Athugasemdir og mótmæli

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóriÞað er gott að hafa góðan málstað að verja og með ólíkindum hve mikinn stuðning við, sem höfum barist gegn virkjunaráformum við Ölkelduháls, höfum fengið. Fólk gerir sér almennt mjög vel grein fyrir hvað er í húfi, ekki síst þegar það áttar sig á málavöxtum - sem eru æði skuggalegir í þessu máli öllu. Eða eins og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hvergerðinga segir í öðrum fréttatímanum hér að neðan: "Það er mjög mikil alda reiði gagnvart þessum virkjunaráformum þarna upp frá." Þetta er einmitt sama undiraldan og við höfum fundið í ótal samtölum, símtölum og tölvupóstum. Andstaðan við Bitruvirkjun er gríðarleg og ástæður hennar fjölmargar. En verður hlustað eða virkjunin keyrð í gegn, þvert á alla skynsemi, mótrök, athugasemdir og mótmæli?

Ég skrapp til Þorlákshafnar í dag til að hitta Björn Pálsson og Petru Mazetti í því skyni að afhenda Sigurði Jónssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss þau athugasemdabréf og mótmæli sem við vorum með. Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri, var ekki við og eins og fram kemur í frétt Magnúsar Hlyns á RÚV: "Birna Borg Sigurgeirsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, vildi ekki tjá sig um ályktun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá því í morgun þegar leitað var eftir því og ekki heldur um mótmælalistana. Sagði þá fara sína eðlilegu leið innan stjórnsýslunnar hjá sveitarfélaginu." Af hverju þessi þögn hjá Birnu? Getur þetta flokkast undir valdhroka? Hefur hún vondan málstað að verja? Hvað óttast hún?

Athugasemdirnar sem afhentar voru í dag voru mjög margar og enn eru ótaldar athugasemdir sem sendar hafa verið í pósti. Það verður væntanlega dágóður slatti. En þær tölur sem ég skrifaði hjá mér í dag eru þessar:

Afhent voru 620 athugasemdabréf með nöfnum 773 einstaklinga.
Þar af voru 523 búsettir í Hveragerði og 123 í dreifbýli Ölfuss.
Auk þess var tilkynnt um mótmælabréf í ábyrgðarpósti með undirskriftum 176 Hvergerðinga í viðbót.

Þetta eru alls 949 manns og eins og áður segir eru alveg ótaldar athugasemdir einstaklinga, samtaka og annarra sem sendar voru í pósti.

Íbúafjöldi Sveitarfélagsins Ölfuss 1. desember sl. var 1.930 (Hagstofan).
Greidd atkvæði í Sveitarfélaginu Ölfusi við síðustu sveitarstjórnarkosningar voru 1.029. Þar af eru atkvæðin á bak við meirihlutann 495.

Bara pæling...

Fréttin sem tengt er í hér neðst fjallar um athugasemdi Landverndar og á síðunni hjá mbl.is er hægt að opna .pdf skjal og lesa athugasemdina.

Sjónvarpsfréttir kvöldsins


Björn Pálsson og Petra Mazetti færðu Sigurði veggspjald...

Sigurði fært veggspjald


...sem hann hengdi auðvitað samstundis upp.

Veggspjald hengt upp


mbl.is Telur sveitarstjórn Ölfus vanhæfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þetta eru athyglisverðar tölur og segja meira en mörg orð. Árangur baráttu þinnar er glæsilegur. Þú átt mikinn heiður skilinn.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.5.2008 kl. 22:20

2 identicon

Húrra fyrir þér!!! Glæsilegt !!!

alva (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 23:31

3 Smámynd: Víðir Benediktsson

Baráttukveðjur, greinilega nýr Kárahnjúkur í farvatninu, Því miður er Landsvirkjun orðin ríki í ríkinu?

Víðir Benediktsson, 13.5.2008 kl. 23:38

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég myndi mæla með orðu á þig stelpa ef ég væri ekki dedd á móti svoleiðis prjáli.

Hvað eigum við að taka næst?

Mannúðarstefnu formanns félagsmálaráðs á Akranesi?

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.5.2008 kl. 00:45

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Hvar var sveitastjórinn og „útivistarmaðurinn“ Ólafur Áki Ragnarsson í gær?  Er hann kannski í fjallaklifri í útlöndum?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.5.2008 kl. 07:52

6 Smámynd: Bragi Ragnarsson

Frábært Lára Hanna, við skulum vona að þetta dugi til.  Ég var enn að reka menn til að póstleggja bréf í gær - ótrúlegt hvað það virðist erfitt hjá sumum að klára þetta þó þeir hafi fullan vilja til.  Fór svo að velta því fyrir mér hvort ekki sé alveg öruggt að bréf sem voru póstlögð í gær en berast til þeirra eftir 13. verði tekin til greina.  Er ekki ástæða til að fylgja því eftir?

Bragi Ragnarsson, 14.5.2008 kl. 08:54

7 Smámynd: halkatla

þú ert frábær, ég hef ekki neitt að segja umfram það

halkatla, 14.5.2008 kl. 14:06

8 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær árangur Lára Hanna. Þetta sýnir hvers einstakingar eru megnugir þegar þeir ákveða að láta ekki bjóða sér allt.

Steingerður Steinarsdóttir, 14.5.2008 kl. 14:45

9 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Frábært hve margir tóku þátt í mótmælaskrifum. Nú mun koma í ljós hvort  friðsamleg mótmæli hafa eitthvað að segja. Þegar fleiri en 1000 manns leggja inn mótmæli þá ætti það að hafa áhrif í lýðræðisþjóðfélagi sem við teljum okkur að búa í.

Úrsúla Jünemann, 14.5.2008 kl. 14:57

10 identicon

Ég færi þér Lára Hanna, Petra Mazetti og öllum hinum sem tóku þátt í undirkriftasöfnun bestu þakkir fyrir óeigingjarnt og þarft framtak í þessu mikilvæga máli og vona svo sannarlega að á sjónarmið náttúruverndara verði hlustað.  Öll vinna og barátta til sigurs um skynsamlega nýtingu lands og verndun mun verða þökkuð af komandi kynslóðum.    

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 16:15

11 identicon

Lestrarkvitt

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 19:28

12 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Bestu kveðjur til þín Lára mín, þú mátt vera glöð og sátt í litla hjartanu með afrakstur liðina daga ásamt félögum þínum. Hvernig sem annars svo fer, getið þið sagt örugglega með sanni, að þið hafið gert ykkar besta og af heilum hug.

Mikið betur verður tæplega gert!

Magnús Geir Guðmundsson, 14.5.2008 kl. 20:34

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, þetta eru athyglisverðar tölur, Kristjana - það segirðu satt. Ef við náum fleiri athugasemdum en kjósendur í Ölfusi samsvarar það að borist hefðu tæplega 65.000 athugasemdir við framkvæmd í Reykjavík. Það er nú slatti.

Takk fyrir, Alva.

Víðir - Orkuveita Reykjavíkur virðist vera ríki í borginni rétt eins og Landsvirkjun ríki í ríkinu.

Ég er líka dedd á móti prjáli, Jenný. En ég tek ekkert annað alveg á næstunni, þessu máli er langt í frá lokið. Þú tekur Akranes með trompi, ég er viss um að Gurrí og Þröstur Unnar hjálpa þér.

Ólafur Áki mun hafa verið á fundi í Reykjavík, Ásgeir. það er reyndar ekki yfir fjall að fara en jæja, það er brekka í Þrengslunum.

Já, Bragi... það vefst fyrir fólki. Þess vegna bauð ég fram hjálp. En póststimpillinn nægir - ef bréf er póststimplað 13. þá er það gilt.

Takk fyrir stuðning, Anna Karen.

Steingerður... bíddu, árangurinn er ekki kominn í ljós ennþá. Margar athugasemdir eftir að berast í pósti og svo er að sjá hvort og þá hvaða áhrif þetta hefur.

Úrsúla... mér virðast mótmæli alltaf hafa verið hunsuð á Íslandi, friðsamleg eður ei. En ef fleiri benda á hnökrana, lögleysuna, siðleysið og náttúruspjöllin eru meiri líkur að á okkur verði hlustað. Beita vitrænum þrýstingi.

Þakka þér fyrir, Snorri... og fyrir allan stuðninginn og athugasemdirnar sem frá þér hafa komið.

Sendi kvittun, Magnús... 

Já, ég er ósköp glöð og sátt eftir afrakstur liðinna mánaða, Magnús Geir. Þetta hefur verið langt og strangt ferli og því er engan vegin lokið.

Guðlaugur...  þegar ég sá athugasemdina þína var ég langt komin með næsta pistil þar sem ég legg einmitt út frá Spegilsviðtalinu við Stefán Arnórsson. Viðtalið er í tónspilaranum - það var alveg stórfróðlegt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.5.2008 kl. 00:54

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fáránlegur samanburður.... 65.000 manns! Þetta er allt á sömu bókina lært hjá ykkur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.5.2008 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband