Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - Kompás og Ísland í dag

Kompás á þriðjudagskvöldið var vægast sagt fróðlegur þáttur. Í honum var fjallað um ýmsar hliðar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum og margt stendur upp úr eftir umfjöllunina. Þetta var ein allsherjar hrollvekja.

Gróflega skipti ég málinu í þrjá hluta miðað við umfjöllun Kompáss. Í fyrsta lagi það sem snýr að náttúrunni og afleiðingum framkvæmdarinnar á hana og þá væntanlega ferðaþjónustu í fjórðungnum og fleira sem þar er fyrir. Í öðru lagi það sem snýr að framkvæmdaraðilum, fjármögnun, tilgangi og slíku. Í þriðja lagi íslenskum sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum og ráðherrum.

Í Íslandi í dag á Stöð tvö í gærkvöldi kom greinilega fram að ráðherrar vita mest lítið um málið og ekkert um hverjir standa á bak við það. Í Kompásþættinum kom fram að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vita heldur ekki neitt. Hversu bláeygir geta menn verið? Á að fórna náttúru Íslands, fiskimiðunum, fuglabjörgum og ímynd landsins fyrir rússneska olíurisa sem þurfa að flikka upp á eigin ímynd á Vesturlöndum? Mér finnst þetta óhugnanlegt. Gríðarlega mikið er í húfi og stjórnvöld vita ekkert um málið!

En ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta í þessum pistli, nóg sagði ég í þeim síðasta og athugasemdakerfinu þar. Þetta er meira sett hér inn sem heimild þótt ég hafi engan veginn lokið máli mínu. Horfið, hlustið og takið afstöðu í þessu mikilvæga máli.

Ég ætla að vitna í orð Aðalbjargar Þorsteinsdóttur frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði. Hún hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem eru smám saman að komast á markað. Orð þessi lét hún falla á málþingi um nýsköpun og fleira sem fram fór í Hafnarfirði 28. apríl 2007. Aðalbjörg kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á, að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af.

Mig langar líka að biðja fólk að hugsa til þeirra hjóna, Maríu Bjarnadóttur og Víðis Hólm Guðbjartssonar, sem búa í Bakkadal, næsta dal í byggð fyrir utan Hvestu í Arnarfirði þar sem olíuhreinsunarstöðin yrði mögulega reist. Fyrir neðan myndböndin set ég inn viðtal við Víði sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl. Reynið að ímynda ykkur hvernig þeim hjónum líður við að fá þennan óskapnað nánast í túnfótinn hjá sér. Ég vitnaði í Maríu í athugasemd við síðasta pistil. Orð sem hún skrifaði mér í tölvupósti og ég fékk gæsahúð þegar ég las. Þessi ungu hjón myndu hrekjast á brott, dalurinn þeirra fara í eyði og hvað kæmi í staðinn? Erlendir farandverkamenn sem staldra við í tvö eða þrjú ár?

Viðbót: Lesið þessa frétt á Eyjunni, þar kemur sitthvað fróðlegt fram.


 Kompás, þriðjudaginn 15. apríl 2008




 
Ísland í dag, miðvikudaginn 16. apríl 2008




Moggi_Víðir_020208

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég játa að ég varð nánast kjaftstopp og skelfingu lostin reyndar eftir Kompásþáttinn.  Ég fékk þessa tilfinningu að það yrði vaðið yfir okkur sem viljum ekki þessa nauðgun á náttúru og fólki og að fórnarkostnaðurinn skipti engu máli.  Ég held að það sé nokkuð ljóst að borgarar þessa lands verða að rísa upp á afturlappirnar og gera eitthvað til að veita þessum óþverra áætlunum viðnám. 

Takk kærlega fyrir þín innlegg í málefnið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.4.2008 kl. 08:18

2 Smámynd: Bragi Ragnarsson

Takk Lára Hanna fyrir að koma þessu á framfæri.  Ég sá ekki Kompásþáttinn en var nú að hlusta á hann.  Þetta eru óhugnanlegar upplýsingar um viðskiptahætti þessara fyrirtækja og ekki eftirsóknarvert að fá þessa aðila inn í íslenskt viðskiptalíf - nóg er nú af ævintýramönnum fyrir.   Að ekki sé talað um umhverfismálin og óspillta náttúru Vestfjarða, við höfum ekkert við svona fyrirtæki að gera þarna.

Bragi Ragnarsson, 17.4.2008 kl. 09:45

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær pistill hjá þér Lára.  Ég óttast það mjög að efnahagsástandið á næstu árum verði notað sem afsökun ráðamanna til þess að hola þessum viðbjóði niður fyrir vestan.  Ég sem brottfluttur vestfirðingur get ekki hugsað mér að fá þetta á vestfirði.. eða yfir höfuð til íslands.

Óhugnalegt fyrirbæri.

Óskar Þorkelsson, 17.4.2008 kl. 09:58

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Minni á að ef sauðfjár- eða nautgripabændur eru að fjargviðrast yfir mögulegri mengunarhættu þá eru þeir nánast undantekningarlaust að kasta steinum úr glerhúsi.

Eyðing lands af völdum ágangs búfjár er alvarlegasta umhverfisógnin sem steðjar að okkur hér á landi og hefur gert lengi.

Theódór Norðkvist, 17.4.2008 kl. 10:54

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það setur að manni dauðahroll þegar þetta mál er skoðað betur. Hér er verið að tala um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Alþingi virðist lítið hafa um málið að segja á fyrri stigum. Bæjarstjóranum í Vesturbyggð er boðið í kaffi hjá rússneska sendiherranum þar sem honum er sagt að hafa engar áhyggjur.

Gulræturnar eru eflaust ófáar fyrir þá íbúa fyrir vestan sem ekki eru sáttir við sitt hlutskipti. Auk þess ef framkvæmdin á að kosta 300.000 milljónir væri einungis 1% af því (3 milljarðar) nóg til að kaupa mikinn velvilja á staðnum. Þeir sem þora að malda í móinn verða hreinlega lagðir í einelti.

Eins og fram kemur í "Ísland í dag" munu væntingar til verkefnisins verða svo miklar að illmögulegt verður að hætta við. Umhverfismat í höndum framkvæmdaaðila verður einungis leiðbeinandi og allar athugasemdir vega því lítið. Mengunarkvóta má eflaust kaupa ef ekki verður pressað á um enn eina undanþáguna fyrir Ísland.

Arfur Framsóknarflokksins er yfirþyrmandi. Í skipulags- og byggingarlögum frá 1997 (frumvarp Guðmundar Bjarnasonar þáverandi umhverfisráðherra) er kveðið á um að veiting framkvæmdaleyfis (gr.27) og byggingarleyfis (gr.43) sé í höndum sveitarstjórna. Í ljósi þessa máls með olíuhreinsunarstöðina, álverið í Helguvík og fl. hlýtur að þurfa tafarlausa endurskoðun á lögunum. Það getur ekki staðist að einstakir bæjarstjórar eða sveitarstjórnir taki ákvarðanir um svo dýran, orkufrekan og mengandi iðnað. Afleiðingarnar, umhverfislegar, þjóðhagslegar og samfélagslegar, eru einfaldlega allt of miklar.

Sigurður Hrellir, 17.4.2008 kl. 11:54

6 Smámynd: Stefán Gíslason

Takk Lára Hanna fyrir að halda þessu öllu saman og gera svona aðgengilegt. Málið er af þeirri stærð, að sem flestir þurfa að setja sig vel inn í allar hliðar þess sem fyrst. Ákvörðun um að ráðast eða ráðast ekki í framkvæmd af þessu tagi skiptir þjóðina alla afar miklu máli. Þess vegna á þjóðin öll að vera með á nótunum og tjá sig um kosti og galla, ógnir og tækifæri. Kostirnir, gallarnir, ógnirnar og tækifærin, hvort sem litið er á umhverfislegar, efnahagslegar eða félagslegar hliðar málsins, eru ekki mál einnar sveitarstjórnar, eins fjarðar eða eins dals, heldur þjóðarinnar allrar!

Stefán Gíslason, 17.4.2008 kl. 12:14

7 Smámynd: Bumba

Frábær að vanda, kærar þakkir, innlitskvitt. Með beztu kveðju.

Bumba, 17.4.2008 kl. 14:52

8 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Frábært að fá þessar upplýsingar frá þér svona vel samanteknar. Ég vil ekki sjá þennan viðbjóð sem á að hólfa niður á Vestfjörðunum, þetta er risastórt svínarí! Þetta mál varðar okkur öll sem búa á Íslandi og vonandi láta sem flestir í sér heyra.

Úrsúla Jünemann, 17.4.2008 kl. 15:01

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vestfirsk náttúra allt betra skilið en að verða vattvangur varhugaverðugra athafna. Starfsemi olíuhreinsistöðvar gæti eyðilagt um aldur ævi sérstæða náttúru ef alvarleg mistök verða sem ekki er útilokað þegar haft er í huga að þarna er eitt mesta veðravíti landsins á veturna. Stefán Gíslason hefur skoðað þessi mál út frá ýmsum staðreyndum sem vert er að skoða. 

Endilega haltu áfram á þessari braut Lára Hanna: Þú átt þúsund þakkir skildar fyrir að standa vörð um náttúru Vestfjarða, öðrum ólöstuðum.

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 17.4.2008 kl. 15:52

10 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

"Ekki hafa mig fyrir því" sagði annar hver maður sem ég hef talað við fyrir vestan. Umræðuefnið: Olíuhreinsistöð sem rætt hefur verið um að setja niður í þeirra heimabyggð. Ég hef þráfaldlega orðið vör við að fólk vill ekki sjá þennan óskapnað, er hrætt við mengunarslys og fl. vandamál en þegar á hólminn er komið vill það ekki mótmæla. "Maður er álitinn drottinsvikari ef maður mótmælir," segja menn óhikað og nánast hvísla hinum raunverulegum skoðunum sínum. Mér þætti gaman að sjá skoðanakönnun um þessi mál vestra og er reyndar sannfærð um að hún yrði ekki olíuhreinsunarskrímsli í hag. Það vill svo til að ég er oft með annan fótinn á Vestfjörðum - enda á ég ættir að rekja þangað og ræði þessi mál reglulega. Ein ágæt kona á mínum aldri sagði þó krókalaust og án hiks: "Ég vil fá þessa stöð sem allra fyrt hingað í Dýrafjörðinn svo við getum komið okkur í burtu. Þá fáum við loknins eitthvað fyrir húsið okkar." Er þetta eðlilegt?

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 17.4.2008 kl. 17:10

11 identicon

Ég trúi því ekki að fólk fyrir vestan láti hafa sig út í þessa vitleysu. Það getur heldur enginn sannfært mig um að Vestfirðingar sjálfir fari að vinna skítverkin í þessari olíuhreinsistöð.

Hans Magnússon (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 18:00

12 identicon

Ég var að ræða málið hér á heimilinu og eitt afþví sem við ræddum var mótivasjónin hjá Rússunum. Af hverju eru svona margir Íslendingar svona vitlausir að vera alltaf að láta einhver vafasöm fyrirtæki úti í heimi plata inn á sig arfavondum og á stundum stórhættulegum hugmyndum? Allir fá dollaramerki í augun og segja bara: Komið endilega, það skapar svo mörg störf! Hvað varð um gagnrýna hugsun ? Pirrrrrrr

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 20:20

13 Smámynd: Hundshausinn

Þú dregst að hjartarrótum - vitneskjan  að baki fyrirhugaðri framkvæmd er bæði lítil og ófyrirséð er um mögulegar afleiðingarnar.Verðmæti Vestfjarða, til lengri framtíðar litið, felst í óspilltri náttúru, sem þykir einstök á gervallri jarðkringlunni. Ásókn ferðamanna í slíka paradís á eftir að margfaldast á næstu árum. Hvers vegna að forsmá slíkan möguleika með olíuhreinsunarstöð á hverfanda hveli. Aðrir umhverfisvænni orkugjafar eru handan við hornið...

Hundshausinn, 17.4.2008 kl. 21:55

14 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir enn einn góða pistilinn,  - Ég vil bara taka undir orð Sigurðar Hrellis hér fyrir ofan um, að það getur ekki verið, að einstakir bæjarstjórar eða sveitastjórnir taki ákvörðun um svo dýran og orkufrekan, mengandi iðnað.  - Afleiðingarnar eru einfaldlega alltof miklar, umhverfislega, þjóðhagslega og samfélagslega fyrir Ísland. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 18.4.2008 kl. 01:28

15 Smámynd: Óðinn Þórisson

"Ekki hafa mig fyrir því" ekki marktækt og ekki svaravert - því miður - á meira heima í saumaklúbbsumræðu.  
Jurtafyrirtæki vs olíuhreinsunarstöð, eigum við nokkuð að ræða það.
Til að svara þeim sem hafa þú undarlegu skoðun að bæjarstjórar og sveitarstjórnir eigi ekki að taka ákvarðanir - ég hélt að það væri hlutverk þeirra sem væru í stjórnmálum að taka ákvaranir - kanski ekki- kanski eiga þeir bara að þiggja laun og mæta í fundi án þess að taka ákvarðanir.
Raunvöruleikinn er að Vestfyrðingar standa frammi fyrir tveimur valmöguleikum, annarsvegar að fá alvöru fyrirtæki sem mun koma hlutunum  í gang aftur eins og gerðist með glæsilegum hætti á Austfjörðum þegar Kárahnjúkar urðu að veruleika. Hinn valmöguleikinn er það sem vg-istar og svokallaðir umhverfis og náttúruverndarsinnar vilja að þeirra leið verði farin sem er stoppstefna án lausna.
Eg styð Vestfirðinga og vill ekki að Vestfirðir leggist í eyði.
Miklir peningar/störf munu koma inn í samfélagið - veit ekki hversvegna lítill hópur fólks vill það ekki.

Hanna Lára þú átt hrós skilið fyrir að vera mjög málefnaleg og leggur þig greinilega mikið fram við þessa pistla en enn hef ég ekki getað tekið undir einn staf sem þú hefur ritað.

Óðinn Þórisson, 18.4.2008 kl. 22:00

16 Smámynd: Óðinn Þórisson

Lára Hanna biðst velvirðingar á að hafa snúið nafninu þínu við.

Óðinn Þórisson, 18.4.2008 kl. 22:10

17 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Það verður að gera eitthvað verulega róttækt til að vekja þá Vestfirðinga til lífsins, sem ekki eru að hugsa málið til enda. Hætturnar við Olíuhreinsistöð eru of margar til að þessi vitleysa nái í gegn. Þetta er Níðingsháttur á okkar fagra Ísland. Ég spyr: Hvað á þetta að þýða? Svari þeir sem komu með þessa fjarstæðukenndu hugmynd.

Frábærir pistlar hjá þér Lára Hanna, takk fyrir mig.

Eva Benjamínsdóttir, 19.4.2008 kl. 00:08

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Náttúrubarnið Lára mín Hanna í fimmta gír. Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri? Það er hún Lára Hanna, það er hún Lára Hanna! ...

Þorsteinn Briem, 19.4.2008 kl. 11:37

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ótrúlegur áróður í þessum Kompásþætti. Skammarleg vinnubrögð hjá rannsóknarfréttamönnum. Þetta var eins og snýtt úr hornösum öfgaumhverfisverndarsinna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.4.2008 kl. 21:56

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og athugasemdir. Það hættir aldrei að koma mér á óvart hve margir nenna að lesa þessa löngu pistla mína, horfa á myndböndin og skrifa athugasemdir við hvern pistilinn á fætur öðrum. Að auki fæ ég upphringingar og tölvupóst sem lýsa undantekningarlaust jákvæðum viðbrögðum, stuðningi og jafnvel viðbótarupplýsingum.

Einnig hefur vakið athygli mína að athugasemdir eins og Óðins og Gunnars Th. hér að ofan heyra nánast til undantekninga og eru gjarnan frá sömu mönnunum. Raddir virkjunarsinna heyrast sjaldan, að minnsta kosti hér á minni bloggsíðu, og virðast hjáróma innan um allar hinar sem taka undir það sjónarmið sem ég berst fyrir í málflutningi mínum. Fæstir koma aftur og það eru ekki nema hetjur á borð við Óðinn Þórisson sem virðast leggja í það hvað eftir annað. Mér þykir miður að fá ekki fleiri slíkar athugasemdir, því þær veita mér tækifæri til enn frekari umfjöllunar og rökstuðnings - ef eitthvað er í þær varið. Og ég er alltaf að sjá ný og ný andlit og nöfn í athugasemdakerfinu. Það þykir mér ólýsanlega vænt um.

Óðinn segir "Ekki hafa mig fyrir því" ómarktækt og ekki svaravert. Það er alrangt. Við lifum ekki í lýðræðisþjóðfélagi þar sem þegnarnir hafa málfrelsi. Á Íslandi ríkir undarlegt ástand þar sem fólki er refsað harðlega fyrir að tjá sig og segja skoðanir sínar upphátt. Hér má lesa um áþreifanlegt, nýlegt dæmi um slíkt. Eins og áður sagði hef ég fengið upphringingar og tölvupóst allt frá því ég byrjaði að blogga 1. nóvember 2007 frá fólki sem ekki vill láta nafns síns getið opinberlega af ótta við hefndaraðgerðir yfirmanna eða stjórnvalda. Þetta er raunveruleg ógn sem við búum við í "lýðræðisríkinu" Íslandi í dag. Þetta er líka ástæða þess að fjölmargir kjósa að blogga undir dulnefni. Hér ríkir nefnilega ekki skoðanafrelsi en við þreytumst ekki á að gagnrýna önnur lönd fyrir skoðanakúgun á þegnum sínum. Þetta er altalað og ætti ekki að koma neinum á óvart. Ég skrifaði pistil um hræðsluna hér og benti þar einnig á aðra pistla um sama málefni.

Óðinn segir það undarlega skoðun að bæjarstjórar og sveitastjórnir eigi ekki að taka ákvarðanir. Þetta er gróf rangtúlkun á þeirri umræðu sem hér fer fram - eða einfaldlega misskilningur Óðins. Það er enginn að tala um að þeir eigi ekki að taka ákvarðanir. En þeim á ekki að vera heimilt að taka ákvarðanir um mál sem snerta önnur sveitarfélög og íbúa þeirra, og koma jafnvel enn verr niður á þeim og íbúum þeirra. Sem dæmi um þetta er annars vegar álverið í Helguvík. Þar voru bæjarstjórar Reykjanesbæjar og Garðs kannski í fullum rétti að taka ákvörðun um að reisa álver. En til þess að hægt sé að reka þetta álver þarf að leggja náttúruperlu í allt öðru sveitarfélagi í rúst og leggja háspennulínur í gegnum 9 önnur sveitarfélög. Og sveitarstjórinn í Ölfusi vill leyfa OR að reisa Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi. Fyrir utan náttúruspjöllin sem það hefði í för með sér myndi sú virkjun spúa brennisteinsvetni yfir flestalla íbúa á suðvesturhorni landsins og mögulega menga grunnvatn Hvergerðinga. Það eru slíkar ákvarðanir sem eru óréttlætanlegar og eiga ekki að vera í höndum sveitar- eða bæjarstjórna. 

Óðinn segir líka: "Jurtafyrirtæki vs olíuhreinsistöð, eigum við nokkuð að ræða það." Jú, Óðinn... við eigum endilega ræða það. Við eigum að ræða um fórnina - hvað tapast og hvað kemur í staðinn. Við eigum að ræða forsendurnar fyrir því að taka frumkvæði af fólki sem vill gera góða hluti, sýna frumkvæði og skapa sér og sínum atvinnu - frekar en að fá mengandi stóriðju á hlaðvarpann og flóð af erlendum farandverkamönnum. Við eigum að ræða það hverjir græða á því - og hve mikið -  að svipta Aðalbjörgu fyrirtækinu sínu, Villimey, sem hún hefur varið tíma, hugviti og orku í að byggja upp. Við eigum að ræða það hverjir hafa hag af því að flæma Maríu og Víði af jörð sinni, Grænuhlíð í Bakkafirði við Arnarfjörð - og hvað kæmi í staðinn. Og við eigum að ræða það hve margir aðrir myndu flýja Vestfirðina ef þar yrði reist olíuhreinsistöð og hverjir kæmu í staðinn. Við eigum að ræða orsakir og afleiðingar, kosti og galla, og síðast en ekki síst -  hvernig framtíð við viljum búa landinu okkar og afkomendunum.

Óðinn segir mikla peninga og mörg störf koma inn í samfélagið ef reist verði olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. En hann lætur þess ekki getið hverjir hirði peningana og hverjir vinna störfin. Ég hefði haldið að það væri nokkuð ljóst af atburðum undanfarinna ára, en sumir eru lengur í afneitun en aðrir. Þessi athugasemd Óðins og hugsunin á bak við hana varð mér tilefni næsta pistils sem ég birti á blogginu fyrir um klukkutíma eða svo og ég vil þakka Óðni fyrir andagiftina.

Ég þakka Óðni líka fyrir hrós og hlý orð í athugasemdinni hér fyrir ofan og fyrirgef honum fúslega fyrir að hafa snúið nafninu mínu við. Hann er hvorki fyrstur né síðastur til þess.

Þetta varð lengri athugasemd en upphaflega var áætlað og jafnvel efni í nýjan pistil.

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2008 kl. 14:02

21 identicon

Mér finnst sorglegt hvað Íslendingar eru alltaf til í að stökkva á einhverjar töfralausnir sem eiga að redda skammtímavanda en þora ekki að fara í langtímalausnir.   Allt á að gerast núna og það á að redda öllu. 

Verðmæti Vestfjarða liggja að mínu mati klárlega í náttúrunni og því ætti miklu frekar að setja þá fjármuni, sem menn eru nú til í að setja í "töfralausnina" olíuverksmiðju, í bættari innri strúktúr og vinna að almennilegri ferðaþjónustu, t.d. sjóstangveiðinni.  Finna almennilegt flugvallarstæði, byggja upp hótel(og þá ekki ódýrar gámaherbergjalausnir) með gæði og þjónustu í huga.  Ekki spara neitt til í þeim pakkanum.    Sækja frekar í að fá efnameiri ferðamenn, ekki stefna á bakpokaferðamenn sem skilja lítið sem ekkert eftir sig, nema kannski umbúðirnar af sojamjólkinni.
Og svo má raka þar inn gulli(varð að setja smá töfralausnarblæ á þetta) í framtíðinni.  Það myndi auka lífsgæði á staðnum og skapa virkilega eitthvað fyrir samfélagið. 

Hin lausnin er bara að fá útlendinga til að vinna í verksmiðju sem íslendingar myndu aldrei fást til að vinna í nema rétt kannski fyrsta árið.  Og allir aðrir geta þá bara flutt burt.  Er það kannski það sem vestfirðingar vilja.  Tæma Vestfjarðarkjálkann.
Sér í lagi eftir að einhver rússneskur Kolbeinn kapteininn missir af bauju og losar fraktina í fjöruna.   Kannski er þetta "politically uncorrect" hugsun en bara það eitt að 300 risaolíudallar frá rússlandi eigi að koma hér á ári er eitthvað sem gerir þetta að tifandi tímasprengju í mínum huga. 

Ég vona að Vestfirðingar beri gæfu til að sjá þetta í réttu ljósi og átta sig á að það eru engar töfralausnir. 

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband