningum, jafnvel að nýr flokkur verði stofnaður utan um þau mál. Ég fagna þessari umræðu, ekki veitir af.

Þetta mál og fleiri af sama toga eru líka umhverfismál - á borgarvísu - og verðskulda einnig athygli og umfjöllun auk þess sem þau snerta lífsgæði tugþúsunda íbúa gamla Vesturbæjarins og nágrennis.

Talað er um stóriðjuæði og virkjanafíkn á landsvísu, en á borgarvísu mætti tala um byggingaræði og þéttingarfíkn. Auk þess er æðibunugangurinn slíkur að hroðvirkni hefur valdið miklu tjóni og enginn ber ábyrgð eins og fram kom hjá fréttastofu RÚV í umfjöllun um þau mál í janúar sl."

Í þessari umræðu er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, a.m.k. ekki í Reykjavík. Þéttingaræðið hófst á valdatíma R-listans og ekki virðist ennþá hafa tekist að stöðva það - eða að minnsta kosti að hægja á ferðinni svo hægt sé að horfa heildstætt og skynsamlega á málin. Kannski er umræðan nú vísir að hemlun, eða það vona ég altént.

Á flakki mínu um blogg Egils Helgasonar sá ég athugasemd við eina færsluna hans frá 25. mars sl. sem mér finnst rétt að benda á sem dæmi um vinnubrögðin í skipulags- og byggingamálunum: 

"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.

Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvart þegar hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa- og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."

Finnst einhverjum þetta viðunandi vinnubrögð? Ég veit af fenginni reynslu að þetta er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og er samþykkt, því það væri svo dýrt fyrir verktakann að breyta því sem búið er að gera. Ekki kemur til álita að meta tjónið sem t.d. nágranninn verður fyrir og enginn er ábyrgur.

Í dag, sunnudag, voru tveir þættir í sjónvarpinu sem komu inn á skipulagsmál, Silfur Egils og Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Hjá Agli var Þórður Magnússon, einn stjórnarmanna endurreistra Torfusamtaka, og hjá Evu Maríu var Björn Ólafsson, arkitekt, búsettur í París.

Ég set bæði viðtölin inn hér að neðan. Viðtalið við Þórð er endasleppt, Egill fór mínútu eða svo yfir tímann og þá er klippt á útsendinguna á Netinu. Það verður væntanlega lagað og þá endurvinn ég upptökuna og set úrklippuna inn á ný.
Uppfærsla: Nýtt myndband komið inn með endinum.

Björn fór um víðan völl í löngum þætti og sagði mjög margt áhugavert, en ég klippti út það sem hann sagði um skipulagsmálin í Reykjavík sem hér eru til umræðu og þau skelfilegu mistök að láta gróðabrask ráða ferðinni.

Þórður Magnússon í Silfri Egils - 30. mars 2008

Björn Ólafsson í Sunnudagskvöldi með Evu Maríu - 30. mars 2008

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Gíslason

Kærar þakkir Lára Hanna, fyrir allan þennan fróðleik um skipulagsmál. Ég held eins og margir fleiri að þarna séum við á miklum villigötum. Við hömumst við að endurtaka mistök sem aðrar þjóðir eru búnar að læra af - og afleiðingin verður óaðlaðandi byggð og minni lífshamingja. Þeim sem ekki skilja svoleiðis hugtök má vel benda á að blómlegur atvinnurekstur þrífst ekki þar sem fólk þrífst ekki.

Stefán Gíslason, 31.3.2008 kl. 08:39

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk, ég fer alltaf ögn betur upplýstari héðan, þ.e. eftir lestur pistlanna þinna.

Takk aftur fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.3.2008 kl. 09:42

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir frábæran pistil og áhugaverða tengla, Lára.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 31.3.2008 kl. 11:37

4 identicon

Takk fyrir mjög áhugaverða lesningu!

Dagný Reykjalín (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 12:00

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta - og maður spyr sig, hvar eru öflug íbúasamtök t.d. í miðbæ R.v.k.? Engin, því verktakar hafa hrakið fólk í burtu í stórum stíl frá miðbænum með uppkaupum á húsnæði. Kæmi mér ekki á óvart, að þessir „athafnamenn“ væru með spreybrúsagengi á sinni launaskrá miðað við atganginn í þeim efnum undanfarna mánuði og misseri...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 31.3.2008 kl. 12:33

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég fór í langt frí í febrúar með iPod-inn í vasanum og hafði m.a. með mér stórt safn af Krossgötuþáttum Hjálmars um skipulagsmál. Það er mjög upplýsandi og áhugavert að hlusta á þættina hans og í raun algjörlega einstakt að fylgjast með svo ítarlegri umfjöllun um ákveðin mál.

Takk fyrir marga fína pistla að undanförnu. 

Sigurður Hrellir, 31.3.2008 kl. 13:01

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kærar þakkir fyrir einstaklega vandaðan pistil. Þú hittir naglann á höfuðið eins og oftast.

Ágúst H Bjarnason, 31.3.2008 kl. 17:58

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Alveg ertu dásamleg :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 31.3.2008 kl. 18:09

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Óskar Þorkelsson, 31.3.2008 kl. 18:43

10 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég trúi ekki öðru en að deiliskipuleggjendur fari að sjá að sér. Trúi ekki öðru. Trúi því.

Það er nefnilega líka svo dásamlegt hvað Þórður, Björn og svo Sigmundur sem hefur skoðað austur-evrópskar borgir eru öfgalausir. Þeir eru málefnalegir og ég ætla að trúa því að menn með svona málflutning nái í gegn. Það er vakning.

Berglind Steinsdóttir, 31.3.2008 kl. 18:45

11 Smámynd: Bumba

Þú ert alveg frábær, væri hægt að fá þig sem forsætisráðherra eða forseta?  Með beztu kveðju.

Bumba, 31.3.2008 kl. 19:42

12 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Frábært innlegg, Lára mín. Ég vildi óska að til væru fleiri eintök af manneskjum eins og þér í baráttunni við eiginhagsmunapot, klíkuskap og kerfiskarla sem láta undan pólitískum og efnahagslegum þrýstingi. Það hafa átt sér stað hér í borg mörg skipulagsslysin sem seint eða ekki verða aftur tekin og Reynar álitamál hvort það sé rétt að tala um "slys" því oft er þetta allt með ráðum gert. Afkomendur okkar sitja uppi með mistök misviturra valdhafa - hvort sem um er að ræða klúður í borginni okkar (sem oft er hægt að laga og breyta ef viljinn er fyrir hendi) eða óbætanleg náttúruspjöll vegna gullgreftrar skamsýnna og einfaldra manna sem sitja við völd á örlagatímum. Takk fyrir að miðla þessu til okkar.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 31.3.2008 kl. 20:44

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gott innlegg. Ég sá þáttinn Sunnudagskvöld með Evu Maríu, þar sem hún ræddi við Björn Ólafsson. Fróðlegur þáttur, þar sem Björn ræddi málin málefnalega.

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 23:09

14 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Glæsilegur pistill hjá þér, - ég gef þér skýrslu um Bryggjuhverfið .þegar ég losna við helv. hausverkinn. Já,og líka: ég reyni alltaf að hlusta á þættina hans Hjálmars, hann er góður útvarpsmaður.

María Kristjánsdóttir, 31.3.2008 kl. 23:32

15 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Lára Hanna, þínar færslur eru með því besta sem gerist á Moggabloggi. Það versta við góðar færslur að það þarf tíma til að skoða þær. Þann tíma gaf ég mér í kvöld og skoðaði nokkrar sjónvarpsklippur. Bestur fannst mér Sigmundur Davíð í Silfri Egils. Það setti það sem er að gerast í miðbænum í samhengi og það er ljóst að það sem er í gangi þar má ekki ganga lengur.

Takk fyrir og áfram gakk.

Kristjana Bjarnadóttir, 1.4.2008 kl. 00:22

16 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk fyrir enn einn frábæra pistilinn Lára Hanna, þetta er sko þörf umræða.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 1.4.2008 kl. 02:07

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

AFAR fróðleg og góð færsla Lára Hanna. Frábært að þú skulir gefa þér tíma til þess að setja hluti í samhengi með þessum hætti.

Baráttukveðjur héðan að vestan.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.4.2008 kl. 08:59

18 identicon

Þúsund þakkir fyrir frábæran pistil. Við sem stöndum í baráttu á Akureyri viljum gjarnan tengja í þennan pistil. Ætli það væri ekki ráð fyrir okkur að senda svo link á færsluna á bæjarfulltrúaana okkar.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 12:57

19 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það má ýmislegt segja um deiliskipulagið fyrir miðborgina og þær sérkennilegu hugmyndir að hún sé þróunarsvæði fremur en verndarsvæði. En þó að deiliskipulagið sé slæmt er þó raunveruleikinn mun verri. Hér er smá bútur úr breytingartillögu sem sótt hefur verið um fyrir allmargar lóðir við Lindargötu og Veghúsastíg:

"Samanlagður gólfflötur eykst úr 1.366.5 m² í 2.510.0 m². Heimilaðar verði smá útbyggingar og svalir út fyrir byggingarreiti þar sem unnt er að koma þeim fyrir."

Með öðrum orðum er sótt um tæplega tvöföldun byggingamagns miðað við gólfflöt frá því sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir. Almenningi gefst kostur á að senda inn athugasemdir við þetta fram til 11. apríl og beini ég þeim tilmælum Torfusamtakanna hér með til allra að kynna sér tillöguna og mótmæla.

Sigurður Hrellir, 1.4.2008 kl. 14:54

20 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir Lára Hanna. Í morgun horfði ég á menn grafa holur í gröfunum, trúlega til að skoða hvort ófreskjurnar sem VERKTAKINN vill byggja þar sökkvi eða hallist á hliðina. Innleggið þitt í þessa mikilvægu umræðu er hvetjandi í meira lagi.

Pálmi Gunnarsson, 2.4.2008 kl. 01:17

21 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta var sannarlega fróðlegt og gott innlegg. Sumt af þessu hafði farið framhjá mér og því mjög gott að sjá þetta hér.

Steingerður Steinarsdóttir, 3.4.2008 kl. 11:15

22 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Þakka þér fyrir að koma þessu ólagi svona vel frá þér Lára Hanna, ég hafði gott af þessum lestri. Takk fyrir mig.

Eva Benjamínsdóttir, 9.4.2008 kl. 14:18

23 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa helgi mín kæra

Brynja skordal, 11.4.2008 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband